Skip to main content
All Posts By

a8

Námskeið í kransagerð úr náttúrulegum efniviði

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir námskeiði í kransagerð úr náttúrulegum efniviði laugardaginn 5. nóvember kl. 10:00-15:30. Námskeiðið fer fram að Elliðavatni.

Sýnikennsla verður í gerð kransa (haust-, jóla-, köngla-, greni- og greinakransa) með náttúrulegt efni úr íslenskri náttúru og íslenskum skógum. Þátttakendur fá einnig tækifæri til að binda sína eigin kransa.

Skógræktarfélagið mun útvega greinar af furu, birki og víði, en þátttakendur mega gjarnan taka með náttúrulegt skreytingarefni, t.d. greinar, köngla, mosa, hálmkransa og þess háttar. Ef vel viðrar og tími gefst til verður farin stutt gönguferð til efnisleitar í skóginum. Gott að taka með sér vinnuhanska, greinaklippur, skæri, vírklippur, og körfu. Hægt verður að kaupa hálmkransa og annað skreytingarefni á staðnum.

Kennari: Kristján Ingi Jónsson blómaskreytir
Verð: 7.500 kr. Innifalið í verði er kaffi og meðlæti og súpa í hádegismat.
Hámarksfjöldi: 20 manns.

Skráning (fyrir 3. nóvember) og nánari upplýsingar hjá: Else Möller, else.akur@gmail.com, s. 867-0527 Sævar Hreiðarsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, saevar@heidmork.is, s. 893-2655.

skrvk-skreytinganamskeid

Ljósið í myrkrinu!

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Borgarfjarðar boðar til ljósagöngu um skógarstíga í Reykholti á laugardaginn 29. október kl. 18:00. Gangan hefst við Höskuldargerði. Þátttakendur mættu gjarnan hafa með sér luktir, kerti eða annað ljós til að glöggva sig á aðstæðum og lýsa upp forvitnilega grósku á leiðinni. Auk þess munu heimamenn, sr. Geir Waage og Óskar Guðmundsson í Véum, gera tilraun til að bregða birtu yfir óljós atriði í myrkviðum skógarins. Fyrir sumum mun þetta kannski verða eina ljósglætan þennan dag – kjördag 😉

Að lyktum verður kveiktur varðeldur og boðið upp á ljúffenga skógarsnúða og ketilkaffi. Miðað er við að fólk komist heim fyrir kosningavöku í sjónvarpinu.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar

skborg ljosa

Jólaskógurinn í Brynjudal – opið fyrir bókanir

Með Ýmislegt

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum fjölskyldum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 3.-4., 10.-11. og 17.-18. desember, auk  sunnudagsins 27. nóvember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær. Nú þegar eru dagar að verða fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551-8150 eða á netfangið rf (hjá) skog.is.

brynjud2016

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Kvöldganga í skógi

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 4. október kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Við upphaf göngunnar mun Anna Borg, formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, flytja stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665 8910.

skhafn-ljosa


Grasagarður Reykjavíkur: Reyniviður að hausti

Með Ýmislegt

Í Grasagarði Reykjavíkur er mikið reynisafn sem skartar sínu fegursta á haustin með fögrum litbrigðum laufanna og reyniberjum sem spanna allt frá hvítu yfir í bleikt og eldrautt.

Reynitrén í Grasagarðinum telja nokkra tugi tegunda og koma meðal annars frá Íslandi og Grænlandi, Nýfundnalandi, Pakistan og Japan svo fátt eitt sé talið.

Laugardaginn 1. október kl. 14 mun Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasagarðsins, leiða fræðslugöngu um reynisafn garðsins. Gangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins við Laugatungu.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

Frænámskeið (tínsla, meðhöndlun og sáning)

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir námskeiði um söfnun, meðhöndlun og sáningu trjáfræs. Kennari á námskeiðinu er Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Dagsetning: 1. október kl. 10:00-15:00 hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur á Elliðavatni.

Verð: kr. 5.000 – kaffi, bakkelsi og súpa er innifalið.

Dagskrá:

Kl. 10:00 Kynning
Kl. 10:15 Frætínsla – aðferð, tegundir, meðhöndlun, geymsla og sáning (fræ og könglar). Erindi: Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, Mógilsá
Kl. 11:30 Kaffi og spjall. Frætínsla – farið út og tíndir könglar og fræ 
Kl. 12:45 Súpa dagsins
Kl. 13:00 Hvað er gert með fræin? Farið verður yfir fræmeðhöndlun frá A til Ö
Kl. 14:30 Umræður og lokaorð.

 Skráning fyrir 26. september. Upplýsingar og skráning: Else, else.akur@gmail.com eða Sævar saevar@heidmork.is

Sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður haldinn laugardaginn 24. september kl. 10:00 – 12:00. Gróðursett verður í Vatnshlíðarlund til minningar um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Mæting er í Vatnshlíð norðan við Hvaleyrarvatn. Verkfæri og plöntur á staðnum. Boðið verður upp á hressingu í Þöll að lokinni gróðursetningu.

Allir velkomnir, ungir sem aldnir. Nánari upplýsingar í síma: 555-6455, 894-1268 (Steinar) eða 849-6846 (Árni). 

Vegvísir: Akið Kaldárselsveginn til suðurs. Beygið til hægri Hvaleyrarvatnsveg. Þegar komið er upp á hæðina er beygt strax til hægri í átt að kartöflugörðunum sem þar eru og síðan til vinstri eftir akvegi sem liggur eftir Vatnshlíðinni endilangri. Þetta er botnlangi og þar er hægt að leggja.

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Dafnar 2016

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Dafnar verður haldinn þriðjudaginn 6. september kl 17:00 í Ásgarði (nákvæm staðsetning auglýst síðar).


Dagskrá:

17:00 Aðalfundur – venjuleg aðalfundarstörf – kaffi og meðlæti

18:00 Gróðursetning skógarplantna á Hvanneyri (5 mín frá Ásgarði)

20:00 Grillaðar pylsur og meðlæti í skjólbeltinu við Hvanneyri í boði Dafnar

Aðalfundur 2016

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt 81. aðalfund sinn á Djúpavogi dagana 2.-4. september 2016. Skógræktarfélag Djúpavogs var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaga víðs vegar af landinu sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, Önnu Sigrúnar Gunnlaugsdóttur, formanns Skógræktarfélags Djúpavogs, Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og Þorbjargar Sandholt, formanns ferða- og menningarmálanefndar Djúpavogs.

Ávarp – Magnús Gunnarsson (.pdf)

Ávarp – Sigrún Magnúsdóttir (.pdf)

Ávarp – Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir (.pdf)

Ávarp – Þröstur Eysteinsson (.pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrslur stjórna Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Síðasta vers fyrir hádegi var stutt samantekt Jóns Ásgeirs Jónssonar á efni ályktana aðalfunda síðustu tuttugu ára.

Samantekt – Jón Ásgeir Jónsson (.pdf)

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Farið var að Teigarhorni, þar Sævar Þór Halldórsson landvörður leiddi fundargesti í göngu um staðinn og Andrés Skúlason hélt fræðsluerindi um uppbyggingu á svæðinu og framtíðaráform þar að lútandi. Vettvangsferðin endaði svo með hressingu – dýrindis sjávarréttasúpu og meðlæti.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum. Að þeim loknum flutti Árni Bragason landgræðslustjóri stutt erindi, en eftir það tóku við fræðslufyrirlestrar. Þuríður Elsa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, fjallaði um fundi á fornminjum, Erla Dóra Vogler, ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogs, sagði frá Cittaslow verkefninu í Djúpavogshreppi, Jón Ásgeir Jónsson, frá Skógræktarfélagi Íslands og Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu – og verkefnastjóri Garðyrkjufélagsins, fjölluðu um útivistarskóga og hvað prýðir þá, Gústaf Jarl Viðarsson, frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, fjallaði um það helsta sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur verið að sýsla við og Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur hélt svo erindi um gróðurvernd, aðfluttar tegundir og skipulega landnýtingu.

Erindi – Erla Dóra Vogler (.pdf)

Erindi – Hjörleifur Guttormsson (.pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Hálsaskóg. Byrjað var á að skoða garð hjónanna Ragnhildar Garðarsdóttur og Sigurðar Guðjónssonar að Aski, en hann stendur í útjaðri Hálsaskógur. Fundargestir gátu svo skoðað sig um í skóginum, en á þremur stöðum var einnig boðið upp á fræðslu um Tyrkjaránið, sögu bæjarins Búlandsness og jarðfræði svæðisins, með tilvísun í staði innan skógarins. Gönguferðir fundargesta enduðu svo í Aðalheiðarlundi þar sem boðið var upp á veitingar. Dagskránni í skóginum lauk svo með saxófónleik á leiksviðinu í skóginum.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Hrannar Jónsdóttur. Á kvöldvökunni voru hjónin í Aski – Ragnhildur Garðarsdóttir og Sigurður Guðjónsson – heiðruð fyrir störf sín í þágu skógræktar. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir og voru mættir fulltrúar frá þremur þeirra – Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sem fagnar 70 ára afmæli, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, sem einnig fagnar 70 ára afmæli og Skógræktarfélagi Eyrarsveitar, sem fagnar 30 ára afmæli. Voru þeim færð planta af kóreulífvið að gjöf. Kvöldvakan endaði svo á balli fram eftir nóttu.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Laufey B. Hannesdóttir og Sigríður Heiðmundsdóttir.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2016 (.pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands (.pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningur 2015 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2015 – Yrkjusjóður (.pdf)

Ársreikningur 2015 – Kolviður (.pdf)

Tré ársins 2016 útnefnt

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Tré ársins 2016 er alaskaösp við Hákot í Grjótaþorpi. Öspinni var bjargað á síðustu stundu fyrir þrjátíu árum en þá voru að hefjast byggingaframkvæmdir á nágrannalóð þar sem tréð varð að víkja. Ragnheiður Þorláksdóttir, íbúi og eigandi Hákots, fékk því framgengt að tréð fékk að lifa og var það fært á núverandi stað árið 1986, þar sem það hefur vaxið og dafnað síðan. Tréð er að öllum líkindum upphaflega gróðursett um 1960 og var orðið um 5 metra hátt þegar það var flutt með stórvirkum vinnuvélum. Tréð hefur ávallt vakið athygli og hefur verið gleðigjafi eigandans og umhverfisins frá upphafi. Útlitið er óvenjulegt af ösp að vera, en krónumikill vöxtur og öflug greinasetning einkennir það.

Alaskaösp er ein algengasta trjátegundin í Reykjavík og hefur því mikið um það að segja hve skjólsælt er orðið víða í borginni. Þá er vel þekkt að ösp er öflugur fangari aðskotaagna sem stafa af umferð. Aspirnar í borginni þjóna því íbúum hennar með margvíslegum hætti auk þess sem þær auka á fjölbreytni og setja mark sitt á borgarmyndina með áberandi hætti svo sem litskrúði og tónum og angan sumar, vetur, vor og haust.

Í tilefni útnefningarinnar er boðað til hátíðardagskrár. Dagskráin hefst kl. 15:00 miðvikudaginn 24. ágúst í Garðastræti 11 a (Hákoti). 

1. Tónlist – Lilja Valdimarsdóttir hornaleikari
2. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands – ávarp
3. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur – hugleiðing
4. Afhending á viðurkenningarskjali. Ragnheiður Þorláksdóttir veitir móttöku
5. Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar – ávarp
6. Mæling á trénu
7. Veitingar í boði Arionbanka
8. Tónlistaratriði – Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson

Dagskrárlok kl. 16:00

alt