Skip to main content
All Posts By

a8

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Sýning Viðarvina

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Viðarvinir verða með sýningu á renndum, útskornum og tálguðum trémunum í bækistöðvum félagsins og Þallar laugardaginn 3. júní 2017. Sýningin stendur frá kl. 10:00 – 18:00. Viðarvinir eru hópur handverksfólks í Hafnarfirði sem hefur vinnuaðstöðu í Lækjarskóla. Viðarvinir munu m.a. sýna muni úr íslensku timbri, þar á meðal úr skógum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Allir eru velkomnir og er aðgangur er ókeypis. Opið verður í gróðrarstöðinni á sama tíma. Boðið verður upp á kaffi og kex.

Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 (Skógræktarfélag Hfj.), 894-1268 (Steinar-Þöll) og 695-8083 (Sigurjón-Viðarvinum).

Ljóðasamkeppni Yrkjusjóðs 2017

Með Ýmislegt

Árið 2017 fagnar Yrkjusjóður 25 ára afmæli. Í tilefni þess efndi sjóðurinn, í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, til ljóðasamkeppni meðal grunnskólabarna, undir þemanu: Skógurinn minn. Mjög góð þátttaka var í samkeppninni en rúmlega 450 ljóð bárust.

Verðlaunaafhending í samkeppninni var haldin þriðjudaginn 23. maí í sal Garðyrkjufélags Íslands. Veitt voru verðlaun í tveimur flokkum, fyrir besta ljóð 5. – 7. bekkjar og besta ljóð 8. – 10. bekkjar. Fyrir ljóð á miðstigi hlaut Álfdís Jóhannsdóttir, Breiðagerðisskóla, verðlaun fyrir ljóð sitt Tónaskógur, en besta ljóð efsta stig þótti ljóðið Haust eftir Sóleyju Önnu Jónsdóttur, Hrafnagilsskóla.

Að auki ákvað dómnefnd að veita sérstaka viðurkenningu fyrir sjö ljóð til viðbótar, fimm á miðstigi og tvö á efsta stigi. Á miðstigi hlutu sérstaka viðurkenningu Ástvaldur Mateusz Kristjánsson, Grunnskólanum á Þingeyri, Breki Hlynsson, Hofsstaðaskóla, Emelía Óskarsdóttir, Grunnskóla, Seltjarnarness, Leifur Jónsson, Hofsstaðaskóla og Sigurþór Árni Helgason, Hvolsskóla. Á efsta stigi hlutu svo Kría Sól Guðjónsdóttir og Dagmar Ýr Eyþórsdóttir, Lágafellsskóla og Sana Salah Karim, Lindaskóla viðurkenningu. Fengu þau öll trjáplöntu að gjöf.

yrkjuverdlaun

Verðlauna- og viðurkenningarhafar ljóðasamkeppninnar. F.v. Sana, Álfdís, Breki, Sigurþór Árni, Kría Sól og Dagmar Ýr. Emelía var farin þegar myndin var tekin og Sóley Anna, Leifur og Ástvaldur gátu ekki komið á afhendinguna (Mynd: HE).

Vinningsljóð 5. – 7. bekkur

Tónaskógur

Skógurinn er fagur.
Það er eins og hann syngi.
Tónarnir streyma upp og niður
trommusláttur þegar vatnið skvettist,
hörputónar þegar greinarnar hreyfast
bjöllur klingja þegar laufin falla
og kórinn byrjar þegar grasið vex.

Álfdís Jóhannsdóttir, Breiðagerðisskóla

 

Vinningsljóð 8. – 10. bekkur

Haust

Ég sveif upp í rjóður,
andaði að mér ilmi trjánna.
Ég hljóp framhjá krökkum að ærslast,
hló með þeim er hár þeirra fauk til.
Ég fór út til regnsins og hjálpaði því að vökva blómin.
Þegar nóttin kom faldi ég mig í skóginum og lék mér þar.
„Ég er Golan,“ hvíslaði ég til laufanna áður en ég vaggaði þeim í svefn.

Sóley Anna Jónsdóttir, Hrafnagilsskóla


Allir krakkar sem sendu inn ljóð fengu sent viðurkenningaskjal með þökk fyrir þátttökuna og styrkti prentsmiðjan Oddi prentun á þeim, sem og prentun á skjölum verðlauna- og viðurkenningahafa.



Fræðslufundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Með Fræðsla

Miðvikudaginn 3. maí n.k. efna Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosfellsbær til fræðslufundar um skógræktarmál.  Fundurinn verður haldinn í Listasal Mosfellsbæjar í Kjarna kl. 17:00 og eru allir velkomnir.

Á fundinum mun Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur hjá Rannsóknastöð skógræktar að Mógilsá, halda erindi um veðurfar framtíðar og hvernig skógrækt spilar inn í loftslagsmál í Mosfellsbæ og á Íslandi, undir yfirskriftinni „Loftslagsbreytingar og skógrækt í Mosfellsbæ“.

Starfsmenn Mosfellsbæjar verða einnig á staðnum og svara spurningum um þau grænu verkefni sem eru í gangi í bænum.

Allir áhugasamir eru boðnir hjartanlega velkomnir.

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur 2017

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn á Hótel Kirkjubæjarklaustri laugardaginn 22. apríl kl. 13:00

Fundarefni:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
2. Önnur mál

Í lok fundarins flytur Björn B. Jónsson skógverkfræðingur áhugavert erindi um eldvarnir á skógræktarsvæðum.

Kaffiveitingar í boði félagsins.

Félagsmenn og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta á fundinn.

Stjórn Merkur.

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar 2017

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar verður haldinn í húsi Björgunarsveitarinnar Kyndils, Völuteigi 23, Mosfellsbæ, mánudaginn 10. apríl kl. 20:00.

 

Dagskrá

 1. Almenn aðalfundarstörf

2. Önnur mál

3. Erindi.  Vatnið og skógurinn, Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Félagsmenn eru hvattir til að mæta. Nýir félagar velkomnir.

Kaffiveitingar verða á staðnum.

 

Í ár verðu fréttasíða í Mosfellingi sem kemur út 6. apríl í stað fréttabréfs. Þeir sem ekki búa í Mosfellsbæ geta skoðað heimasíðuna www.skogmos.net. En þar mun fréttasíðan koma inn eftir að blaðið er komið út.

Styrktarsamningur við Arion-banka undirritaður

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands gerði nýlega samning við Arion-banka um stuðning bankans. Gildir samningurinn til þriggja ára og er styrkurinn tvískiptur. Annars vegar beinist styrkurinn í verkefni er heitir Skógarvist, Skógargátt og lýðheilsa, sem ætlað er að auka þekkingu almennings á skógum og auka aðgengi að upplýsingum um útivistarmöguleika í skógum landsins og hins vegar í almenna skógrækt, á eignalandi Skógræktarfélags Íslands að Úlfljótsvatni.

Var samningurinn undirritaður miðvikudaginn 5. apríl og skrifuð þau Halldór Harðarson og Anna Sigríður Kristjánsdóttir, fyrir hönd Arion-banka og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undir samninginn.

Fagnar Skógræktarfélagið þessum samningi við bankann, enda löng saga stuðnings forvera Arion-banka (Búnaðarbankans og Kaupþings) við hin ýmsu skógræktarmál.

undirskriftarion1 640x426Magnús Gunnarsson og Halldór Harðarsson undirrita samninginn (Mynd: RF).

undirskriftarion2 640x426

F.v. Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Anna Sigríður Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður bankastjóra Arionbanka, og Halldór Harðarsson, markaðsstjóri Arionbanka, ánægð með nýja samninginn (Mynd: RF).

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur 2017

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Reykjavíkur verður haldinn miðvikudaginn 5. apríl næstkomandi kl. 20:00 í sal Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1 (gengið inn Ármúla megin).

Dagskrá aðalfundar:
• Skýrsla um starfsemi félagsins síðastliðið ár.
• Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins.
• Kosning samkvæmt félagslögum.
• Tillögur um framtíðarstarfsemi félagsins.
• Önnur mál sem fram eru borin.

Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytur erindið Skógrækt og hreint vatn: hvað vitum við?

Stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness 2017

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness verður haldinn mánudaginn 3. apríl 2017 kl. 20.00 í Grundaskóla.

Dagskrá

1) Venjuleg aðalfundarstörf:

  • Fundargerð síðasta aðalfundar
  • Skýrsla formanns
  • Reikningar
  • Kosningar

2) Verkefnaskrá ársins 2017. Traktorskaup, gróðursetning, stígagerð, jólatrjáasala o.fl.

3) Önnur mál.

Kaffiveitingar.

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar 2017

Með Skógargöngur

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar verður haldinn í hátíðarsalnum í Reykholti laugardaginn 1. apríl kl. 13.

Dagskrá aðalfundar

  • Skýrsla stjórnar- og starfsáætlun. Óskar Guðmundsson formaður
  • Reikningar – Laufey Hannesdóttir gjaldkeri.
  • Kosningar
  • Önnur mál
  • Erindi: Vindfall í skógum,Valdimar Reynisson, skógarvörður Skógræktarinnar í Skorradal

Allir velkomnir!

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2017

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður haldinn í Apótekinu, Hafnarborg, fimmtudaginn 30. mars kl. 20.00. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum verður boðið upp á kaffiveitingar.

Að kaffihléi loknu mun Hannes Þór Hafsteinsson, náttúru- og garðyrkjufræðingur, flytja erindi sem hann nefnir “sígrænar plöntur á Íslandi“. Þar mun hann fjalla um sígræna runna, tré og jurtir sem þrífast við íslenskar aðstæður og gleðja augað árið um kring.

Allir velkomnir. Hægt er að gerast félagi á staðnum. Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins: skoghf.is eða í síma: 555-6455 eða 894-1268 (Steinar). Netfang: skoghf@simnet.is