Árið 2017 fagnar Yrkjusjóður 25 ára afmæli. Í tilefni þess efndi sjóðurinn, í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, til ljóðasamkeppni meðal grunnskólabarna, undir þemanu: Skógurinn minn. Mjög góð þátttaka var í samkeppninni en rúmlega 450 ljóð bárust.
Verðlaunaafhending í samkeppninni var haldin þriðjudaginn 23. maí í sal Garðyrkjufélags Íslands. Veitt voru verðlaun í tveimur flokkum, fyrir besta ljóð 5. – 7. bekkjar og besta ljóð 8. – 10. bekkjar. Fyrir ljóð á miðstigi hlaut Álfdís Jóhannsdóttir, Breiðagerðisskóla, verðlaun fyrir ljóð sitt Tónaskógur, en besta ljóð efsta stig þótti ljóðið Haust eftir Sóleyju Önnu Jónsdóttur, Hrafnagilsskóla.
Að auki ákvað dómnefnd að veita sérstaka viðurkenningu fyrir sjö ljóð til viðbótar, fimm á miðstigi og tvö á efsta stigi. Á miðstigi hlutu sérstaka viðurkenningu Ástvaldur Mateusz Kristjánsson, Grunnskólanum á Þingeyri, Breki Hlynsson, Hofsstaðaskóla, Emelía Óskarsdóttir, Grunnskóla, Seltjarnarness, Leifur Jónsson, Hofsstaðaskóla og Sigurþór Árni Helgason, Hvolsskóla. Á efsta stigi hlutu svo Kría Sól Guðjónsdóttir og Dagmar Ýr Eyþórsdóttir, Lágafellsskóla og Sana Salah Karim, Lindaskóla viðurkenningu. Fengu þau öll trjáplöntu að gjöf.
Verðlauna- og viðurkenningarhafar ljóðasamkeppninnar. F.v. Sana, Álfdís, Breki, Sigurþór Árni, Kría Sól og Dagmar Ýr. Emelía var farin þegar myndin var tekin og Sóley Anna, Leifur og Ástvaldur gátu ekki komið á afhendinguna (Mynd: HE).
Vinningsljóð 5. – 7. bekkur
Tónaskógur
Skógurinn er fagur.
Það er eins og hann syngi.
Tónarnir streyma upp og niður
trommusláttur þegar vatnið skvettist,
hörputónar þegar greinarnar hreyfast
bjöllur klingja þegar laufin falla
og kórinn byrjar þegar grasið vex.
Álfdís Jóhannsdóttir, Breiðagerðisskóla
Vinningsljóð 8. – 10. bekkur
Haust
Ég sveif upp í rjóður,
andaði að mér ilmi trjánna.
Ég hljóp framhjá krökkum að ærslast,
hló með þeim er hár þeirra fauk til.
Ég fór út til regnsins og hjálpaði því að vökva blómin.
Þegar nóttin kom faldi ég mig í skóginum og lék mér þar.
„Ég er Golan,“ hvíslaði ég til laufanna áður en ég vaggaði þeim í svefn.
Sóley Anna Jónsdóttir, Hrafnagilsskóla
Allir krakkar sem sendu inn ljóð fengu sent viðurkenningaskjal með þökk fyrir þátttökuna og styrkti prentsmiðjan Oddi prentun á þeim, sem og prentun á skjölum verðlauna- og viðurkenningahafa.
Nýlegar athugasemdir