Skip to main content
All Posts By

a8

Aðalfundur 2017

Með Aðalfundir

82. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Stórutjarnaskóla dagana 25. – 27. ágúst 2017. Skógræktarfélag S-Þingeyinga var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Agnesar Þórunnar Guðbergsdóttur, formanns Skógræktarfélags S-Þingeyinga, Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og Dagbjartar Jónsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrslur stjórna Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Einnig hélt Dagbjört Jónsdóttir stutta kynningu á Þingeyjarsveit.

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka upp Reykjadal og horft til skóga þar, en þaðan var haldið til Húsavíkur, þar sem Skrúðgarðurinn á Húsavík var heimsóttur og þegin hressing í boði Norðurþings. Þaðan var svo haldið í Fossselsskóg, þar sem Skógræktarfélag S-Þingeyinga stóð fyrir hátíðarsamkomu.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum. Að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri sagði frá sögu uppgræðslu á Hólasandi,Daði Lange Friðriksson, Landgræðslu ríkisins, sagði frá helstu framkvæmdum á Hólasandi, Gunnhildur Ingólfsdóttir sagði frá gróðursetningu með sérstakri gróðursetningavél og sýndi myndskeið af henni í notkun, Valgerður Jónsdóttir frá Skógræktinni sagði frá frærækt á Vöglum og að lokum fjallaði Arnór Snorrason, Skógræktinni, um ýmsar niðurstöður úr úttektum íslenskrar skógarúttektar á Mógilsá á útbreiðslu og vexti náttúrulegra birkiskóga.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Vaglaskóg. Þar tóku Rúnar Ísleifsson skógarvörður og Valgerður Jónsdóttir á móti fundargestum. Fengu gestirnir að skoða Fræhöllina áður en haldið í stutta gönguferð um skóginn og endað á veislu í skóginum, þar sem meðal annars var boðið upp á ketilkaffi og eldbakaðar lummur.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Arnórs Benonýssonar. Fimm félagar í Skógræktarfélagi S-Þingeyinga voru heiðraðir fyrir störf í þágu skógræktar, þau Atli Vigfússon, Álfhildur Jónsdóttir, Dagur Jóhannesson, Indriði Ketilsson og Ólafur Eggertsson.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Laufey B. Hannesdóttir, sem verið hafði varamaður, kom ný inn í stjórn félagsins, í stað Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi setu. Magnús Gunnarsson gekk úr stjórn og hætti sem formaður Skógræktarfélags Íslands. Í hans stað var Jónatan Garðarsson kosinn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Jens B. Baldursson.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2017 (.pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2016-2017 (.pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Yrkjusjóður (.pdf)

Skógardagur á 50 ára afmæli Mógilsár

Með Ýmislegt

Hálfrar aldar vísindastarfi á Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá verður fagnað í skóginum við stöðina sunnudaginn 20. ágúst. Haldinn verður skógardagur að skógarmanna sið og gestir fá að kynnast þeim spennandi verkefnum sem starfsfólk stöðvarinnar vinnur að.

Lögð verður áhersla á starfið á Mógilsá og starfsfólk kynnir verk sín og verkefni. Sýndar verða trjámælingar, pöddur, klipping stiklinga, efni um kolefnisbindingu og margt fleira. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, sýnir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að spreyta sig með hnífinn. Bakaðar verða lummur og hitað ketilkaffi með meiru eins og skylt er á skógardegi. Skógrækt er ekki bara ræktun heldur líka nytjar og því er líka við hæfi að kljúfa við og saga, jafnvel að fara í axarkast og annað sem skógarmönnum kann að detta í hug. Í tilefni hálfrar aldar afmælisins verða líka gróðursettar 50 eikur.

Allt áhugafólk um skógrækt, skógarnytjar, skógarmenningu og skógarvísindi er boðið velkomið á afmælishátíðina milli klukkan 14 og 17 sunnudaginn 20. ágúst.

Skógardagur Norðurlands

Með Ýmislegt

Skógardagur Norðurlands verður haldinn laugardaginn 19. ágúst kl. 13-16 í Kjarnaskógi, í tilefni 70 ára afmælis Kjarnaskógar. Nýtt útivistar- og grillsvæðið á og við Birkivöll verður formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem fyrirhugað er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda.

Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundarsal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru. 

Að Skógardegi Norðurlands standa Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær.

Kynningarspjald (pdf)

Tré ársins 2017

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við IKEA á Íslandi, útnefnir beyki (Fagus sylvatica) í Hellisgerði í Hafnarfirði sem Tré ársins 2017, við hátíðlega athöfn laugardaginn 29. júlí kl. 15:00. Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Allir velkomnir.

Dagskrá:
1.           Tónlist, Andrés Þór Gunnlaugsson og Sigurður Flosason
2.           Ávarp, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
3.           Afhending á viðurkenningarskjali
4.           Ávarp, Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar
5.           Ávarp, Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, styrktaraðili Trés ársins
6.           Mæling á trénu
7.           Veitingar í boði IKEA og tónlist

Beyki er algengt skógartré í Evrópu og hefur viður þess verið nýttur á marga vegu, meðal annars til húsa- og húsgagnagerðar og í ýmsan húsbúnað en einnig þykir beyki góður eldiviður. Beyki þarf hlýtt og langt sumar og vex því almennt takmarkað á Íslandi, en er þó lífseigt og getur lifað lengi sem lítið tré eða runni. Í Hellisgerði má finna fjögur beykitré, sem gróðursett voru fyrir 90 árum, þá einhverra ára gömul, svo Tré ársins 2017 getur verið hátt í hundrað ára gamalt.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

trearsins2017

Lionsklúbbur Hafnarfjarðar gefur Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar bekki

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 29. júlí verða þrír bekkir við Hvaleyrarvatn formlega afhentir Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar en bekkirnir eru gjöf Lionsklúbbs Hafnarfjarðar til Skógræktarfélagsins í tilefni 100 ára afmælis Lionshreyfingarinnar. Afhendingin fer fram kl. 11:00 við bekkinn sem er austan við Hvaleyrarvatn, um 50 metra frá Sandvíkinni.

Skógræktarfélagið býður upp á kaffi í Þöll við Kaldárselsveg að athöfn lokinni. Allir velkomnir.

Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 (Skógræktarfélagið), 896-3929 (Ingvar Viktorsson) eða á heimasíðu Skógræktarfélags Hafnarfjarðar – skoghf.is.

Sumarhátíð fyrir eldri borgara í Kópavogi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Kópavogs og bæjarstjórn Kópavogs bjóða eldri borgurum í Kópavogi til sumarhátíðar í Guðmundarlundi þriðjudaginn 25. júlí kl 13:30-16:30.

Dagskrá:
1. Bernhard Jóhannesson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs, flytur ávarp og býður gesti velkomna í Guðmundarlund.
2. Harmonikkuleikur og veitingar í boði Skógræktarfélagsins og bæjarstjórnar Kópavogs.
3. Bæjarstjóri flytur ávarp.
4. Nýr minigolfvöllur vígður í Guðmundarlundi.

Rútuferðir verða í Guðmundarlund sem hér segir: frá Sunnuhlíð kl. 12:45, frá Gjábakka kl. 13:00, frá Gullsmára kl. 13:00 og frá Boðanum kl. 13:25.

Þeir sem geta komið á eigin bílum eru hvattir til þess – í Guðmundarlundi eru góð bílastæði.

Skógarleikarnir 2017

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til Skógarleika laugardaginn 1. júlí, þeirra þriðju í röðinni. Eins og fyrri ár verður ævintýraleg stemning í Furulundi þar sem gestir á öllum aldri njóta töfra skógarins. Skógarhöggsmenn leiða saman hesta sína og keppa í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem axarkasti, sporaklifri, bolahöggi og afkvistun trjábola. Gestir fá tækifæri til að spreyta sig á axarkasti og Orri arboristi sýnir trjáklifur í línu.

Í ár verður gestum einnig boðið í upplifunargöngu um skóginn undir leiðsögn Ólafs Oddssonar þar sem leyndardómar skógarins verða afhjúpaðir. Þá geta yngstu gestirnir spreytt sig á að tálga nýhöggvinn við og fylgst með eldsmiði hamra heitt járnið yfir logandi eldi. Teepee tjald verður reist og þar verður hægt að kjarna sig undir seiðandi stemmningu.

Gestum er svo að sjálfsögðu boðið í grillveislu þar sem skógarbrauð á priki, pylsur og annað góðgæti verður grillað yfir varðeldi og rjúkandi ketilkaffi verður einnig á boðstólum.

Skógræktarfélagið bíður alla hjartanlega velkomna í Furulund!

Laugardaginn 1. júlí frá kl. 13 – 17 í Furulundi í Heiðmörk

Fylgist með okkur:
Facebook: Skógræktarfélag Reykjavíkur – https://www.facebook.com/events/145926465968925/
Snapchat: heidmork

Allar frekari upplýsingar veitir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir í síma 690-9874.

Skógræktarfélag Eyfirðinga: Skógarganga – reynitré

Með Skógargöngur

Fimmtudaginn 29. júní verður skógarganga í Lystigarðinum á Akureyri í samstarfi Skógræktarfélags Eyfirðinga og Lystigarðsins. Í göngunni verður kastljósinu beint að reyniættkvíslinni (Sorbus) enda eru margar tegundir af reyni í garðinum. Gangan hefst kl. 18:00 og er áætlað að standi til kl.19:30.

 

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

 

Sjá Facebook-síðu viðburðar: https://www.facebook.com/events/470378946655124/permalink/470390156654003/

Námskeið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands: Grænni skógar I

Með Fræðsla

Grænni skógar I er skógræktarnám ætlað fróðleiksfúsum skógarbændum og áhugasömum skógræktendum sem vilja auka þekkingu sína og ná betri árangri í skógrækt.

Grænni skógar I er alls 16 námskeið (2-3 námskeið á önn). Námskeiðaröðin stendur yfir í þrjú ár (6 annir). Námið er metið til eininga á framhaldsskólastigi og lýkur námskeiðaröðinni með sérstakri viðurkenningu frá Landbúnaðarháskólanum. Slík einingagjöf er háð því að nemendur hafi sótt 80% skyldunámskeiðanna og staðist námsmat.

Hvert námskeið tekur tvo daga og er kennt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 09:00 til 16:00 á laugardegi. Námskeiðin byggjast upp á fræðsluerindum sem sérfræðingar á hverju sviði flytja. Reynt verður að fara í vettvangsferð í lok hvers námskeiðs og fá þannig meiri og betri tilfinningu fyrir því sem verið er að fjalla um hverju sinni. Einnig er verkleg kennsla á nokkrum námskeiðanna. Landbúnaðarháskóli Íslands sér um framkvæmd námsins en þeir aðilar sem koma að náminu auk skólans eru: Félög skógarbænda í viðkomandi landsfjórðungi, Skógræktin og Landgræðsla ríkisins.

Á námskeiðunum er fjallað um mörg af grunnatriðum skógræktar, m.a. val á trjátegundum, skógarhönnun og landnýtingaráætlanir, undirbúning lands fyrir skógrækt, framleiðslu og gróðursetningu skógarplantna, skógarumhirðu, skógarnytjar, sjúkdóma og skaða í skógi, skjólbelti, skógarhöggstækni og verndun fornminja og náttúru í skógrækt, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur vikuferð til útlanda verið hluti af náminu þar sem þátttakendur kynnast því helsta sem nágrannaþjóðir okkar eru að gera í skógrækt.

Námskeiðaröð Grænni skóga I á Suður- og Vesturlandi hefst 22. september kl. 15:30.

Kennt verður í starfstöðvum Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi (Garðyrkjuskólanum) og á Hvanneyri. Farið í vettvangsferðir í skóglendi í nágrenninu.

Nánari upplýsingar hjá verkefnisstjóra Grænni skóga, Björgvini Eggertssyni, netfang: bjorgvin@lbhi.is, sími 843-5305.

Þátttökugjald er 49.000 kr. á önn (tvær annir á ári, samtals 6 annir). Innifalið er kennsla, kaffi, hádegismatur og námsgögn á rafrænu formi.

Hægt er að sækja um styrki fyrir námskeiðum hjá starfsmenntasjóðum, eins og t.d. starfsmenntasjóði bænda (www.bondi.is). 

Skráning á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands www.lbhi.is /Endurmenntun og námskeið/ Námskeið í tímaröð.

Skráningarfrestur er til 12. september. 

Hámarksfjöldi þátttakenda er 30.

Eina leiðin til að tryggja sér öruggt pláss er að skrá sig sem fyrst.

Gunnfríðarstaðir – vinnukvöld og veitingar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Vinnukvöld verður í Gunnfríðarstaðaskógi fimmtudaginn 22. júní 2017. Hafist verður handa um kl. 17 og verið að til kl. 20:00. Unnið verður við ýmsa umhirðu í skóginum við skógarkofann, dreginn út trjáviður, gróðursett, girðingarvinna og fleira.

 

B&S Restaurant verða með súpu og brauð fyrir skógargesti.

 

Skógarkveðja,

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga.