Nýlega undirrituðu Arion banki og Skógræktarfélag Íslands samning vegna áframhaldandi stuðnings bankans við félagið. Styrkurinn, sem er til þriggja ára, verður nýttur til að fjármagna verkefnið Skógarvist, skógargátt og lýðheilsa, sem er ætlað að hvetja til útivistar og bættrar lýðheilsu. Einnig nýtist styrkurinn í innleiðingu á forritinu Avenza sem ætlað er að halda utan um kortlagningu skógræktar með stafrænum hætti og þar með ná betri yfirsýn yfir útbreiðslu nýrra skóga og bindingu þeirra.
Arion banki hefur um árabil styrkt Skógræktarfélag Íslands og á stuðningur bankans sér langa forsögu sem nær allt aftur til þess er bankinn var Búnaðarbanki Íslands. Þess má til gamans geta að Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2021 verður haldinn í fundarsal bankans að Borgartúni 19, en vegna Covid-19 var ekki stætt á því að halda aðalfund með hefðbundnu sniði.
Arion banki hefur sett sér metnaðarfull markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á að auki í samstarfi við Kolvið varðandi mótvægisaðgerðir. Kolviður gróðursetti um 4.700 tré til að vega upp á móti losun bankans á árinu 2020 vegna reksturs, þ.e. húsnæðis og bíla, en einnig vegna flugferða og leigubílaferða, sorps og samgangna starfsfólks til og frá vinnu.
Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, Hlédís Sigurðardóttir, verkefnastjóri samfélagsábyrgðar og Anna Sigríður Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður bankastjóra, við undirritun samningsins.