Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 2011 alþjóðaár skóga og er því ætlað að auka vitund fólks um mikilvægi skóga og styrkja sjálfbæra umhirðu, vernd og vöxt skóga til hagsbóta fyrir núverandi og komandi kynslóðir.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti árið formlega við athöfn á Bessastöðum 12. janúar. Var forsetanum afhentur fáni með íslenskri útfærslu alþjóðlegs merkis Sameinuðu þjóðanna um ár skóga 2011 við það tækifæri af fulltrúum skógargeirans á Íslandi.
Ýmsir viðburðir eru fyrirhugaðir á árinu í tengslum við ár skóga og verða þeir kynntir jafnóðum.
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt fulltrúum frá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Landssamtökum skógareigenda, Landshlutaverkefnum í skógrækt, Nýsköpunarmiðstöð, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.