Skip to main content

Áhugaverður fyrirlesari frá Kanada: harðgerðar tegundir og kynbætur

Með 4. september, 2018febrúar 13th, 2019Fræðsla

Rick Durand heldur fyrirlestur um reynslu sína og aðferðir þriðjudaginn 4. september n.k. í fundarsal Garðyrkjufélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl 19:30 og lýkur kl 22:00. Aðgangseyrir að fyrirlestri og fyrir veitingar er kr. 2.000.

Rick Durand er þróunarstjóri Bylands Nurseries í Kelowna, Bresku-Kólumbíu. Nokkrir félagar úr Garðyrkjufélaginu og skógræktarfélögunum heimsóttu hann í skógræktarferðinni til vesturhluta Kanada í fyrrahaust og hrifust af starfsreynslu hans og þekkingu.

Rick Durand er skógfræðingur að mennt og hefur einstaka reynslu af leitinni að harðgerum tegundum og kynbætur á þeim til ræktunar á harðbýlustu svæðum í sléttuhéruðum Kanada og Bandaríkjanna. Hann hefur rekið eigin ræktunarstöð (Prairie Shade Nursery/Prairie Shade Consulting Services), unnið í fjölda ára sem þróunarstjóri fyrir Jeffries Nurseries og nú Bylands Nurseries, sem einmitt sérhæfir sig í ræktun fyrir þessi svæði. Hann hefur skráð og kynnt í eigin nafni fjölda yrkja af trjám, runnum og ávaxtatrjám sem ætluð eru til ræktunar við hin erfiðustu veðurfarsskilyrði. Hann hefur jafnframt starfað sem samhæfingarstjóri þróunarstarfs fyrir ræktunarstöðvar í Kanada, m.a. í tengslum við skipulagsbreytingar þegar opinber rekstur tilraunastöðva var lagður af fyrir nokkrum árum. Þar koma kanadískar rósir m.a. við sögu!

Efnislega skiptist fyrirlesturinn í tvo hluta með hléi fyrir léttar veitingar og spjall. Fyrrihlutinn fjallar um samanburð á umhverfisaðstæðum í sléttuhéruðum Kanada og á Íslandi og reynslu hans af skipulagi kynbótastarfs og tilrauna með nýjan efnivið fyrir erfið ræktunarskilyrði. Í seinni hluta fyrirlestursins mun hann lýsa fjölda yrkja af trjátegundum, blómstrandi runnum, ávaxtatrjám, rósum og fjölæringum sem ræktuð hafa verið fyrir köldustu héruð Vestur-Kanada. Sú takmarkaða reynsla sem við Íslendingar höfum nú þegar fengið af kanadískum yrkjum vekur tilhlökkun til þessa fyrirlestrar ekki síður en kynnin af fyrirlesaranum sjálfum!

Skráning er í gegnum netfangið gardyrkjufelag@gardurinn.is

Fyrirlesturinn  er samstarfsverkefni: Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands og Trjáræktarklúbbsins.