Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2014 var settur í morgun en að þessu sinni er hann haldinn á Akranesi, í boði Skógræktarfélags Akraness, í samstarfi við Skógræktarfélag Skilmannahrepps.
Hófst fundurinn með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, Jens B. Baldurssonar, formanns Skógræktarfélags Akraness, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Ólafs Adolfssonar, formanns bæjarráðs Akraness. Að ávörpum loknum tók við skýrsla stjórnar og kynning reikninga Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs. Hannibal Kristjánsson ferðamálafulltrúi sagði svo stuttlega frá Akranesi.
Eftir hádegismat verður svo unnið að tillögum að ályktunum í nefndum, en að því loknu verður Jón Guðmundsson með stutt erindi um eplarækt á Akranesi. Því næst verður haldið í kynnisferð á vegum Skógræktarfélags Akraness um skógarreiti í nágrenninu. Fundurinn heldur svo áfram á laugardag og sunnudag.