79. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands verður haldinn dagana 15. – 17. ágúst og fer fundurinn að þessu sinni fram á Akranesi, en Skógræktarfélag Akraness, í samvinnu við Skógræktarfélag Skilmannahrepps, er gestgjafi fundarins.
Fundurinn hefst að morgni föstudagsins 15. ágúst og stendur fram að hádegi á sunnudaginn. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir, þar sem skógræktarsvæði við Akranes og í Hvalfjarðarsveit verða skoðuð.
Aðalfundur félagsins er mikilvægur félagslegur vettvangur fyrir skógræktarfélögin, en þar gefst fundargestum kostur á að viðhalda og endurnýja kynni við gamla og nýja félaga innan skógræktarfélaganna.
Upplýsingar um fundinn má finna hér á heimasíðu félagsins, en auk þess verður hægt að fylgjast með gangi fundarins á Facebook-síðu félagsins.