Skip to main content

Aðalfundur samtakanna Umhverfi og vellíðan

Með 21. október, 2009febrúar 13th, 2019Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur samtakanna Umhverfi og vellíðan verður haldinn miðvikudaginn 21. október í Gerðubergi kl. 19:30.


Fundarefni
1.      Skýrsla formanns um störf félagsins frá stofnfundi þann 5. mars sl.
2.      Skógar fyrir líkama og sál. Erindi flutt af  Sherry Curl, skógræktarráðunaut Skógræktar ríkisins á Egilsstöðum
3.      Aðferðafræði til að meta gæði skipulagðra útivistarsvæða innan þéttbýlis. Erindi flutt af Kristbjörgu Traustadóttur, mastersnema í umhverfissálarfræði, SLU Alnarp, Svíþjóð.
4.      Kosning í stjórn og varastjórn
5.      Kosning endurskoðanda
6.      Önnur mál

Samantekt úr erindi Sherry Curl – Skógar fyrir líkama og sál.
Þrátt fyrir bætt heilbrigðiskerfi og lífskjör síðustu áratugi hefur orðið aukning á fjölda þeirra sem þjást af sjúkdómum tengdum lífsstíl, mengun og andlegu álagi í flestum ef ekki öllum vestrænum ríkjum. Þó að mikilvægi þess að njóta náttúrulegs umhverfis fyrir lýðheilsu hafi lengi verið haldið fram, þá hefur þýðing þess fyrir þjóðarbúið í formi efnahags og aukinna lífsgæða verið vanmetin. Í fyrirlestrinum er farið yfir umfang vandans og mögulega notkun útivistar bæði til forvarnar og sem leið til að brúa bilið á milli þess sem heilbrigðiskerfið býður upp á og að einstaklingar geti náð góðri félagslegri virkni.

Samantekt úr erindi Kristbjargar Traustadóttur – Aðferðafræði til að meta gæði skipulagðra útivistarsvæða innan þéttbýlis.
Rannsóknir sýna að ákveðnir þættir í umhverfinu hafa áhrif á bætta líðan fólks. Rannsóknir hafa einnig sýnt að það eru átta rýmiseinkenni sem eru mikilvægust til að garðar eða útivistarsvæði virki sem best á notendur.
Til að meta gæði garðanna innan borgarmarkanna er leitað eftir þessum átta rýmiseinkennum (karaktereinkennum). Samsetningin segir til um gæðin og hversu líklegir garðarnir eru til að virka heilnæmir. Margbreytileiki laðar að notendur og því er mikilvægt að finna sem flesta eða alla þá þætti sem leitað er eftir hvort sem notandinn sækist eftir því að vera í ró og friði eða sjá og vera í margmenni.
 

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku til audur(hjá)rit.is.  Yndisleg kona bakar kleinur sem bornar verða með kaffinu í hléinu og stjórnin vill tryggja að nóg verði af nýbökuðum kleinum.
 
Samtökin eru með síðu á Fésinu (Facebook), nafnið á henni er Umhverfi og vellíðan. Þar eru ýmsar upplýsingar um starfsemina og frásagnir af tiltækjum félagins í sumar ásamt myndum.

umhverfivellidan