Skip to main content

Aðalfundur 2012

Með 27. september, 2012ágúst 23rd, 2024Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt sinn 77. aðalfund í Félagsheimili Blönduóss á Blönduósi dagana 24.-26. ágúst 2012. Skógræktarfélag A-Húnvetninga var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Á annað hundrað fulltrúar sóttu fundinn, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Jóns Geirs Péturssonar, fulltrúa umhverfisráðherra, Páls Ingþórs Kristinssonar, formanns Skógræktarfélags A-Húnvetninga, Kári Kárason bæjarfulltrúa Blönduósbæjar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Að hádegisverði loknum var farið í nefndastörf, en að þeim loknum var haldið í vettvangsferð. Gengið var frá Félagsheimilinu að Yndisgarði á Blönduósi, þar sem Samson B. Harðarson kynnti garðinn og hugmyndina þar á bak við. Því næst var gengið að Jónslundi við Hrútey og þaðan út í eyna. Síðan var stigið upp í rútur og ekið sem leið lá að Mánafossi við Laxá á Ásum, þar sem haldið var í eftirminnilega gönguferð um skóginn, sem endaði við sumarhús, þar sem húsráðendur, Páll A. Jónsson og Ásdís Björgvinsdóttir buðu upp á hressingu fyrir fundargesti. Eftir góða samkomu í skóginum var svo haldið aftur á Blönduós.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, hélt erindi um samfélagið á Blönduósi, gróðurfar og atvinnulíf. Helena Marta Stefánsdóttir sagði frá Skógvatn-rannsókninni, er fjallar um áhrif trjágróðurs á líf í lækjum. Magnús Björnsson frá Hólabaki sagði því næst frá skógrækt í Kína og Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins, fjallaði um lerkikynbætur.

Erindi Ágúst Þór Bragason (pdf)
Erindi Helena Marta Stefánsdóttir (pdf)
Erindi Magnús Björnsson (pdf)
Erindi Þröstur Eysteinsson (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Var fyrst ekið að Fjósum í Svartárdal, þar sem fundargestum var kynntur skógurinn og gefin smá hressing, en því næst var stutt skoðun á áhugaverðri skógrækt í  Blöndudalshólum. Að því loknu var haldið í Gunnfríðarstaðaskóg, þar sem afhjúpað var nýtt skilti með upplýsingum um Gunnfríðarstaði. Einnig var undirritaður samningur um stækkun landgræðsluskógasvæðisins í Vatnahverfi og skrifuðu Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Ágúst Þór Bragason, forseti bæjarstjórnar Blönduósbæjar, undir samninginn. Aðalfundargestir þáðu veitingar hjá Skógræktarfélagi A-Húnvetninga og hlustuðu á ljúfa tóna harmonikkuleikara sem spilaði einnig undir mikinn fjöldasöng.

Síðan var  boðið til hátíðarkvöldverðar og kvöldvöku í boði Skógræktarfélags A-Húnvetninga, undir stjórn veislustjórans Ágústs Þórs Bragasonar. Voru fimm aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það sr. Árni Sigurðsson, Erla Hafsteinsdóttir, Gísli Pálsson, Jónas Bjarnason og Vigdís Ágústsdóttir. Einnig var Gísli Gestsson gerður að heiðursfélaga á fundinum.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikningar, tillagna og kosning stjórnar. Einnig voru þeim skógræktarfélögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir félagsins, en það voru Skógræktarfélag Akraness (70 ára), Skógræktarfélag Bíldudals (20 ára), Skógræktarfélag Djúpavogs (60 ára), Skógræktarfélag Dýrafjarðar (20 ára), Skógræktarfélag Heiðsynninga (60 ára), Skógræktarfélag Önundarfjarðar (20 ára) og Skógræktarfélagið Kvistur (20 ára). Tók Jens B. Baldursson, formaður Skógræktarfélags Akraness, við skjali og blómi af því tilefni fyrir hönd síns félags, en fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum áttu ekki heimangengt. Fundi lauk svo um eitt-leytið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2012 (pdf) 

Fundargögn:

Dagskrá fundar (pdf)
Starfsskýrsla 2011-2012 (pdf)
Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)