73. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 15.-17. ágúst.
Skógræktarfélag Ísafjarðar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á þriðja hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn sérlega vel.
Fundurinn hófst föstudaginn 15. ágúst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns félagsins. Fyrst tók til máls Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, sem flutti fundinum kveðju Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra. Næst ávarpaði fundinn Magdalena Sigurðardóttir, formaður Skógræktarfélags Ísafjarðar og bauð fundargesti velkomna. Því næst tók til máls Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og fjallaði hann meðal annars um aðkomu Ísafjarðarbæjar að skógrækt í bæjarfélaginu. Seinastur tók til máls Jón Loftsson skógræktarstjóri.
Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Magnús Gunnarsson kynnti starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands og því næst fór Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, yfir reikninga þess. Jón Loftsson fór svo yfir reikninga Landgræðslusjóðs.
Eftir hádegi héldu fundargestir til Sanda í Dýrafirði, þar sem afhjúpað var nýtt skilti í skóginum. Skógræktarfélag Dýrafjarðar hefur haft umsjón með ræktun að Söndum en Toyota á Íslandi hefur í hartnær tvo áratugi styrkt skógrækt þar. Í tilefni dagsins færði Magnús Kristinsson, stjórnarformaður Toyota, Skógræktarfélagi Dýrafjarðar að gjöf nestisborð fyrir skóginn og keðjusög, sem nýtast mun við grisjun skógarins er fram líður, og tók Sigrún Guðmundsdóttir, stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Dýrafjarðar, við gjöfinni. Því næst tóku fundargestir þátt í hátíðargróðursetningu og settu niður um hundrað tré, af ýmsum tegundum berjatrjáa og runna. Munu því Sandar verða geysigott berjaland, er frá líður, en þar er nú þegar gott krækiberja- og bláberjaland, eins og fundargestir sannreyndu!
Að gróðursetningu lokinni var haldið til Víkingasetursins á Þingeyri, þar sem fundargestir fengu kaffi, heitt kakó og heimabakstur frá kvenfélaginu á staðnum. Formlegri dagskrá lauk svo með því að Elfar Logi Hannesson, frá Komedíuleikhúsinu, flutti brot úr sýningunni Gísli Súrsson, við góðar undirtektir viðstaddra.
Deginum lauk svo með nefndarstörfum eftir að komið var til Ísafjarðar.
Fundur á laugardaginn 16. ágúst hófst með áhugaverðum fræðsluerindum. Kevin Collins, frá Irish Forest Service fjallaði um tvö verkefni er hann hefur komið að, NeigbhourWood (Grenndarskógar) og Sculpture in Woodland (Styttur í skógi). Því næst fjallaði Þorvaldur Friðriksson útvarpsmaður um keltneskar rætur örnefna á Íslandi. Síðast en ekki síst sagði Jóna Símonía Bjarnadóttir sagnfræðingur frá Ísafirði og uppbyggingu bæjarins.
Eftir hádegisverð tók svo við skemmtileg skoðun á skógarsvæðum Skógræktarfélags Ísafjarðar í nágrenni bæjarins. Skoðaður var skógurinn í Stóruurð, þar sem Elfar Logi Hannesson flutti smá leikþátt í skóginum, við undirleik Guðmundar Þrastarsonar. Því næst var gengið yfir í Tunguskóg, þar sem boðið var upp á hressingu og harmonikkuleik Karls Jónatanssonar.
Á laugardagskvöldið var svo kvöldvaka í Edinborgarhúsinu. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri og fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Íslands, stýrði fjölbreyttri dagskrá með röggsemi og gamanmálum. Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir tók tvö lög á harmonikku og Helga Margrét Marsellíusardóttir, Dagný Hermannsdóttir og Svanhildur Garðarsdóttir tóku nokkur lög, við undirleik Samúels Einarssonar. Einnig voru veittar tvær viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og fengu þær Guðrún Hafsteinsdóttir og Magdalena Sigurðardóttir. Einnig var þeim skógræktarfélögum, sem eiga tugaafmæli á árinu, færðar árnaðaróskir og eðalhlynur að gjöf.
Síðan var stiginn dans fram eftir nóttu og skemmtu allir sér vel.
Á sunnudeginum voru hefðbundin aðalfundarstörf um morguninn. Ein breyting var samþykkt á lögum Skógræktarfélagsins, þess eðlis að formaður er nú kosinn beinni kosningu á aðalfundi. Þrettán tillögur voru afgreiddar og kosin var ný stjórn. Þrír stjórnarmenn létu af störfum, Jónína Stefánsdóttir, Ólafía Jakobsdóttir og Þorvaldur S. Þorvaldsson. Í þeirra stað voru kosin Sigrún Stefánsdóttir, Skógræktarfélagi Eyfirðinga, Gísli Eiríksson, Skógræktarfélagi Ísafjarðar og Gunnlaugur Claessen, Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Varamenn voru kosnir Páll Ingþór Kristinsson, Skógræktarfélagi A-Húnvetninga, Rannveig Einarsdóttir, Skógræktarfélagi A-Skaftfellinga og Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélags Íslands.
Við þökkum Skógræktarfélagi Ísafjarðar og öðrum er komu að skipulagningu og þjónustu fyrir vel unnið starf.