Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2007 var haldinn á Egilsstöðum dagana 17.-19. ágúst. Fundurinn var haldinn í Menntaskólanum á Egilsstöðum.
Fundurinn hófst að morgni föstudagsins 17. ágúst. Eftir hefðbundin aðalfundarstörf var ferð á vegum Skógræktarfélags Austurlands eftir hádegið. Byrjað var í nýrri starfsstöð Gróðrarstöðvarinnar Barra á Valgerðarstöðum, en þaðan var haldið í Hrafngerðisskóg. Því næst var farið að Víðivallagerði í Suðurdal í Fljótsdal. Deginum lauk svo með nefndarstörfum um kvöldið.
Laugardaginn 18. ágúst hófst dagskráin með fræðsluerindum um morguninn.Hallur Björgvinsson, Suðurlandsskógum, fjallaði um geymslu, meðhöndlun og flutning skógarplantna. Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, fjallaði um möguleg áhrif loftslagsbreytinga á trjátegundir og tegundaval í skógrækt með tilliti til spáa um hlýnandi loftslag. Halldór Sverrisson, Landbúnaðarháskóla Íslands, fjallaði um trjákynbótaverkefnið Betri tré. Þorsteinn Tómasson, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, fjallaði um erfðaefni í skógrækt á Íslandi og aðferðir til að velja tré með gott erfðaefni til ræktunar. Eftir hádegið var svo skoðunarferð í Hallormsstaðaskóg, sem lauk í Trjásafninu á Hallormsstað með viðhafnarathöfn þar sem útnefnt var tré ársins 2007, sem er stór og stæðileg lindifura sem stendur í Trjásafninu. Um kvöldið var svo kvöldvaka í Menntaskólanum, með fjölbreyttri dagskrá. Meðal annars voru veittar fjórar viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar. Þær fengu Guttormur V. Þormar, bóndi í Geitagerði á Fljótsdal og einn af fyrstu skógarbændum á Héraði, Orri Hrafnkelsson, formaður Skógræktarfélags Austurlands til fjöldamargra ára og bræðurnir Baldur og Bragi Jónssynir, en þeir hafa unnið alla sína starfsævi í skóginum á Hallormsstað.
Sunnudaginn 19. ágúst voru hefðbundin aðalfundastörf og lauk svo fundinum um hádegið.