|
Sala skógarafurða, hvort sem er timburs eða annarra afurða, getur verið uppspretta tekna sem hjálpa til við að berjast gegn fátækt, sérstaklega í dreifðari byggðum þar sem atvinnutækifæri eru iðulega færri en í þéttbýli.
|
|
Skógar og búskaparskógrækt (agroforestry) stuðla að fæðu- og næringaröryggi á ýmsa vegu. Úr skógum kemur alls konar matur beint – ávextir, grænmeti, hnetur, fræ og sveppir, auk veiðibráðar, fiska og skordýra sem neytt er. Óbeint geta skógar stutt við fæðuframleiðslu sem uppspretta fóðurs fyrir búfénað, eldsneytis til eldunar mats og sem tekjulind sem nýtist meðal annars til matvælakaupa. |
|
Skógar hafa margvísleg jákvæð áhrif á heilsu okkar. Ýmis lyf eru unnin úr efniviði úr skógum, auk þess sem ýmis náttúrulyf eiga uppruna sinn í skógum Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á margvísleg jákvæð áhrif þess að stunda útiveru í skógum og öðrum grænum svæðum, bæði hvað varðar líkamlega og andlega heilsu. |
|
Tekjur frá skógum og skógrækt geta gert skólagöngu mögulega. Fræðsla um skóga og skógrækt skiptir líka töluverðu máli, til að fólk geri sér grein fyrir efnahagslegu, menningarlegu og vistfræðilegu hlutverki þeirra og geti þar með tekið upplýstari ákvarðanir um notkun og/eða verndun þeirra. Svo geta skólar verið kennslurými fyrir útikennslu. |
|
Tekjur frá skógum/skógrækt geta gefið stúlkum sem ella hefðu ekki átt kost á skólagöngu tækifæri til þess. Raddir kvenna skipta líka máli þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi skógrækt, eins og aðra landnotkun, og þar skiptir eignarhald á landi verulegu máli. Jafnvel í löndum þar sem kynjajafnrétti er komið hvað lengst, eins og hér á Norðurlöndunum, hallar enn nokkuð á kvenþjóðina þegar kemur að hlutfalli þeirra sem starfa innan skógræktar og er verið að vinna markvisst að því að auka aðkomu kvenna að geiranum. |
|
Skógar stuðla að miðlun vatns og skipta þar miklu máli í að draga úr áhrifum flóða eða þurrka. Skógar gegna líka mikilvægu hlutverki við hreinsun vatns sem um þá fer, en um 75% ferskvatns jarðar fer um þá. Þeir skipta því gríðarlega miklu máli fyrir framboð neysluvatns og þar með heilsu og vellíðan (Markmið 3), en hreint vatn er ein grunnundirstaða lífs okkar allra – án vatns lifum við ekki lengi! |
|
Viður úr skógum hefur verið nýttur sem eldsneyti um árþúsundir og skiptir miklu máli enn – um 2,4 milljarðar jarðarbúa nota enn við til hitunar og eldunar. Notkun endurnýjanlegs og sjálfbærs efniviðar úr skógum, hvort sem er hefðbundins eldiviðar eða framleiðsla lífeldsneytis, er einn möguleiki til öflunar orku í framtíðinni, ásamt öðrum umhverfisvænni orkukostum, svo sem vatnsorku, vindorku og sólarorku. |
|
Um 1,6 milljarður jarðarbúa byggir framfærslu sína á skógum á heimsvísu og þeir eru því mikilvægur atvinnugrundvöllur. Viður og aðrar skógarafurðir hafa verið verslunarvörur í árþúsundir og verða það áfram, þar sem nýsköpun tengd þeim heldur stöðugt áfram og fjölgar þeim vörum sem verða til úr skógum. Auk þess sem skógar eru vinsælir til heimsókna og útiveru og skipta því verulegu máli í ferðaþjónustu. |
|
Mikil nýsköpun á sér stað í skógargeiranum, sérstaklega þegar kemur að úrvinnslu skógarafurða. Hráefni upprunnið úr viði er í ótrúlegustu vörum – fataefni og taui (rayon, tencel, mycell), tannkremi, tyggjó, snyrtivörum, lyfjum, málningu og tölvuskjám (LCD skjám). Einnig er farið að leggja meiri áherslu á notkun timburs til bygginga, jafnvel háhýsa, í stað steypu þar sem kolefnisfótsport timburhúsa er lægra. |
|
Hagsæld tengd skógariðnaði getur hjálpað til við aukinn jöfnuð. Aukinn jöfnuður, þar sem fleiri koma að borðinu við ákvarðanatöku, skiptir auk þess miklu máli varðandi framtíð skóga, hvort sem er friðun eða nýtingu. |
|
Aukin notkun timburs til húsbygginga hefur í för með sér samdrátt í losun (sbr. Markmið 9). Borgarskógar skipta að auki miklu máli varðandi vellíðan fólks í borgum – þeir sía loft og vatn, bæta lýðheilsu, tempra hitma og draga þar með úr orkunotkun nálægra bygginga, auka fegurð borga, bjóða upp á búsvæði fyrir ýmsar dýrategundir og geta jafnvel dregið úr glæpatíðni! |
|
Vörður úr skógarafurður geta verið umhverfisvænni kostur (t.d. timbur til byggina í stað steypu) og vel skipulögð skógrækt getur bæði boðið upp á framleiðslu afurða og aðra vistþjónustu – skógur til timburframleiðslu getur t.d. líka nýst til útivistar eða sem búsvæði villtra dýra og plantna. Miklu máli skiptir að hér sé rétt staðið að skógrækt og ekki gengið of nærri náttúrulegum skógum, sérstaklega regnskógum. |
|
Kolefnisbinding með skógrækt er ein þeirra loftslagsaðgerða sem reglulega kemur til umræðu, enda hefur hún þann kost að hafa ekki bara jákvæð áhrif hvað bindingu varðar, heldur ýmis önnur umhverfisáhrif líka (verndun jarðvegs, vatnsmiðlun, búsvæði dýra/plantna o.s.frv.). Verndun náttúrulegra skóga (sérstaklega regnskóga) skiptir hér einnig miklu máli upp á að auka ekki losun. |
|
Höf þekja rúmlega 70% jarðar og skipta því miklu máli hvað sjálfbærni varðar. Skógar koma þar takmarkað inn, nema hvað skóga við strendur varðar, sérstaklega fenjaviðarskóga (mangrove) en mikilvægt er að tekið sé tillit til þeirra við markmiðasetningu fyrir höfin. Fyrir ferskvatn skipta skógar hins vegar miklu máli, m.a. upp á vatnsmiðlun og hreinsun. Fyrir líf í ám og vötnum leggur skógur bæði til fæðu (með lífrænu efni) og búsvæði. |
|
Lífbreytileiki á landi er mestur í skógum, sérstaklega regnskógum, en í skógum eru heimkynni yfir 80% dýra- og plöntutegunda á landi. Skógareyðing er því ein stærsta ógnin við lífbreytileika og því skiptir skógvernd og endurheimt skóga miklu máli, sem og vel skipulögð nytjaskógrækt, en með henni má draga úr þrýstingi á náttúruskóga. |
|
Þetta markmið snýst um að byggja upp réttlátt lagaumhverfi og skilvirkar og ábyrgar stofnanir. Skýr og réttlátur lagarammi um skógrækt skiptir auðvitað máli upp á rekstur geirans, sem og vernd skóga, en skógrækt sem slík spilar kannski takmarkað hlutverk hér, nema þá á svipaðan hátt og fyrir Markmið 3, 4 og 10 – aukin hagsæld tengd skógum og skógrækt getur skilað sér í betri menntun, meira jafnrétti og jöfnuði, sem svo skilar sér í meiri líkum á friði. Auk þess sem betur menntað og vel stætt fólk á auðveldara með að sækja sér réttlæti með lagalegum úrræðum. |
|
Markmið 17 gengur eins og rauður þráður í gegnum öll hin markmiðin – til þess að ná Markmiði 17 þarf að ná öllum hinum 16 og þau nást ekki nema unnið sé saman. Undir þessu markmiði eru undirmarkmið um fjárfestingar, viðskipti og flutninga, sem allt hefur áhrif á framtíðarmöguleika skógræktar. Skógrækt og skógverndun er langtímaverkefni sem vinna þarf að í samvinnu margra aðila og mótast af mörgum mismunandi þáttum. Auk þess sem skógar með hátt verndargildi geta legið yfir landamæri! |