Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2020 er nú komið út og í póst til áskrifenda. Að vanda er að finna í ritinu fjölda greina um hinar ýmsu hliðar skógræktar. Meðal annars eru greinar um stígagerð úr viðarstiklum, býflugnarækt, konur og skógrækt í Vopnafirði, skógarferð til S-Tíról og minningargarða, auk þess sem formaður Skógræktarfélags Íslands fer yfir helstu þætti úr starfi félagsins frá upphafi, en félagið fagnar 90 ára afmæli á árinu.
Kápu ritsins prýðir myndin „Vigdís“ eftir Tryggva Ólafsson, af Vigdísi Finnbogadóttur. Hún er heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands og jafnaldri þess, en hún fagnaði 90 ára afmæli sínu þann 15. apríl síðast liðinn. Þótti því viðeigandi að mynd af henni prýddi forsíðu ritsins að þessu sinni, í ljósi þeirra tímamóta sem kosning Vigdísar sem fyrsta þjóðkjörna kvenkyns forseta veraldar var, en þetta rit markar einmitt tímamót í útgáfusögu Skógræktarritsins. Þetta er fyrsta ritið frá upphafi, en útgáfusaga þess nær aftur til 1933, þar sem konur eru meirihluti greinarhöfunda.