Skip to main content

MAROKKÓ 2022

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir ferð til Marokkó dagana 5.-16. október 2022. Upphaflega stóð til að fara haustið 2020, en fresta varð ferðinni í tvígang vegna kórónaveirufaraldursins.

Flogið var til Casablanca miðvikudaginn 5. október. Lent var þar að kvöldlagi og haldið til höfuðborgarinnar Rabat, þar sem gist var fyrstu nóttina. Daginn eftir var ekið um landbúnaðarsvæði og skógi vaxnar hæðir frá Rabat til bæjarins Ifrane, sem er í Mið-Atlas fjallgarðinum. Heimsóttur var einn stærsti þjóðgarður landsins og skoðaður sedrusskógur.

Föstudaginn 7. október var ekið til bæjarins Erfoud um Há-Atlas fjallgarðinn en á leiðinni mátti sjá sedrus- og fururskóga og eyðimerkur, auk þess sem heimsótt var hirðingjafjölskylda.

Daginn eftir var heimsóttur pálmatrjáabóndi í nágrenni Erfoud, kíkt á hefðbundinn laugardagsmarkað og snæddur hádegisverður í vin í eyðimörkinni. Um kvöldið gafst stórum hluta hópsins einnig tækifæri á að fara í ferð á úlföldum um sandöldur Sahara.

Sunnudagurinn 9. október var akstursdagur, þar sem haldið var frá Erfoud til Ouarzazate. Á leiðinni mátti sjá akasíutré, úlfalda og ræktunarlönd auk þess sem heimsóttur var bóndi virkur í landgræðslu og voru gróðursett nokkur pálmatré í tilefni heimsóknarinnar.

Daginn eftir var haldið til þorpsins Ait Ben Haddou, sem er á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna og það skoðað, auk þess sem heimsóttur var teppasali, en Marokkó er þekkt fyrir slíkan vefnað.

Þriðjudaginn 11. október var haldið til Marrakesh, um Há-Atlas fjallgarðinn þar sem skiptast á ræktarlönd og fjallaskógar – furu og einis. Í Marrakesh var komið við í hefðbundnu Berba-apóteki, auk þess sem nokkrir ferðalanganna prufuðu Hammam – hefðbundið bað með nuddi.

Daginn eftir var aftur haldið til fjalla, til smábæjarins Aroumd sem er í rúmlega 2000 m hæð, en síðasta spölinn að því fóru ferðalangar gangandi, í bíl eða á asna! Á leiðinni mátti sjá fallega fjallaskóga, meðal annars bæði valhneturæktun og eplarækt. Um kvöldið var svo fyrirlestur um ræktun argantrjáa.

Fimmtudaginn 13. október var haldið frá Marrakesh, með viðkomu í Souk (markaði) borgarinnar, en stefnan var tekin á borgina Essaouira við Atlantshafsströndina. Í kringum hana er töluverð ræktun á argantrjám, sem ferðalangar fengu mikla og góða kynningu á, meðal annars fyrirlestur um ræktunina frá fulltrúum Slow Food samtakanna að morgni 14. október. Að fyrirlestri loknum var heimsótt samyrkjubú kvenna, sem snýr að ræktun og nýtingu argan trjáa. Því næst var haldið aftur til Essaouira, þar sem boðið var upp á gönguferð um höfnina og miðbæinn.

Laugardagurinn 15. október var akstursdagur, þar sem stefnan var tekin á Casablanca, en þangað var komið síðdegis. Var þar heimsótt Hassan II moskan, sem er sú eina sem opin er öðrum en múslimum og snæddur hátíðarkveðjukvöldverður. Sunnudaginn 16. október var svo flogið heim frá Casablanca.

Nánar má lesa um ferðina í 2. tölublaði Skógræktarritsins 2022 (.pdf).