Bæklingadreifing hefur samið við Skógræktarfélag Íslands (SÍ) um gróðursetningu trjáa sem svara því pappírsmagni bæklinga sem Bæklingadreifing dreifir á ári. Munu 1.000 tré verða gróðursett árið 2018, en áætlað er að Bæklingadreifing dreifi um 200 þúsund bæklingum á árinu.
„Við hlökkum mikið til samstarfsins við SÍ ,“ segir Jón Rúnar Jónsson, sölu- og rekstrarstjóri Bæklingadreifingar, en fyrirtækið annast dreifingu kynningarefnis fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög til ferðamanna.
„Almennt séð er ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi mjög umhugað um umhverfið og mætti segja að við séum að verða við kröfum þeirra um sjálfbærni og umhverfisvernd, sem við tökum að sjálfsögðu fagnandi,“ segir Jón.
SÍ fagnar samstarfinu og áhuga starfsmanna og eigenda Bæklingadreifingar. Um leið ber félagið þá von í brjósti að fyrirtæki í ferðaþjónustu ásamt sveitarfélögum fylgi í fótsporið og hugi með markvissum hætti að því að draga úr vistsporum sínum og marki ábyrga framtíðarsýn með sýnilegum hætti. Skógrækt og ræktun trjágróðurs er ein áhrifaríkasta leiðin til að sporna við loftslagsvandanum um leið og hún stuðlar að sjálfbærri þróun.
Skógræktarfélag Íslands mun gróðursetja andvirði framlags Bæklingadreifingar á eignajörð félagsins á Úlfljótsvatni í Grafningi þar sem mörkuð hefur verið ákveðin spilda til verkefnisins.
Jón Rúnar Jónsson, sölu- og rekstrarstjóri Bæklingadreifingar og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undirrita samstarfssamning (Mynd: RF).