Jólamarkaðurinn vinsæli við Elliðavatn opnar laugardaginn 29. nóvember og verður opinn allar helgar fram að jólum frá klukkan 11-16. Mikið úrval af íslensku handverki og hönnun.
Dagskráin hefst við hátíðlega athöfn þar sem Skólakór Norðlingaskóla ætlar að gleðja markaðsfólk og gesti með söng sínum kl.11.30 á hlaðinu og jólaljósin á trénu verða tendruð, en tréð í ár er skreytt af Gerði Jónsdóttur.
Á Hlaðinu verða til sölu nýhöggvin íslensk jólatré og þar að auki mikið úrval af tröpputrjánum vinsælu og eldiviður. Í Gamla salnum, Hlöðunni og í litlu Jólahúsunum á torginu verður fjölbreyttur hópur handverksfólks sem kynnir vörur sínar og selur. Kaffistofan verður niðri í Elliðavatnsbænum þar sem fjölskyldan getur fengið sér hressingu í anda jólanna, átt notalega stund, og hlustað á rithöfunda lesa og tónlistarfólk flytja falleg lög.
Rjóðrið er trjálundur rétt við Elliðavatnsbæinn þar sem hægt er að setjast á bekki kringum logandi varðeld. Barnastundin verður þar klukkan 14 og þá kemur barnabókahöfundur og les upp fyrir börnin. Jólasveinar koma í heimsókn á markaðinn, og kíkja líka á börnin í rjóðrinu eftir upplesturinn. Þeir syngja og tralla frá 13.30-15.30.
Hægt verður að fylgjast nánar með dagskrá jólamarkaðarins á fésbókarsíðu markaðarins þegar nær dregur. Einnig verða upplýsingar um verð og fleira tengt jólatrjáasölu og jólamarkaðnum á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.