Nýlega gaf Skógræktarfélag Garðabæjar út kort í handhægu vasabroti með upplýsingum um gönguleiðir og annan fróðleik um útivistarsvæðin ofan byggðar í Garðabæ.
Í nágrenni við friðland Vífilsstaðavatns, á hæðunum í Smalaholti og Sandahlíð, sjást nú myndarlegir skógarlundir sem skógræktarfélagið hefur ræktað og byggt upp á undanförnum 25 árum. Margir nýta sér svæðin til útivistar og afþreyingar. Félagið hefur látið skipuleggja göngustíga og áningastaði á þessum svæðum og hlykkjast stígakerfið þar um alveg efst upp á hæðir þaðan sem víðsýnt er.
Kortið nær yfir næsta nágrenni Vífilsstaðavatns en á annarri hlið þess eru sérkort yfir gönguleiðir, áningastaði o.fl. í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð.
Nánar má lesa um kortið á heimasíðu Skógræktarfélags Garðabæjar – www.skoggb.is