Skip to main content

Skógræktarfélag Reykjavíkur undirritar samstarfssamning um rekstur og þjónustu í Heiðmörk

Með 7. janúar, 2013febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Jón Gnarr borgarstjóri, Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, skrifuðu undir samstarfssamning þann 3. janúar, um rekstur og þjónustu í Heiðmörk.

Sameiginlegt markmið aðila með samningnum er að standa vörð um neysluvatnsauðlindina í Heiðmörk, efla og bæta útivistarsvæði Reykvíkinga á svæðinu og gera það eftirsóknarverðara til útivistar. Auk vatnsverndar skal sérstök áhersla lögð á að halda við og bæta skóglendi í Heiðmörk, auk fræðslu til almennings, félagasamtaka og skóla.

Aðilar eru sammála um að markmið þeirra fari að þessu leyti saman og séu í samræmi við megintilgang Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem er að vinna að skógrækt , trjárækt og landbótum, auk fræðslu fyrir almenning í Reykjavík og víðar og stuðla að bættu samspili og lífsskilyrðum manna, dýra og gróðurs.

Samningurinn er gerður til 10 ára og samkvæmt honum greiða Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavíkurborg Skógræktarfélagi Reykjavíkur endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er og nemur greiðslan til Skógræktarfélagsins fyrir árið 2013 tæplega 40 milljónum króna, þar af greiðir Reykjavíkurborg greiðir tæpar 33 milljónir og Orkuveitan tæplega 7 milljónir.

samstarfssamningur

F.v. Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, Jón Gnarr borgarstjóri og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, undirrita samstarfssamninginn.