Andri Snær Magnason rithöfundur er nýr formaður Yrkjusjóðs, samkvæmt tilnefningu Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Tekur hann við af Sigurði Pálssyni skáldi, sem lést á síðasta ári.
Yrkjusjóður heitir fullu nafni Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins. Forsaga sjóðsins er sú, að árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem Vigdís stofnaði árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Árlega hafa um 100 grunnskólar sótt um og fengið úthlutað trjáplöntum.
Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, var fyrsti formaður sjóðsins, en hann lét af störfum að eigin ósk árið 2003 og tók Sigurður Pálsson þá við sem formaður og gegndi því starfi til dauðadags.