Hálfrar aldar vísindastarfi á Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá verður fagnað í skóginum við stöðina sunnudaginn 20. ágúst. Haldinn verður skógardagur að skógarmanna sið og gestir fá að kynnast þeim spennandi verkefnum sem starfsfólk stöðvarinnar vinnur að.
Lögð verður áhersla á starfið á Mógilsá og starfsfólk kynnir verk sín og verkefni. Sýndar verða trjámælingar, pöddur, klipping stiklinga, efni um kolefnisbindingu og margt fleira. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, sýnir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að spreyta sig með hnífinn. Bakaðar verða lummur og hitað ketilkaffi með meiru eins og skylt er á skógardegi. Skógrækt er ekki bara ræktun heldur líka nytjar og því er líka við hæfi að kljúfa við og saga, jafnvel að fara í axarkast og annað sem skógarmönnum kann að detta í hug. Í tilefni hálfrar aldar afmælisins verða líka gróðursettar 50 eikur.
Allt áhugafólk um skógrækt, skógarnytjar, skógarmenningu og skógarvísindi er boðið velkomið á afmælishátíðina milli klukkan 14 og 17 sunnudaginn 20. ágúst.