Þann 29. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti, og 100 ár frá því konur hér á landi fengu kosningarétt. Af þessu tilefni hefur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Alþingi og Reykjavíkurborg, ásamt á fjórða tug félagasamtaka og stofnana, þar á meðal Skógræktarfélag Íslands, tekið höndum saman og efna til hátíðardagskrár sunnudaginn 28. júní, undir yfirskriftinni Þjóðin sem valdi Vigdísi.
Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Þótti því upplagt að skógræktarfélögin myndu marka þessi tímamót með gróðursetningu og fylgja fordæmi Vigdísar um trén þrjú.
Skógræktarfélögin og sveitarfélög um land allt, með stuðningi Skógræktarfélag Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Yrkjusjóði og Landgræðslusjóði munu því standa saman að gróðursetningu laugardaginn 27. júní í tengslum við hátíðina daginn eftir. Fyrirhugað er að gróðursetja þrjár trjáplöntur á hverjum stað og verður um að ræða stæðileg birki af yrkinu Embla, um 1,5-2,0 m á hæð.
Á Facebook-síðu viðburðarins Gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur verða settar inn nánari upplýsingar um gróðursetningu á hverjum stað, eftir því sem þær berast.
Yfirlit:
Akranes: Skógræktarfélag Akraness og Akraneskaupstaður gróðursetja í Garðalundi kl. 13:00.
Blönduós: Skógræktarfélag A-Húnvetninga og Blönduósbær gróðursetja í Fagrahvammi (Kvenfélagsgarður) kl. 16:00.
Borgarnes: Skógræktarfélag Borgarfjarðar gróðursetur við íþróttavöllinn í Borgarnesi kl. 12:30.
Dalabyggð: Skógræktarfélag Dalasýslu og Dalabyggð gróðursetja við Auðarskóla kl. 17:00, sunnudaginn 28. júní.
Djúpivogur: Gróðursett verður í Hálsaskógi kl. 14:00.
Egilsstaðir: Skógræktarfélag Austurlands og Fljótsdalshérða gróðursetja í Tjarnargarði á Egilsstöðum kl. 15:30.
Garðabær: Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabær gróðursetja í Lundamóa kl. 13:00.
Garður: Gróðursett verður á opna svæðinu sunnan við sundlaugina kl. 11:00.
Grindavík: Skógræktarfélag Grindavíkur og Grindavíkurbær gróðursetja í minningarlundi í Sjómannagarði milli Hafnargötu og Mánagötu, kl. 13:00.
Grundarfjörður: Skógræktarfélag Eyrarsveitar og fleiri gróðursetja í Yrkjuhvamminn vestan við vatnstankinn undir Innra Hellnafelli, kl. 14:00.
Hafnarfjörður: Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gróðursetur í Vigdísarlund á Víðistaðatúni kl. 10:00.
Hvalfjarðarsveit: Skógræktarfélag Skilmannahrepps gróðursetur við Furuhlíð kl. 11:00.
Höfn í Hornafirði: Skógræktarfélag A-Skaftfellinga gróðursetur við Sundlaugina í Höfn þegar skrúðganga fer hjá (milli kl. 20:30 og 21:00).
Hveragerði: Gróðursett verður í smágörðunum við hlið Hótels Arkar kl. 17:00, föstudaginn 26. júní.
Ísafjörður: Skógræktarfélag Ísafjarðar og Ísafjarðarbær gróðursetja í Karlsárskógi kl. 14:00.
Kjósarhreppur: Skógræktarfélag Kjósarhrepps og Kjósarhreppur gróðursetja við Ásgarð kl. 11:00.
Kópavogur: Skógræktarfélag Kópavogs gróðursetur í Guðmundarlundi kl. 14:30, föstudaginn 26. júní.
Mosfellsbær: Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gróðursetur í Meltúnsreit kl. 11:00.
Raufarhöfn: Gróðursett verður á bletti beint á móti Ráðhúsinu kl. 11:00.
Reykjanesbær: Skógræktarfélag Suðurnesja og Reykjanesbær gróðursetja í Paradís, neðan við Grænás, kl. 11:00.
Reykjavík: Skógræktarfélag Reykjavíkur gróðursetur við Bæjarhólinn á Elliðavatni kl. 14:00.
Siglufjörður: Skógræktarfélag Siglufjarðar og Fjallabyggð gróðursetja við kirkjuna á Siglufirði kl. 11:00.
Skagaströnd: Skógræktarfélag Skagastrandar gróðursetur sunnan við Spákonuhof kl. 11:00.
Skútustaðahreppur: Gróðursett verður í höfða kl. 14:30, mánudaginn 29. júní.
Stykkishólmur: Gróðursett verður í Hólmgarði kl. 11:00.
Þingeyjarsveit: Skógræktarfélag Fnjóskdæla gróðursetur á Hálsmelum í Fnjóskadal kl. 15:00.
Þingeyri: Skógræktarfélag Dýrafjarðar og Grunnskólinn á Þingeyri gróðursetja í svæði Yrkjuskógar skólans kl. 11:00.
Þorlákshöfn: Skógræktarfélag Þorlákshafnar og Ölfuss og Sveitarfélagið Ölfus gróðursetja í Skýjaborgum kl. 11:00.