Skip to main content

Minnisvarði um fyrsta skógræktarstjórann afhjúpaður

Með 23. júní, 2014febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, ásamt Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Skógrækt ríkisins, og Landgræðslu ríkisins stóðu að gerð minnisvarða í skógarlundi í Heiðmörk í virðingarskyni við starf fyrsta skógræktarstjóra landsins, Agner Francisco Kofoed-Hansen en hann vann ötullega að skógrækt og sandgræðslu á Íslandi. Var minnisvarðinn afhjúpaður við hátíðlega athöfn þann 18. júní.

Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, hafði óbilandi trú á skógrækt til að vinna gegn umfangsmikilli landeyðingu í upphafi síðustu aldar. Hann vann að því að sett yrðu lög um skógrækt og voru þau samþykkt á Alþingi haustið 1907. Fyrsti skógræktarstjóri Íslands, Agner Francisco Kofoed-Hansen, var ráðinn til starfa ári síðar og starfaði til 1935.

Fyrirmyndin að gagnsemi skógræktar til að takast á við sandfok og landeyðingu var sótt til Danmerkur. Þar hafði mikill árangur náðst við að stemma stigu við landeyðingu á jósku heiðunum. Danir höfðu frumkvæði að því að efla áhuga Íslendinga á skógrækt og sandgræðslu.

A. F. Kofoed- Hansen fæddist í Danmörku 1869. Hann var skógfræðingur að mennt og hafði mikla reynslu í stjórnun ræktunarframkvæmda bæði í Svíþjóð og Rússlandi. Hann var skipaður skógræktarstjóri í byrjun árs 1908. Ekki höfðu allir jafn mikla trú á þýðingu skógræktar og Hannes Hafstein og sýndi A.F. Kofoed-Hansen mikla þolinmæði og þrautseigju við að efla skilning á þýðingu þess að vernda og auka umfang skóga í landinu. Meginstefið í starfi hans var friðun og verndun birkiskóga sem voru í mikilli afturför þegar hann tók við starfi. Einkunnarorð sem hann starfaði eftir lýsa þessu vel en þau voru: „Verndaðu vel og rétt kjarrið sem til er og það mun þroskast og verða skógur meðan þú sefur.“

Agner Francisco Kofoed-Hansen lést í Reykjavík 7. júní 1957.

minnisvardi