Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytur erindi sitt „Árangur birkisáninga – dæmi frá Gunnarsholti á Rangárvöllum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. janúar.
Birki (Betula pubescens Ehrh.) er eina innlenda trjátegundin sem myndar skóglendi hér á landi. Birkið getur komið snemma inn í framvindu og er meðal frumherja á jökulaurum við Skaftafellsjökul.
Áætlað hefur verið að við upphaf landnáms hafi birkiskógar og kjarr klætt meira en fjórðung landsins. Birkiskógarnir eyddust hins vegar hratt á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og nú á tímum er birkiskóga aðeins að finna á um 1200 km2 lands. Á síðustu áratugum hefur verið mikill áhugi á að endurheimta hluta þessara fornu skóga. Gróðursetning ungplantna er sú aðferð sem mest hefur verið notuð en fræsáningu hefur einnig verið beitt í minna mæli.
Á fyrri hluta 20. aldar voru nokkrar tilraunir gerðar til að endurheimta birkiskóga með sáningu fræs. Dæmi um árangursríkar sáningar frá þessum tíma má sjá í Haukadal í Biskupstungum, í Vatnsdal og í Gunnlaugsskógi í Gunnarsholti á Rangárvöllum.
Sáning birkis til landgræðslu lá að mestu niðri fram undir 1990 en þá hófust tilraunir með sáningu birkis á ný í margs konar land. Niðurstöður tilraunanna sýndu m.a. að einna bestur árangur náðist þar sem land var hálfgróið eða með mjög þunnu gróðurlagi (<1 cm). Hins vegar var lítill árangur af sáningu í algróið land eða þar sem yfirborð er óstöðugt. Niðurstöður þessara rannsókna bentu einnig til þess að víðiplöntur hefðu mjög jákvæð áhrif á lífslíkur og vöxt ungra birkiplantna.
Í framhaldi af þessum tilraunum hefur birki verið sáð á allmörgum stöðum á landinu til að endurheimta skóglendi. Í erindinu verða sýnd dæmi um árangur sáninga á Hrunamannaafrétti og á Rangárvöllum. Greint verður sérstaklega frá árangri sáningar í Gára í landi Gunnarsholts. Þar blés land upp í lok 19. aldar en var síðar grætt upp með grassáningum og áburðargjöf. Á árunum 1992 og 1994 var birki sáð í Gára og er þar nú kominn vísir að birkiskógi.
Veturinn 2009-2010 fer Hrafnaþing fram í sal söngskólans Domus Vox að Laugavegi 116, 2. hæð frá kl. 12:15-13:00.
Vísir að birkiskógi í Gára á Rangárvöllum. Sáð var í svæðið árið 1994. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. júní 2008. | |
Árangur birkisáningar í uppgrætt land við Reyðarvatnsrétt á Rangárvöllum. Sáð var í landið haustið 1994. Ljósm. Borgþór Magnússon 25. maí 2008. |
Frétt og myndir: Náttúrufræðistofnun Íslands