Skógræktarfélag Reykjavíkur, Garðyrkjufélag Íslands og Trjáræktarklúbburinn standa sameiginlega fyrir fræðsluerindi um ræktun trjáa og blómstrandi gróðurs undir heitinu Trjágarðurinn í Deild í Fljótshlíð. Þar hefur Sveinn Þorgrímsson og fjölskylda hans stundað ræktunarstarf í nærri 25 ár á gömlum túnum á skjóllausu landi. Sveinn hefur ritað um ræktunarstarfið í Skógræktarritið og Garðyrkjuritið og hefur árangur starfsins vakið eftirtekt áhugafólks um ræktun. Í erindinu verður farið yfir ræktunarsöguna og fjallað um hvað best dugði til að byggja upp skjól og síðan blómstrandi tegundir í skjóli þess. Nú eru um 300 tegundir og klón af trjám og runnum í ræktun í Deild og verður fjallað um tegundaval með áherslu á tegundir sem ekki eru algengar í almennri ræktun en ástæða er fyrir áhugafólk um ræktun að reyna.
Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 17. apríl í húsnæði Garðyrkjufélags Íslands að Síðumúla 1 (gengið inn Ármúlamegin) og hefst hann kl. 19:30.