Garðyrkjufélag Íslands og Skógræktarfélag Árnesinga standa sameiginlega fyrir fræðslufundi i Þingborg fimmtudagskvöldið 8. maí kl. 20:00 um þær birkikynbætur sem farið hafa fram á síðustu árum.
Góður árangur af ræktun yrkisins ‘Emblu‘ hefur breytt viðhorfum í ræktun birkis í skógi og borg. Nýtt og spennandi yrki ‘Kofoed‘ er komið á markað og hvítstofna, rauðblaða birki er í sjónmáli.
Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur mun flytja erindi um kynbætur á íslenska birkinu. Kynbótastarfið beinist að verulegu leiti að því að skapa yrki af íslenskri ilmbjörk með háu hlutfalli af kröftugum beinstofna og hvítstofna trjám sem klæða sig vel.
Auk áframhaldandi þróunar Emblu-yrkisins er unnið að kynbótum þar sem norrænt birki er notað til að fá breytt og bætt vaxtarlag og er nýtt yrki, ‘Kofoed‘, árangur þess. Það er nefnt eftir fyrsta skógræktarstjóra Íslands, Agner Fransico Kofoed-Hansen, sem var frumkvöðull í verndun og nýtingu íslenska birkisins.
Stutt er í að ræktendum bjóðist yrki með rauðan blaðlit og hvítan stofn sem mun henta vel sem garðtré. Líka verður gerð grein fyrir mjög áhugaverðum möguleikum sem felast í tilraunum og ræktun nýrra birkitegunda sem eiga uppruna sinn í Asíu.
Kaffigjald er krónur 500.
Allir velkomnir.