Skip to main content

COLORADO 2013

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir fræðsluferð til Colorado dagana 26. september til 6. október. Í ferðinni var ferðast um Colorado-fylki og skoðaðir þar skógar, sögustaðir og falleg náttúra.

Ferðin hófst með flugi til Denver fimmtudaginn 26. september. Lítið annað var gert þann dag annað en að koma sér fyrir á hóteli í bænum Lakewood, nágrannasveitarfélagi Denver, þar sem gist var fyrstu þrjár næturnar.

Föstudaginn 27. september var Rocky Mountain Research Station í Fort Collins, ein rannsóknarstöð U.S. Forest Service heimsótt, sem og svæðishöfuðstöðvar U.S. Forest Service í Lakewood.

Laugardaginn 28. september var byrjað á að skoða svæði við Echo Lake á Mount Evens, sem er hluti af almenningsgarðakerfi Denver-borgar. Því næst var haldið í bæinn Georgetown, sem þekktur er fyrir miðbæ frá Viktoríutímanum og svo ekið um Clear Creek gljúfrið til baka til Lakewood.

Sunnudagurinn 29. september hófst á heimsókn í Red Rocks Amphitheatre, sem er tónleikastaður utandyra í bergmyndum. Þaðan var svo haldið upp í Klettafjöllin, um Berthoud Pass og yfir í Rocky Mountain þjóðgarðinn. Þaðan var haldið til bæjarins Grand Lake og svo ekið um Routt þjóðskóginn og um Glenwood gljúfrið til bæjarins Glenwood Springs, þar sem var gist næstu nótt.

Daginn eftir, mánudaginn 30. september, var farið í Black Canyon þjóðgarðinn. Þaðan var ekið um „Million Dollar Highway“, sem liggur að hluta um San Juan þjóðskóginn og til bæjarins Durango, þar sem gist var.

Þriðjudaginn 1. október stóð til að heimsækja Mesa Verde þjóðgarðinn, en vegna vinnustöðvunar alríkisstarfsmanna voru allir þjóðgarðar lokaðir. Bærinn Cortez í útjarði þjóðgarðsins var heimsóttur, en þaðan var svo haldið til baka til Durango og svo ekið áfram að Wolf Creek Pass, þar sem hópurinn hitti Dean Swift, sem safnað hefur miklu fræi sem komið hefur til Íslands. Þaðan var haldið til Alamosa, þar sem gist var.

Miðvikudagurinn 2. október hófst á akstri að Monarch Pass en þaðan var haldið til bæjarins Salida og svo áfram til Cottonwood Pass í San Isabel þjóðskóginum. Þaðan var haldið til Colorado Springs þar sem gist var næstu nótt.

Fimmtudaginn 3. október var boðið upp á lestarferð upp á Pikes Peak fjallið (4.300 m). Að henni lokinni var haldið til Garden of the Gods klettamyndananna en þaðan var svo ekið til Denver, þar sem gist var síðustu tvær næturnar.

Föstudagurinn 4. október var frjáls dagur og nýttu ferðalangar hann eftir sínum áhugamálum. Sunnudaginn 5. október nýtti hluti hópsins til að skoða gröf Buffalo Bill, en svo var haldið heim á leið með flugi frá Denver seinni partinn og lent í Keflavík að morgni 6. október.

Í 2. tölublaði Skógræktarritsins 2013 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).