Íslensku jólatrén – fjölbreytt og falleg
Ræktun jólatrjáa er mikilvæg tekjulind skógræktarfélaganna í landinu og ræktaðar eru margar gerðir þeirra. Trén eiga það öll sameiginlegt að vera umhverfisvænn kostur.
Rauðgreni Rauðgreni er í hugum margra hið eina sanna jólatré. Það er fíngert og ilmandi og hefur þessa dæmigerðu jólatrjálögun og fallegan ljósgrænan lit. Það er viðkvæmt fyrir þurrki, en getur haldið barrinu vel ef passað er upp á að aldrei þorni á því eftir að það er komið í jólatrésfótinn. |
|
Stafafura Stafafura er eitt algengasta jólatréð sem ræktað er hérlendis. Hún ilmar vel, hefur afar fallegan grænan lit og langar uppsveigðar nálar og er sérlega vel barrheldin. Furunálar haldast meira að segja það vel að vel má hengja létt jólaskraut á nálarnar sjálfar, en ekki bara á greinarnar, þannig að hún býður upp á ný tækifæri í skreytingu. |
|
Blágreni Blágreni hefur verið nýtt sem jólatré í nokkrum mæli, en er ekki eins algengt og rauð- eða sitkagreni. Blágrenið er hægvaxta tegund, sem getur haft þétta og jafna krónu, oft nokkuð mjóa. Það er ágætlega barrheldið og hefur fallegan blágrænan/dökkgrænan lit. |
|
Sitkagreni Sitkagreni er ein algengasta tegundin í íslenskri skógrækt og hefur verið notað nokkuð sem jólatré. Það hefur fallegan djúpgrænan lit og getur verið mjög þéttvaxið. Stingur nokkuð miðað við sumar aðrar tegundir og þarf að passa vel upp á vökvun, ef barrið á að haldast vel á. |
|
Fjallaþinur Er ekki algengur í ræktun hér á landi, en hefur verið notaður nokkuð sem jólatré . Fjallaþinur getur haft mjög jafna og þétta krónu. Hann er nokkuð breytilegur að lit, heldur ljósari að lit en hinn innflutti nordmannsþinur, jafnvel yfir í blágrænan lit. Fjallaþinur er sérlega barrheldinn, ilmar mjög vel og er með mjúkar nálar sem stinga nær ekkert og hentar hann því mjög vel sem jólatré. |