Skógræktarfélag Íslands hefur frá því um 1990 stundað jólatrjáarækt í Brynjudal í Hvalfirði. Einnig hefur verið unnið að uppbyggingu útivistaraðstöðu í dalnum, en þar er m.a. gott berjaland, og var Brynjudalsskógur formlega opnaður sem Opinn skógur árið 2017.
Félagið tekur á móti skipulögðum hópum fyrir jólin sem koma til að ná sér í jólatré og finnst mörgum heimsókn í skóginn í Brynjudal vera ómissandi þáttur í jólahaldinu.
Jólaskógurinn í Brynjudal
Bókanir
Tekið er á móti hópum allar helgar fyrir jól í desember. Athugið að bókaður tími er áætlaður komutími í Brynjudal. Mikilvægt er að hver hópur haldi hópinn og komi saman á umsömdum tíma!! Tímasetning heimsóknar ákvarðast í samráði við Skógræktarfélag Íslands. Um klukkutíma akstur er í Brynjudal frá höfuðborgarsvæðinu.
Aðstaða á staðnum
Um leið og komið er á staðinn safnast hópurinn saman og fær úthlutað samkomustað. Þar bjóðum við hópinn velkominn og gefum leiðbeiningar um val á trjám, pökkun o.fl. Hópar fá skógarskála til umráða með litlu báli eða samkomurjóður (smærri hópar) ef þannig stendur á. Starfsmenn Skógræktarfélagsins aðstoða við að pakka trjánum í net.
Skógurinn er allur opinn og velur hver sér það tré sem passar í stofuna og fellur að smekk. Athugið að trén virðast stækka þegar heim er komið! Mest úrval er af stafafuru, sitkagreni og rauðgreni, en einnig finnast stöku tré af blágreni og fjallaþin.
Greinar (skreytiefni) er einnig í boði fyrir þá sem vilja og er það innifalið í verði.
Við mælum með því að koma á jeppum eða jepplingum og í vetrarfæri geta góð vetrardekk verið nauðsynleg, því það getur verið bæði hálka og hvassviðri á leiðinni og færð misjöfn. Þeir sem koma á einkabílum eru beðnir um að leggja upp frá sama stað á sama tíma og koma sem einn samhentur hópur, en þannig er best að taka vel á móti hópnum.
Verð
Sama verð er fyrir öll tré óháð gerð, upp að 3 m, en eftir það tekur listaverð við.*
Hópum er frjálst að koma með eigin veitingar og skemmtiatriði (t.d. jólasveina). Sum fyrirtæki hafa þann háttinn á að bjóða starfsmönnum sínum upp á veitingarnar og ferðina en starfsmennirnir greiða síðan sjálfir fyrir trén. Hjá öðrum fyrirtækjum eru trén, ferðin og allt sem henni fylgir jólagjöf til starfsfólks.
Mamma segir
Nauðsynlegt er að koma vel búinn til útivistar og skógargöngu á kaldasta tíma ársins. Ullarnærföt (eða „ullfrotte“) innst klæða og hlýtt millilag, ásamt góðum skjólfatnaði, er nauðsyn. Forðist föt sem eru að miklu leyti úr bómull. Góðir gönguskór og hlýir sokkar (ullarsokkar) eru gulls ígildi. Þá er bara að minna á húfu og vettlinga. Best er líka að taka með sér sög. Ef komið er á rútu getur verið ágætt að hafa með sér merkimiða til að merkja sitt tré.
ATH! GSM samband rofnar við Ingunnarstaði í Brynjudal.
Nánari upplýsingar í síma 551-8150 eða á netfanginu rf (hjá) skog.is
* Lágmarksfjöldi til að teljast hópur miðast við 10 tré. Er ávallt innheimt sem nemur lágmarksfjölda. Ef hópur hættir við heimsókn með minna en viku fyrirvara er einnig innheimt sem nemur lágmarksfjölda. Er það vegna þess að við getum sjaldnast bókað annan hóp með svo stuttum fyrirvara og getur verið um töluverða tekjuskerðingu að ræða, ef hópur tekur frá tíma (og heldur þar með öðrum frá), sem hópurinn notar svo ekki.