Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir kynnisferð skógræktaráhugafólks til Sviss dagana 4. – 11. september 2007. Þátttakendur í ferðinni voru tæplega 90. Ferðin var undirbúin í samstarfi við Thomas Seiz, sem er svissneskur og hefur tekið miklu ástfóstri við Ísland. Hann hefur í um áratug verið stuðningsaðili þriggja skógræktarfélaga á landsbyggðinni og á orðið jörð í Eyjafirði. Fararstjórar voru Brynjólfur Jónsson, Skógræktarfélagi Íslands, og Barbara Stanzeit, Skógræktarfélagi Garðabæjar, en auk þess naut hópurinn leiðsagnar Jóhanns Pálssonar, grasafræðings og garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar til margra ára.
Með ferðinni gafst gott tækifæri til að sjá hið stórbrotna landslag Alpanna. Ferðin hófst reyndar í Þýskalandi, en flogið var til Friedrichshafen og ekið þaðan yfir til Sviss, til Zernez, sem var fyrsti gististaður í ferðinni (sjá leiðarkort). Þegar nær Zernez dró tók snjókoma á móti hópnum, sem er heldur óvanalegt á þessum árstíma, enda vildu heimamenn meina að Íslendingarnir hefðu tekið snjóinn með sér!
Daginn eftir var byrjað á að heimsækja Svissneska þjóðgarðinn, sem er elsti þjóðgarður Mið-Evrópu. Byrjað var á kynningu í upplýsingamiðstöð þjóðgarðsins, en síðan haldið í skógargöngu í léttri snjódrífu og var áhugavert að fá þar með innsýn í hvernig Alpalandslagið er á veturna. Eftir gönguna var haldið til Val Müstair, þar sem grænar og snjólausar grundir tóku á móti ferðalöngunum, en þar var skoðað klaustur heilags Benedikts, sem er á Heimsminjaskrá UNESCO.
Þann 6. september var farið til Diavolezza og tekinn kláfur upp í tæplega 3.000 m y.s. hæð til að njóta útsýnis yfir stórbrotið fjalla – og jöklasvæði. Því næst var haldið til bæjarins Davos og heimsótt þar útibú frá Rannsóknastöð skóga, snjóa og landslags, en stöðin í Davos rannsakar m.a. notkun skóga til snjóflóðavarna.
Daginn eftir var Zernez kvatt og haldið til þorpsins Beatenberg, rétt utan við Interlaken, þar sem gist var næstu tvær nætur. Þar var heimsótt stórt safn, Freilichtmuseum Ballenberg, þar sem er einstakt og lifandi safn aldagamalla húsa, ásamt húsdýrum og sýningu á garðrækt og handverki fyrri tíma. Í safninu er einnig trjásafn og lítið sérsafn tileinkað skógum.
Því næst var stefnan tekin á Zürich, með viðkomu í Grimsel-virkjuninni, sem er í nærri 2.000 m hæð y.s., en þar gafst gott tækifæri til að skoða virkjunarmannvirkin. Í nágrenni Zürich voru höfuðstöðvar Rannsóknastöðvar skóga, snjóa og landslags í Birmensdorf heimsóttar, þar sem hópnum var boðið upp á bæði morgunmat og áhugaverða fyrirlestra. Einnig var heimsótt sögunarmylla Schilliger Holz í Küssnacht og skógar í Forst Winterthur skoðaðir.
Ferðinni lauk svo með flugi heim frá Friedrichshafen þann 11. september.
Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2007 er ferðasagan rakin og má lesa hana hér (pdf).