Heilbrigða skóga fyrir heilbrigt fólk“ er yfirskrift alþjóðlegs dags skóga 2023. Af því tilefni býður Skógræktarfélag Reykjavíkur til fræðslugöngu um Kálfamóa við Keldur í Grafarvogi, þriðjudaginn 21. mars kl. 18. Hópurinn hittist á bílastæðinu við aðalinngang.
Í Kálfamóa er merkileg gróðurvin í borgarlandinu, með vöxtulegum og fjölbreyttum gróðri. Fyrstu trén voru gróðursett 1947, þegar Jóhann Pálsson, sem seinna varð garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, notað orlofsfé sitt til að kaupa þrjár sitkagreniplöntur. Hann var þá aðeins 15 ára en átti eftir að sinna svæðinu vel næstu áratugi. Í gegnum tíðina bætti hann við mjög mörgum tegundum bæði trjáa, runna og annarra plantna svo úr varð ótrúlega fjölskrúðugt svæði. Í Kálfamóa má meðal annars finna hávaxin tré, falleg skrautrunna og berjaplöntur sem gleðja bæði menn og fugla.
Nú er verið að undirbúa íbúabyggð í landi Keldna og er það ánægjuefni að við fyrirhugaða uppbyggingu er lögð áhersla á að nýta og taka mið af náttúrugæðum svæðisins. Mikil auðlind er fólgin í Kálfamóa fyrir íbúa komandi hverfis enda eru jákvæð áhrif grænna svæða á lýðheilsu ótvíræð.
Sameinuðu þjóðirnar útnefna 21. mars sem alþjóðadag skóga. Yfirskriftin er ólík á milli ára en hún tekur að þessu sinni mið af 3. heimsmarkmiðinu sem er „heilsa og vellíðan“.
Gangan er stutt og þægileg og allir velkomnir.
Sjá má nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins: www.heidmork.is