Haldið var upp á 80 ára afmæli Skógræktarfélags Íslands í Stekkjargjá á Þingvöllum, en þar var félagið stofnað á Alþingishátíðinni 27. júní 1930.
Hófst formleg dagskrá með því að séra Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar leiddi gesti frá Furulundinum upp í Stekkjargjá, en þar tók á móti hópnum skógfræðingurinn Alexander Robertson með sekkjapípuleik.
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, bauð fundargesti velkomna. Því næst flutti séra Gunnþór bæn og blessun. Því næst hélt Magnús sitt hátíðarávarp. Næstur upp í pontu var Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, með ávarp. Sigurður Pálsson skáld flutti svo ljóðabálk með sex ljóðum, sem hann samdi sérstaklega af þessu tilefni.
Bæn og blessun séra Gunnþórs Ingasonar (pdf)
Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)
Ávarp Þorsteins Pálssonar (pdf)
Inn á milli ávarpa söng svo Karlakór Hreppamanna, undir stjórn Edit Molár, vel valin lög.
Formlegri dagskrá lauk svo með því að Alexander Robertson leiddi gesti aftur til baka í Furulundinn, þar sem boðið var upp á skógarkaffi.
Tókst hátíðin í alla staði vel, þótt veðrið væri heldur dyntótt á meðan á hátíðinni stóð, allt frá sólskini yfir í nokkra rigningu. Mættu á annað hundrað manns á hátíðina – fundargestir af aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem lauk stuttu fyrr á Selfossi, sendiherrar og fulltrúar frá sendiráðum Kína, Kanada, Bretlands, Noregs og Rússlands, auk annarra góðra gesta.
Skoða má myndir frá afmælishátíðinni á fésbókarsíðu félagsins (hér).
Séra Gunnþór Ingason, prestur á sviði þjóðmenningar, leiðir fundargesti upp í Stekkjargjá (Mynd: RF).
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp (Mynd: RF).