Laugardaginn 20. apríl heldur Fuglavernd upp á 50 ára afmæli félagsins í Nauthóli við Nauthólsvík. Kl. 12:30 verður boðið upp á fuglaskoðun í nágrenninu en kl. 13:30 hefjast aðalfundarstörf. Eftir aðalfund, kl. 14.50, hefst afmælisfagnaður með fjölbreyttum og áhugaverðum erindum sem lýkur með hanastélsboði eða karrastélsboði eins og við kjósum að kalla það.
Á þessum tímamótum mun Fuglavernd fara yfir hálfrar aldar sögu sína en ekki síður horfa til framtíðar. Ýmis erindi verða um hlýnun loftslags og áhrif hennar á jörð og haf, dýralíf. Yngsti fyrirlesarinn er 16 ára fuglaáhugamaður, sem mun sýna ljósmyndir sem hann hefur tekið af fuglum og einnig verður sagt frá verkefninu „Fljúgum hærra“, sem miðar að því að kynna fugla fyrir leikskólabörnum. Í lok dagskrár verður boðið upp á sérblönduðu karrastélin Þröst og Gráþröst undir ljúfum tónum fuglatengdra hljómsveita á borð við Eagles, The Byrds og fleiri.
Fuglavernd eru félagasamtök sjálfboðaliða, sem stofnuð voru 26. janúar 1963 með það að markmiði að stuðla að verndun arnarins, afkomu hans og útbreiðslu og var það aðalstarfið fyrstu þrjá áratugina. Á afmælisárinu eru 1300 meðlimir í félaginu, sem taka þátt í ýmsum viðburðum á vegum þess. Fuglavernd býður upp á mánaðarlega fræðslufundi yfir vetrartímann, garðfuglakannanir, fuglatalningar og fuglaskoðunar. Nánari upplýsingar og dagskrá má finna á heimasíðu Fuglaverndar – www.fuglavernd.is.