Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2024 var haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september og voru Skógræktarfélag Neskaupstaðar, Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Skógræktarfélag Eskifjarðar sameiginlega gestgjafar fundarins.
Fundurinn hófst föstudagsmorguninn 30. ágúst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands og síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Eftir hádegi héldu formenn gestgjafafélaganna kynningu á sínum félögum og að því loknu var haldið í vettvangsferð, þar sem heimsóttur var skógarlundur hjá Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar og fundarfólk fékk einnig kynningu á viðarvinnslu hjá Tandrabergi á Eskifirði.
Laugardaginn 31. ágúst var boðið upp á fræðsluerindi og vettvangsferð síðdegis þar sem haldið var í Hjallaskóg, sem Skógræktarfélag Neskaupstaðar hefur ræktað upp og skoðaður skógarteigur við Kirkjumel. Um kvöldið var komið að hátíðarkvöldverði, þar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra flutti ávarp. Þar voru einnig sex félagar úr hópi gestgjafanna heiðraðir og voru það Kristinn Ólafur Briem, Guðrún Jóhanna Kjartansdóttir og Ásmundur Ásmundsson frá Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar og Auður Bjarnadóttir, Bjarni Aðalsteinsson, Sigurborg Hákonardóttir og Benedikt Sigurjónsson frá Skógræktarfélagi Neskaupstaðar, en þess má til gamans geta að Auður er elsti félagi Skógræktarfélags Neskaupstaðar, 98 ára að aldri.
Á sunnudegi var aftur komið að formsatriðum aðalfundar, afgreiðslu reikninga og stjórnarkjöri. Úr stjórn gengu Þuríður Yngvadóttir, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness og Berglind Ásgeirsdóttir, Skógræktarfélagi Suðurnesja. Ný í stjórn voru kosin Hrefna Hrólfsdóttir, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, Sverrir Bollason, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Pavle Estrajher, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar. Aðrir sem eiga sæti í stjórn eru Jónatan Garðarsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Nanna Sjöfn Pétursdóttir, Skógræktarfélagi Bíldudals og Páll Ingþór Kristinsson, Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga.
Einnig voru samþykktar breytingar á lögum félagsins og skipulagsskrá Landgræðslusjóðs, með hliðsjón af sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í nýja stofnun, Land og skóg.
Sjö tillögur að ályktunum aðalfundar voru einnig samþykktar:
1. Lúpína
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, skorar á Land og skóg að hefja rannsóknir til að styðja við gerð raunhæfra reglna um notkun lúpínunnar og hefja á ný framleiðslu, notkun og sölu á lúpínufræi ásamt tilheyrandi Rizobium smiti.
2. Grindavíkurlundir
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur skógræktarfélög á suðvesturhorni landsins til að koma á fót „Grindavíkurlundum“ á sínu starfssvæði þar sem félagar úr Skógræktarfélagi Grindavíkur og aðrir Grindvíkingar fái svæði til ræktunar.
3. Lausaganga búfjár
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst – 1. september 2024, hvetur ríki og sveitarfélög til þess að fylgja eftir vörsluskyldu búfjár.
4. Styrkir til útivistarskóga
Aðalfundur Skógræktarfélag Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur matvælaráðherra til að hlutast til um að komið verði á sérstöku styrkjarkerfi fyrir uppbyggingu, grisjun og umhirðu útivistar- og lýðheilsuskóga. Með aukinni umhirðu eykst gildi skóganna til útvistar og notkun eykst. Raunverulegur kostnaður við þessa vinnu er margfaldur á við þær fjárhagslegu tekjur sem af skógunum eru og skógræktarfélög hafa ekki bolmagn til að standa undir þeim kostnaði. Ávinningur af þessum skógum er hins vegar alls samfélagsins.
5. Starfshópur skógræktarfélaga
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2024 felur stjórn að hefja án tafar stefnumörkunarvinnu í samvinnu við aðildarfélög þar sem hlutverk og markmið félagsins verða brýnd. Taka verður tillit til breytinga sem eru að verða á þróun skóga og samfélags.
6. Upplýsingaróreiða gagnvart skógrækt
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur vísindamenn með akademískar kennslustöður við innlenda háskóla til þess að vanda orðræðu sína opinberlega og í fjölmiðlum. Gæta verður hlutlægni og forðast bæði tilhæfulausa sleggjudóma og að vísindalegri þekkingu og eigin skoðunum sé blandað saman. Til að minnka upplýsingaóreiðu á útgangspunkturinn alltaf að vera gagnreynd vísindaleg þekking eins og hún birtist í niðurstöðum ritrýndra rannsókna.
7. Rannsóknir á losun vegna jarðvinnslu
Fyrir upplýsta umræðu um áhrif jarðvinnslu á kolefnisbúskap vantar frekari rannsóknir á málefninu hér á landi. Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 31. ágúst.-1. september 2024, hvetur Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið, Landbúnaðarháskóla Íslands og Land og Skóg til að forgangsraða rannsóknum á losun kolefnis vegna jarðvinnslu.
Nýlegar athugasemdir