Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2022

Ályktanir aðalfundar Skógræktarfélags Íslands 2022

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Mosfellsbæ fyrstu helgina í september. Fundi lauk sunnudaginn 4. september, með samþykki tíu ályktana og eru þær sem hér segir:

  1. Græni stígurinn ofan höfuðborgarsvæðisins

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2. – 4.  september 2022, hvetur sveitarfélög, SSH-Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Innviðaráðuneytið til að hrinda í framkvæmd gerð Græna stígsins ofan höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við skógræktarfélög á svæðinu. Græni stígurinn þarf að fara inn í viðræður sem hafnar eru milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033.

  1. Um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, skorar á ráðherra landbúnaðar- og skógræktarmála að ganga varlega fram í úrvinnslu hugmyndar um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Skógræktarfélag Íslands óskar eftir því að félagið fái að leggja mat á álit starfshóps um hugsanlega sameiningu áður en til ákvarðana kemur, í samræmi við ákvæði Árósarsamningsins um þátttöku almennings í ákvarðanatöku stjórnvalda.

  1. Sveitarfélög, skipulagsáætlanir og framkvæmdaleyfi til skógræktar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, skorar á sveitarstjórnir landsins að vinna að skipulagsáætlunum í takt við stefnu stjórnvalda um skógrækt á landsvísu og eru sveitarfélög hvött til að koma sér upp skilvirkum verkferlum og forðast óþarfa tafir og kostnað við afgreiðslu framkvæmdaleyfa vegna skógræktar. 

  1. Skógræktarritið

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, beinir því til stjórnar og starfsmanna Skógræktarfélags Íslands að huga að auknu rafrænu aðgengi Skógræktarritsins.

  1. Um herferð gegn skógrækt

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, fordæmir þá  herferð sem rekin hefur verið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum að undanförnu og beinist gegn skógrækt og íslensku skógræktarfólki. Með herferðinni er reynt að varpa rýrð á það metnaðarfulla og árangursríka starf sem unnið hefur verið að í skóglausasta landi Evrópu og sjöunda skógfátækasta ríki heims, þar sem náttúruskógar vaxa aðeins á 1,5% landsins og ræktaðir skógar á einungis 0,5% af flatarmáli landsins. Skóggræðsla (ræktun nýrra skóga) er árangurríkasta vopnið í baráttunni gegn gróður- og jarðvegseyðingu og jafnframt ein hagkvæmasta aðferðin til þess að draga úr uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands svarar kalli um aðgerðir gegn loftslagbreytingum. Félögin eru boðin og búin til að leggja sitt af mörkum og fagna hverskonar samstarfi við ríki, sveitarfélög, skógarplöntuframleiðendur, fyrirtæki og félagasamtök og alla þá sem vilja efla skógrækt, landgræðslu og kolefnisbindingu í landinu.

Jafnframt hvetur fundurinn til þess að skógargeirinn (skógræktarfélögin, Skógræktin, skógarbændafélögin) leiti leiða til þess að snúa vörn í sókn og efni til ráðstefnu sem allra fyrst um framtíðarskipulag skógræktar á Íslandi.

  1. Hvatningarverðlaun skógræktar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, beinir þeim tilmælum til stjórnar Skógræktarfélags Íslands að á aðalfundum félagsins verði árlega veitt sérstök hvatningaverðlaun til einstaklinga eða hópa sem unnið hafa óeigingjarnt starf í þágu skógræktar á Íslandi. 

  1. Skjólbelti við vegi

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, skorar á Vegagerðina í samvinnu við landeigendur, að planta skjólbeltum þar sem þörf er á meðfram þjóðvegum, þar sem hætta er á snörpum vindkviðum, skafrenningi og snjósöfnun. Við slíkar aðstæður getur skapast mikil slysahætta og umferðartafir, auk mikils kostnaðar við snjómokstur. Mikilvægt er að vanda vel til tegundavals og gera langtíma áætlun um ræktun skjólbelta meðfram þjóðvegum og öðrum fjölförnum vegum og setja slíkt verkefni í gang nú þegar.

  1. Um varnir gegn birkikembu og birkiþélu

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2.-4. september 2022, skorar á Skógræktina, í samvinnu við Matvælastofnun og Umhverfisstofnun, að gera gangskör að því að bregðast við innfluttum evrópskum skaðvöldum, skordýrunum birkikembu og birkiþélu sem nú valda stórfelldum skaða á íslensku birki. Þetta verði gert með lífrænum vörnum, þ.e. með innflutningi vesputegunda sem í Evrópu gera það að verkum að þessi skordýr valda hvergi þeim skaða sem blasir við hérlendis. Rétt er að endurskoða gróðursetningu á birki í landinu þar til þessu takmarki er náð.

  1. Gróðrarstöðvar

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ 2. – 4. september 2022, hvetur starfandi gróðrarstöðvar og þá aðila sem vinna að stofnsetningu nýrra gróðrarstöðva til að auka framleiðslu á skógarplöntum í landinu svo nægilegt framboð á plöntum til skógræktar verði tryggt á komandi árum.

  1. Landsáætlun í skógrækt

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Mosfellsbæ dagana 2. – 4.  september 2022, hvetur Matvælaráðuneytið til að endurskoða sameinaða tillögu að landsáætlun í landgræðslu og skógrækt.
Samkvæmt skógræktarlögum (skv. 4. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019) skal landsáætlun í skógrækt vera í gildi.

Tré ársins 2022: Hæsta tréð frá því fyrir ísöld

Með Fréttir

Tré ársins 2022 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn mánudaginn 12. september og er það sitkagreni (Picea sitchensis) á Kirkjubæjarklaustri. Er Tré ársins fyrsta tré frá því fyrir síðustu ísöld til að ná 30 m hæð, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sló máli á tréð með aðstoð Björns Traustasonar frá Skógræktinni og reyndist það vera 30,15 m á hæð.

Í ávarpi sínu við athöfnina kom Katrín Jakobsdóttir inn á mikilvægi skóga og skógræktar og nefndi sérstaklega nýja landsáætlun um landgræðslu og skógrækt og mikilvægi hennar fyrir loftslagsmarkmið Íslands. Að auki skipaði skógurinn sem tréð stendur í sérstakan sess í huga hennar, en hún sýndi á sínum tíma tilvonandi manni sínum skóginn sem einn af sínum uppáhaldsstöðum.

Fjöldi fólks mætti á athöfnina – heimafólk og fulltrúar eigenda skógarins, Skógræktarinnar og Skógræktarfélags Íslands. Auk forsætisráðherra fluttu ávarp Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Hafberg Þórisson í Lambhaga, sem er bakhjarl viðburðarins. Einnig afhenti Hafberg viðurkenningaskjöl og tók Fanney Ólöf Lárusdóttir við því fyrir hönd landeiganda og Þröstur Eysteinsson fyrir hönd Skógræktarinnar, en Skógræktin hefur farið með umsjón skógarins.

Fanney Ólöf Lárusdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Þröstur Eysteinsson glaðbeitt við Tré ársins 2022.

Í tilefni útnefningar Trés ársins fékk Skógræktarfélag Íslands einnig senda skemmtilega ferskeytlu frá Philip Vogler:

Heim við bjóðum góðu geni,
getur vaxið hátt.
Við Systrafoss nú sitkagreni
sannar vaxtarmátt.

Tré ársins 2022

Með Fréttir

Tré ársins verður formlega útnefnt mánudaginn 12. september kl. 16. Að þessu sinni er um að ræða sitkagrenitré á Kirkjubæjarklaustri.  Athöfnin fer fram vestan við Systrafoss.

Dagskrá:

  • Tónlist. Hjónin Zbigniew Zuchowicz, skólastjóri Tónlistarskóla Skaftárhrepps og Teresa Zuchowicz
  • Ávarp: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
  • Mæling á Tré ársins
  • Ávarp: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
  • Afhending viðurkenningarskjala
  • Ávarp: Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri

Veitingar í boði Skógræktarfélags Íslands.

Tónlist leikin af fingrum fram.

Allir velkomnir!

 

Styrktaraðili Tré ársins er Lambhagi ehf.