87. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Mosfellsbæ dagana 2. – 4. september 2022. Skógræktarfélag Mosfellsbæjar var gestgjafi fundarins.
Vel var mætt á fundinn, enda ekki gefist færi á að halda fundinn með hefðbundnu sniði árin 2020 og 2021 vegna samkomutakmarkana tengdum kórónaveirunni. Fundurinn hófst að venju á föstudagsmorgni með ávörpum. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn og því næst tók Björn Traustason, formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar til máls. Næstur upp í pontu var Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.
Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands, skýrslu Landgræðslusjóðs, tillagna að ályktunum og skipan í nefndir. Að því loknu var komið að fræðsluerindum. Tómas Guðberg Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar, fjallaði um Mosfellsbæ, Björn Traustason fór yfir helstu þætti í sögu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og kynnti vettvangsverð dagsins og Bjarki Bjarnason hélt erindi um mannlíf og náttúru á Mosfellsheiði.
Að hádegisverði loknum var haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að fara í Hamrahlíðarskóg við Úlfarsfell og gengið um skóginn þar. Því næst var haldið inn á Skarhólabraut þar sem eru landnemareitir félaga og endað á Meltúnsreit, þar sem boðið var upp á varðeld, veitingar, tónlist og söng.
Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum, en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, sagði í máli og myndum frá Þórsmörk, Samson B. Harðarson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, flutti erindi um fagurtré í skógum, Benedikt Erlingsson leikari flutti hugvekju þar sem fléttað var saman fornum sögnum og loftslagsvá samtímans, Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, fjallaði um nýja skaðvalda á birki – birkikembu og birkiþélu – og Dóra Hjálmarsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís, fór yfir helstu þætti í hættu sem stafar af gróðureldum og leiðum til úrbóta. Að lokum kynnti Björn Traustason ferð dagsins.
Að loknum hádegisverði var haldið í vettvangsferð á Þingvelli. Byrjað var í Vinaskógi þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti gróðursetti, ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta og heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands, tvö tré – birki og reyni. Frá Vinaskógi var haldið til Furulundar, þar sem minnst var stofnunar Skógræktarfélags Íslands á Þingvöllum árið 1930. Einar Sæmundsen þjóðgarðsvörður ávarpaði einnig fundargesti. Að því loknu var haldið til baka til Mosfellsbæjar.
Dagskrá laugardagsins lauk svo með hátíðarkvöldverði í Hlégarði og hátíðardagskrá í boði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Kristín Davíðsdóttir hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar var heiðruð fyrir störf sín í þágu skógræktar og Magnús Jóhannesson var gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Auk þess var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir.
Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.
Fundargögn
Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2021-2022 og ársreikningur (.pdf)
Skýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)
Reikningar:
Nýlegar athugasemdir