Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

apríl 2022

Aðalfundur 2022

Með Aðalfundir

87. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Mosfellsbæ dagana 2. – 4. september 2022. Skógræktarfélag Mosfellsbæjar var gestgjafi fundarins.

Vel var mætt á fundinn, enda ekki gefist færi á að halda fundinn með hefðbundnu sniði árin 2020 og 2021 vegna samkomutakmarkana tengdum kórónaveirunni. Fundurinn hófst að venju á föstudagsmorgni með ávörpum. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn og því næst tók Björn Traustason, formaður Skógræktarfélags Mosfellsbæjar til máls. Næstur upp í pontu var Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands, skýrslu Landgræðslusjóðs, tillagna að ályktunum og skipan í nefndir. Að því loknu var komið að fræðsluerindum. Tómas Guðberg Gíslason, umhverfisstjóri Mosfellsbæjar, fjallaði um Mosfellsbæ, Björn Traustason fór yfir helstu þætti í sögu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og kynnti vettvangsverð dagsins og Bjarki Bjarnason hélt erindi um mannlíf og náttúru á Mosfellsheiði.

Að hádegisverði loknum var haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að fara í Hamrahlíðarskóg við Úlfarsfell og gengið um skóginn þar. Því næst var haldið inn á Skarhólabraut þar sem eru landnemareitir félaga og endað á Meltúnsreit, þar sem boðið var upp á varðeld, veitingar, tónlist og söng.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum, en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógræktinni, sagði í máli og myndum frá Þórsmörk,  Samson B. Harðarson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, flutti erindi um fagurtré í skógum, Benedikt Erlingsson leikari flutti hugvekju þar sem fléttað var saman fornum sögnum og loftslagsvá samtímans, Brynja Hrafnkelsdóttir, sérfræðingur á Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá, fjallaði um nýja skaðvalda á birki – birkikembu og birkiþélu – og Dóra Hjálmarsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís, fór yfir helstu þætti í hættu sem stafar af gróðureldum og leiðum til úrbóta. Að lokum kynnti Björn Traustason ferð dagsins.

Að loknum hádegisverði var haldið í vettvangsferð á Þingvelli. Byrjað var í Vinaskógi þar sem Guðni Th. Jóhannesson forseti gróðursetti, ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta og heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands, tvö tré – birki og reyni. Frá Vinaskógi var haldið til Furulundar, þar sem minnst var stofnunar Skógræktarfélags Íslands á Þingvöllum árið 1930. Einar Sæmundsen þjóðgarðsvörður ávarpaði einnig fundargesti. Að því loknu var haldið til baka til Mosfellsbæjar.

Dagskrá laugardagsins lauk svo með hátíðarkvöldverði í Hlégarði og hátíðardagskrá í boði Skógræktarfélags Mosfellsbæjar. Kristín Davíðsdóttir hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar var heiðruð fyrir störf sín í þágu skógræktar og Magnús Jóhannesson var gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Auk þess var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Björn Traustason, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar.

 

Fundargögn

Dagskrá (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2021-2022 og ársreikningur (.pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Reikningar:

Kolviður (.pdf)

Landgræðslusjóður (.pdf)

Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Úlfljótsvatn (.pdf)

Yrkja (.pdf)

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2022

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar 2022 verður haldinn í fimmtudaginn 28. apríl næstkomandi í Apótekinu, Hafnarborg, Strandgötu 34 kl. 20.00. Gengið inn frá Strandgötu.

Kl. 20.00 – 20.45

  • Venjuleg aðalfundarstörf

Kaffihlé

Kl. 21. 05 – 21.40

  • Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi ehf. flytur erindi sem hann nefnir: „Útivist í upplandi Hafnarfjarðar“.

 

Sjá nánar á heimasíðu félagsins: skoghf.is og fésbókarsíðu.

Úthlutun úr Landgræðslusjóði 2022

Með Fréttir

Landgræðslusjóður hefur nú úthlutað styrkjum fyrir árið 2022. Alls var úthlutað rúmlega 14 milljónum króna. Eftirfarandi verkefni fengu styrki:

Umsækjandi Heiti og staðsetning verkefnis  Upphæð (kr.) 
Sk. og landvernd undir Jökli Lagfæring á göngu-ökustíg í Þrándastöðum                        500.000
Skógræktarfélag A-Húnvetninga Gunnfríðarstaðir                     1.000.000
Skógræktarfélag Árnesinga Grisjun baldskóga á Snæfoksstöðum                     1.000.000
Skógræktarfélag Djúpavogs Hálsaskógur á Djúpavogi                        500.000
Skógræktarfélag Eyfirðinga Leynishólar í Eyjafjarðarsveit                        750.000
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar Skógrækt í Hamranesi, Hfj                     1.000.000
Skógræktarfélag Húsavíkur Nágrenni Húsavíkur                        500.000
Skógræktarfélag Ísafjarðar Grisjun í Eyrarhlíð og Síðuskógi                     1.000.000
Skógræktarfélag Íslands Líf í lundi/um allt land                        500.000
Skógræktarfélag Mosfellsbæjar Skammidalur, Norður Reykjum                     1.000.000
Skógræktarfélag Ólafsfjarðar Hornbrekka, ofan við byggðina á Ólafsfirði                        500.000
Skógræktarfélag Rangæinga Bolholtsskógur                        500.000
Skógræktarfélag Reykjavíkur Esjuhlíðar, Kollafjörður                        800.000
Skógræktarfélag Sandvíkurhrepps Byggðarhornsskógur og Nautaskógur                        500.000
Skógræktarfélag Siglufjarðar Skarðsdalsskógur                          1.000.000
Skógræktarfélag Strandasýslu Borgir í Hólmavík, landgr.skógasvæði                        500.000
Skógræktarfélag Stykkishólms Grensá svæði skógræktarfélagsins við Stykkishólm                        800.000
Skógræktarfélag Suðurnesja Sólbrekkuskógur                        500.000
Skógræktarfélag S-Þingeyinga Hálsmelar í Fnjóskadal                        300.000
Skógræktarfélagið Ungviður Ingunnarstaðir í Brynjudal                        600.000
Skógræktarfélag V-Húnvetninga Kirkjuhvammur og Saurar í Miðfirði                        400.000
Samtals:                   14.150.000

 

Nýr afsláttaraðili

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands er nú orðið hluti af Flügger Andelen, en með því geta meðlimir skógræktarfélaga fengið 20% staðgreiðsluafslátt af öllum vörum Flügger og styrkt Skógræktarfélag Íslands í leiðinni.

Félagasamtökin og meðlimir þess kaupa í gegnum staðgreiðslureikning félagasamtakanna og fá að minnsta kosti 20% afslátt af hilluverði í næstu verslun Flügger. Afsláttur gildir af öllum Flügger vörum. Taka þarf fram við kaup hvaða félagasamtök á að styrkja.

Flügger greiðir félagasamtökunum árlega styrktargreiðslu sem er að minnsta kosti 5% af veltu staðgreiðslureikningsins yfir almanaksárið og mun greiðslan nýtast til að sinna aðildarfélögunum.