Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn laugardaginn 5. september síðast liðinn, í fundarsal í Arionbanka í Borgartúni í Reykjavík. Aðalfundur félagsins nær vanalega yfir þrjá daga, með fræðslufyrirlestrum og vettvangsferðum og skiptast aðildarfélög Skógræktarfélags Íslands á að vera gestgjafar fundarins. Í ljósi aðstæðna í ár var ákveðið að fundurinn yrði með öðrum hætti. Voru eingöngu kjörnir fulltrúar skógræktarfélaga boðaðir á fundinn, til að afgreiða skylduverkefni aðalfundar, svo sem kosningu stjórnar og afgreiðslu ársreiknings. Hluti fulltrúa sat svo fundinn í fjarfundi.
Jónatan Garðarsson var endurkjörinn formaður Skógræktarfélags Íslands. Tveir nýir stjórnarmenn voru kosnir inn, þær Nanna Sjöfn Pétursdóttir frá Skógræktarfélagi Bíldudals og Berglind Ásgeirsdóttir frá Skógræktarfélagi Suðurnesja. Varastjórn var endurkjörin, en í henni sitja Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Björn Traustason. Ein tillaga að ályktun, um notkun lífrænna varna í skógrækt, var einnig samþykkt.
Jónatan Garðarsson formaður ávarpar fundargesti.
Úr stjórn gengu Sigrún Stefánsdóttir (t.v.) og Laufey B. Hannesdóttir og voru þær formlega kvaddar og þakkað fyrir þeirra störf með blómvendi.
Nýlegar athugasemdir