Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

desember 2019

Samningur um Rótarskot undirritaður

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands og Slysavarnarfélagið Landsbjörg undirrituðu í dag samning til 2023 um Rótarskot, en það er óhefðbundið „umhverfisskot“ til að fagna nýju ári. Boðið var upp á Rótarskot í fyrsta sinn í fyrra, en það er leið til að styrkja við hið öfluga og mikilvæga sjálfboðastarf björgunarsveitanna, fyrir þau sem vilja draga úr magni flugelda sem keyptir eru eða vilja ekki kaupa flugelda. Hvert Rótarskot gefur af sér tré, sem plantað er með stuðningi Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaganna.

Allur ágóðinn af sölu Rótarskotanna rennur til björgunarsveitanna og eru sölustaðir hjá björgunarsveitum um allt land.

Frá undirritun samningsins. Frá vinstri Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, Hildur Bjarnadóttir, verkefnastjóri Landsbjargar, og Jónatan Garðarsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands.

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt

Með Fréttir

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða sjö milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 20. janúar 2020.

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðslan, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar. Sjá síðu sjóðsins á heimasíðu Landgræðslunnar: https://www.land.is/minningarsjodur/

Usóknir sendist til:
Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson
bt. Guðbrands Brynjúlfssonar
Brúarlandi
311 Borgarnes

Reglur um umsóknir og úthlutun styrkja úr sjóðnum

Umsóknareyðublað vegna 2020

Íslensk jólatré – græn og væn!

Með Fréttir

Það er föst jólahefð hjá mörgum fjölskyldum að sækja sér jólatré í skóginn á aðventunni og er hægt að sækja sér tré í flestum landshlutum, hjá skógræktarfélögum, Skógræktinni og skógarbændum. Fyrir þá sem hafa minni áhuga á skógargöngunni eru svo ýmsir aðilar sem selja íslensk tré.

Íslensk jólatré eru ilmandi fersk, vistvæn í ræktun og með því að kaupa íslenskt jólatré styður þú við skógræktarstarf í landinu, því fyrir hvert selt jólatré er hægt að gróðursetja tugi trjáa. Það þarf því ekki að hafa samviskubit yfir því að fella tréð!

Skógræktarfélög víða um land eru með jólatré til sölu nú í ár – nánari upplýsingar um það má finna á jólatrjáavefnum hér á síðunni.

Upplýsingar um sölu hjá Skógræktinni og skógarbændum má svo finna á heimasíðu Skógræktarinnar.