Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2019

Líf í lundi – June 22 2019

Með News

Líf í lundi (Life in the grove) is the heading for an outdoor recreation- and family day on June 22 in forests all over the country. This will be the second year this day is celebrated and its goal is to get the general public outside and enjoying the forests and all they have to offer.

The day is a collaboration of the key players in Icelandic forestry – forestry associations, the Iceland Forest Service and forest owners – in collaboration with other organisations.

More information on events on the day will be on the Skógargátt website (www.skogargatt.is) and the Líf í lundi Facebook-page  – https://www.facebook.com/lifilundi/

Líf í lundi 22. júní 2019

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins, sem skógaraðilar á Íslandi standa sameiginlega að og verður hann haldinn í annað sinn í ár. Markmið hans er að fá almenning til að heimsækja skóga landsins og stunda hreyfingu, njóta samveru og upplifa skóga og náttúru landsins.

Boðið verður upp á fjölmarga viðburði í skógum landsins um land allt á laugardeginum 22. júní. Að deginum standa Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess, Skógræktin og Landssamtök skógareigenda, í samvinnu við aðrar stofnanir og félagasamtök, auk þess sem Arion banki styður almennt við verkefnið.

Nánari upplýsingar um viðburði verður hægt að finna á Skógargátt-vefsíðunni (www.skogargatt.is) og á Facebook-síðu Líf í lundi – https://www.facebook.com/lifilundi/, auk þess sem einstakir viðburðahaldarar verða með kynningu á sínum miðlum.

Fylgist með og takið þátt!

 

Gróðursetning Rótarskota

Með Fréttir

Á fimmudaginn 13. júní kl. 18-21 munu félagar úr Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu og frá Skógræktarfélagi Íslands koma saman og gróðursetja 15.000 Rótarskots birkitré í Áramótaskóg Slysavarnarfélagsins á Hafnarsandi.

Fyrir síðustu áramót buðu björgunarsveitirnar upp á sölu Rótarskots – gróðursetningu eins trés – fyrir þá sem ekki vildu kaupa flugelda, en sú hugmynd kom upprunalega frá Rakel Kristinsdóttur. Nánast allir pakkar sem í boði voru seldust upp og verða plönturnar nú settar niður. Svæðið sem gróðursett verður í er á Hafnarsandi, nærri gatnamótum Þorlákshafnarvegar og Eyrarbakkavegar, en á næstu árum verður ráðist í mikla gróðursetningu á sandinum og er Áramótaskógurinn eitt þeirra verkefna sem hefur fengið úthlutað spildu.

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs 2019

Með Fréttir

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs boðar til aðalfundar föstudaginn 14. júní 2019. Fundurinn hefst kl. 17.00 og verður í Leiðarenda í Guðmundarlundi, Kópavogi.

Sú nýbreytni verður að fundurinn verður haldinn undir himni samkomutjalds, umvafinn skógi og fallegri náttúru.  Félagar í Skógræktarfélaginu eru hvattir til að mæta, klæða sig eftir veðri og njóta aðalfundar félagsins á sumarkvöldi í Guðmundarlundi.

Dagskrá

  1. Fundarsetning
  2. Kosning fundarstjóra
  3. Kosning fundarritara
  4. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári
  5. Skýrslur nefnda
  6. Lagðir fram endurskoðaðir reikningar félagsins
  7. Tillaga að félagsgjaldi
  8. Lagabreytingar
  9. Kosningar skv. félagslögum
  10. Tillögur um framtíðarverkefni félagsins
  11. Önnur mál

 

Ráðherra og nemendur gróðursetja tré í tilefni eflingu Yrkjusjóðs

Með Fréttir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gróðursetti trjáplöntur í Þorláksskógum á Suðurlandi síðasta dag maí með hópi grunnskólabarna sem taka þátt í fræðslu- og gróðursetningarverkefni á vegum Yrkjusjóðs.

Tilefni gróðursetningarinnar var að Yrkjusjóður, Skógræktin og Landgræðslan hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um aukna gróðursetningu grunnskólabarna og fræðslu fyrir þau um samspil kolefnisbindingar, landnotkunar og loftslagsmála. Verkefnið er liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur undir áherslur er lúta að kolefnisbindingu og aukinni fræðslu.

Gróðursetjarar dagsins (Mynd: RF).

„Yrkjusjóður hefur gert börnum um allt land kleift að taka þátt í að binda kolefni úr andrúmslofti. Með því að efla verkefnið geta enn fleiri börn tekið þátt í að takast á við eina stærstu áskorun þessarar aldar, loftslagsvána. Verkefnið felur jafnframt í sér endurheimt birkiskóga og lífríkis landsins sem stjórnvöld leggja nú stóraukna áherslu á,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins (Yrkjusjóður) var stofnaður í tengslum við afmæli frú Vigdísar Finnbogadóttur og var fyrsta úthlutun úr sjóðnum árið 1992. Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun grunnskólabarna á Íslandi og kynna þannig mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu. Yrkja á í formlegu samstarfi við alla grunnskóla í landinu og frá stofnun sjóðsins hafa grunnskólabörn gróðursett rúmlega 800 þúsund trjáplöntur á hans vegum. Ætla má að verkefnið hafi bundið um 20.000 tonn af CO2 sem sýnir hversu mikil áhrif skólaverkefni getur haft.

„Skólabörn um allan heim hafa gert kröfu um meiri fræðslu um loftslagsbreytingar auk þess sem þau vilja taka þátt í að leysa vandann. Yrkjusjóður vill í því ljósi efla hlutverk sitt, ná til allra grunnskóla á landinu og auka fræðslu um endurheimt landgæða, skógrækt og kolefnisbindingu í gróðri,“ segir Andri Snær Magnason, stjórnarformaður Yrkjusjóðs.

Börnin sem tóku þátt í gróðursetningunni koma úr Grunnskólanum í Þorlákshöfn en Þorláksskógar eru á Hafnarsandi þar skammt undan.

„Við komum hingað fyrir jörðina okkar af því að við erum að reyna að hugsa vel um hana. Mengunin er alltaf að verða meiri og meiri og það er gott fyrir jörðina að planta trjám,“ segja Elísabet Marta Jónasdóttir og Alexander Guðmundsson, nemendur í Grunnskólanum í Þorlákshöfn.

Elísabet Marta Jónsdóttir og Alexander Guðmundsson gróðursetja með Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra (Mynd: RF).