Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2018

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar þriðjudaginn 30. janúar, kl. 20:00. Á fundinum mun Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá, fjalla um „markað fyrir iðnvið hér á landi, arðsemi skógræktar og hvað þurfi til að fjárfestar leggi í stórfellda skóggræðslu.“ Fundurinn verður haldinn í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a, Kópavogi (sjá kort).

Kaffi og meðlæti í boði félagsins.

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

kort-kiwanis

Námskeið: Grænni skógar

Með Fræðsla

Grænni skógar I er skógræktarnám ætlað fróðleiksfúsum skógarbændum og áhugasömum skógræktendum sem vilja auka þekkingu sína og ná betri árangri í skógrækt.

Grænni skógar I er alls 16 námskeið (2-3 námskeið á önn). Námskeiðaröðin stendur yfir í þrjú ár (6 annir). Námið er metið til eininga á framhaldsskólastigi og lýkur námskeiðaröðinni með sérstakri viðurkenningu frá Landbúnaðarháskólanum. Slík einingagjöf er háð því að nemendur hafi sótt 80% skyldunámskeiðanna og staðist námsmat.

Hvert námskeið tekur tvo daga og er kennt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 09:00 til 16:00 á laugardegi. Námskeiðin byggjast upp á fræðsluerindum sem sérfræðingar á hverju sviði flytja. Reynt verður að fara í vettvangsferð í lok hvers námskeiðs og fá þannig meiri og betri tilfinningu fyrir því sem verið er að fjalla um hverju sinni. Einnig er verkleg kennsla á nokkrum námskeiðanna. Landbúnaðarháskóli Íslands sér um framkvæmd námsins en þeir aðilar sem koma að náminu auk skólans eru: Félög skógarbænda í viðkomandi landsfjórðungi, Skógræktin og Landgræðsla ríkisins.

Á námskeiðunum er fjallað um mörg af grunnatriðum skógræktar, m.a. val á trjátegundum, skógarhönnun og landnýtingaráætlanir, undirbúning lands fyrir skógrækt, framleiðslu og gróðursetningu skógarplantna, skógarumhirðu, skógarnytjar, sjúkdóma og skaða í skógi, skjólbelti, skógarhöggstækni og verndun fornminja og náttúru í skógrækt svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur vikuferð til útlanda verið hluti af náminu þar sem þátttakendur kynnast því helsta sem nágrannaþjóðir okkar eru að gera í skógrækt.

Námskeiðaröð Grænni skóga I á Suður- og Vesturlandi hefst 28. apríl kl. 15:30. Kennt verður til skiptis í starfstöðvum Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi (Garðyrkjuskólanum) og á Hvanneyri. Farið í vettvangsferðir i skóglendi í nágrenninu.

Nánari upplýsingar hjá verkefnisstjóra Grænni skóga, Björgvini Eggertssyni á netfangið bjorgvin@lbhi.is eða í síma 843-5305.

Þátttökugjald er 49.000 kr. á önn (tvær annir á ári og samtals 6 annir). Innifalið er kennsla, kaffi, hádegismatur og námsgögn á rafrænu formi.

Hægt er að sækja um styrki fyrir námskeiðum hjá starfsmenntasjóðum.

Skráning er á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands www.lbhi.is.

Skráningarfrestur er til 15. apríl.

Hámarksfjöldi þátttakenda er 30.

Eina leiðin til að tryggja sér öruggt pláss er að skrá sig sem fyrst.

Bæklingadreifing og Skógræktarfélag Íslands taka höndum saman

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Bæklingadreifing hefur samið við Skógræktarfélag Íslands (SÍ) um gróðursetningu trjáa sem svara því pappírsmagni bæklinga sem Bæklingadreifing dreifir á ári. Munu 1.000 tré verða gróðursett árið 2018, en áætlað er að Bæklingadreifing dreifi um 200 þúsund bæklingum á árinu.

„Við hlökkum mikið til samstarfsins við SÍ ,“ segir Jón Rúnar Jónsson, sölu- og rekstrarstjóri Bæklingadreifingar, en fyrirtækið annast dreifingu kynningarefnis fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og sveitarfélög til ferðamanna.

„Almennt séð er ferðaþjónustufyrirtækjum á Íslandi mjög umhugað um umhverfið og mætti segja að við séum að verða við kröfum þeirra um sjálfbærni og umhverfisvernd, sem við tökum að sjálfsögðu fagnandi,“ segir Jón.

SÍ fagnar samstarfinu og áhuga starfsmanna og eigenda Bæklingadreifingar. Um leið ber félagið þá von í brjósti að fyrirtæki í ferðaþjónustu ásamt sveitarfélögum fylgi í fótsporið og hugi með markvissum hætti að því að draga úr vistsporum sínum og marki ábyrga framtíðarsýn með sýnilegum hætti. Skógrækt og ræktun trjágróðurs er ein áhrifaríkasta leiðin til að sporna við loftslagsvandanum um leið og hún stuðlar að sjálfbærri þróun.

Skógræktarfélag Íslands mun gróðursetja andvirði framlags Bæklingadreifingar á eignajörð félagsins á Úlfljótsvatni í Grafningi þar sem mörkuð hefur verið ákveðin spilda til verkefnisins. 

undirritunvinco

Jón Rúnar Jónsson, sölu- og rekstrarstjóri Bæklingadreifingar og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undirrita samstarfssamning (Mynd: RF).



Andri Snær Magnason nýr formaður Yrkjusjóðs

Með Ýmislegt

Andri Snær Magnason rithöfundur er nýr formaður Yrkjusjóðs, samkvæmt tilnefningu Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Tekur hann við af Sigurði Pálssyni skáldi, sem lést á síðasta ári.

Yrkjusjóður heitir fullu nafni Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins. Forsaga sjóðsins er sú, að árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem Vigdís stofnaði árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Árlega hafa um 100 grunnskólar sótt um og fengið úthlutað trjáplöntum.

Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, var fyrsti formaður sjóðsins, en hann lét af störfum að eigin ósk árið 2003 og tók Sigurður Pálsson þá við sem formaður og gegndi því starfi til dauðadags.