Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2016

Ljósið í myrkrinu!

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Borgarfjarðar boðar til ljósagöngu um skógarstíga í Reykholti á laugardaginn 29. október kl. 18:00. Gangan hefst við Höskuldargerði. Þátttakendur mættu gjarnan hafa með sér luktir, kerti eða annað ljós til að glöggva sig á aðstæðum og lýsa upp forvitnilega grósku á leiðinni. Auk þess munu heimamenn, sr. Geir Waage og Óskar Guðmundsson í Véum, gera tilraun til að bregða birtu yfir óljós atriði í myrkviðum skógarins. Fyrir sumum mun þetta kannski verða eina ljósglætan þennan dag – kjördag 😉

Að lyktum verður kveiktur varðeldur og boðið upp á ljúffenga skógarsnúða og ketilkaffi. Miðað er við að fólk komist heim fyrir kosningavöku í sjónvarpinu.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar

skborg ljosa

Jólaskógurinn í Brynjudal – opið fyrir bókanir

Með Ýmislegt

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum fjölskyldum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 3.-4., 10.-11. og 17.-18. desember, auk  sunnudagsins 27. nóvember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær. Nú þegar eru dagar að verða fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551-8150 eða á netfangið rf (hjá) skog.is.

brynjud2016

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Kvöldganga í skógi

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 4. október kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Við upphaf göngunnar mun Anna Borg, formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, flytja stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665 8910.

skhafn-ljosa


Grasagarður Reykjavíkur: Reyniviður að hausti

Með Ýmislegt

Í Grasagarði Reykjavíkur er mikið reynisafn sem skartar sínu fegursta á haustin með fögrum litbrigðum laufanna og reyniberjum sem spanna allt frá hvítu yfir í bleikt og eldrautt.

Reynitrén í Grasagarðinum telja nokkra tugi tegunda og koma meðal annars frá Íslandi og Grænlandi, Nýfundnalandi, Pakistan og Japan svo fátt eitt sé talið.

Laugardaginn 1. október kl. 14 mun Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasagarðsins, leiða fræðslugöngu um reynisafn garðsins. Gangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins við Laugatungu.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

Frænámskeið (tínsla, meðhöndlun og sáning)

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir námskeiði um söfnun, meðhöndlun og sáningu trjáfræs. Kennari á námskeiðinu er Aðalsteinn Sigurgeirsson.

Dagsetning: 1. október kl. 10:00-15:00 hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur á Elliðavatni.

Verð: kr. 5.000 – kaffi, bakkelsi og súpa er innifalið.

Dagskrá:

Kl. 10:00 Kynning
Kl. 10:15 Frætínsla – aðferð, tegundir, meðhöndlun, geymsla og sáning (fræ og könglar). Erindi: Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, Mógilsá
Kl. 11:30 Kaffi og spjall. Frætínsla – farið út og tíndir könglar og fræ 
Kl. 12:45 Súpa dagsins
Kl. 13:00 Hvað er gert með fræin? Farið verður yfir fræmeðhöndlun frá A til Ö
Kl. 14:30 Umræður og lokaorð.

 Skráning fyrir 26. september. Upplýsingar og skráning: Else, else.akur@gmail.com eða Sævar saevar@heidmork.is