Skógræktarfélag Íslands hélt 81. aðalfund sinn á Djúpavogi dagana 2.-4. september 2016. Skógræktarfélag Djúpavogs var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar skógræktarfélaga víðs vegar af landinu sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.
Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, Önnu Sigrúnar Gunnlaugsdóttur, formanns Skógræktarfélags Djúpavogs, Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og Þorbjargar Sandholt, formanns ferða- og menningarmálanefndar Djúpavogs.
Ávarp – Magnús Gunnarsson (.pdf)
Ávarp – Sigrún Magnúsdóttir (.pdf)
Ávarp – Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir (.pdf)
Ávarp – Þröstur Eysteinsson (.pdf)
Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrslur stjórna Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Síðasta vers fyrir hádegi var stutt samantekt Jóns Ásgeirs Jónssonar á efni ályktana aðalfunda síðustu tuttugu ára.
Samantekt – Jón Ásgeir Jónsson (.pdf)
Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Farið var að Teigarhorni, þar Sævar Þór Halldórsson landvörður leiddi fundargesti í göngu um staðinn og Andrés Skúlason hélt fræðsluerindi um uppbyggingu á svæðinu og framtíðaráform þar að lútandi. Vettvangsferðin endaði svo með hressingu – dýrindis sjávarréttasúpu og meðlæti.
Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum. Að þeim loknum flutti Árni Bragason landgræðslustjóri stutt erindi, en eftir það tóku við fræðslufyrirlestrar. Þuríður Elsa Harðardóttir, minjavörður Austurlands, fjallaði um fundi á fornminjum, Erla Dóra Vogler, ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogs, sagði frá Cittaslow verkefninu í Djúpavogshreppi, Jón Ásgeir Jónsson, frá Skógræktarfélagi Íslands og Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu – og verkefnastjóri Garðyrkjufélagsins, fjölluðu um útivistarskóga og hvað prýðir þá, Gústaf Jarl Viðarsson, frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, fjallaði um það helsta sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur verið að sýsla við og Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur hélt svo erindi um gróðurvernd, aðfluttar tegundir og skipulega landnýtingu.
Erindi – Erla Dóra Vogler (.pdf)
Erindi – Hjörleifur Guttormsson (.pdf)
Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Hálsaskóg. Byrjað var á að skoða garð hjónanna Ragnhildar Garðarsdóttur og Sigurðar Guðjónssonar að Aski, en hann stendur í útjaðri Hálsaskógur. Fundargestir gátu svo skoðað sig um í skóginum, en á þremur stöðum var einnig boðið upp á fræðslu um Tyrkjaránið, sögu bæjarins Búlandsness og jarðfræði svæðisins, með tilvísun í staði innan skógarins. Gönguferðir fundargesta enduðu svo í Aðalheiðarlundi þar sem boðið var upp á veitingar. Dagskránni í skóginum lauk svo með saxófónleik á leiksviðinu í skóginum.
Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Hrannar Jónsdóttur. Á kvöldvökunni voru hjónin í Aski – Ragnhildur Garðarsdóttir og Sigurður Guðjónsson – heiðruð fyrir störf sín í þágu skógræktar. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir og voru mættir fulltrúar frá þremur þeirra – Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, sem fagnar 70 ára afmæli, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, sem einnig fagnar 70 ára afmæli og Skógræktarfélagi Eyrarsveitar, sem fagnar 30 ára afmæli. Voru þeim færð planta af kóreulífvið að gjöf. Kvöldvakan endaði svo á balli fram eftir nóttu.
Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Laufey B. Hannesdóttir og Sigríður Heiðmundsdóttir.
Samþykktar ályktanir aðalfundar 2016 (.pdf)
Fundargögn:
DAGSKRÁ (.pdf)
Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands (.pdf)
Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)
Ársreikningur 2015 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)
Ársreikningur 2015 – Yrkjusjóður (.pdf)
Ársreikningur 2015 – Kolviður (.pdf)
Nýlegar athugasemdir