Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2015

Tré ársins 2015

Með Skógræktarverkefni

Tré ársins 2015 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 26. september síðast liðinn. Að þessu sinni varð reynitré (Sorbus aucuparia) sem stendur í Sandfelli í Öræfum fyrir valinu.

Reynirinn vekur jafnan athygli, þar sem hann stendur einn og óstuddur, með gráar skriður í bakgrunni og sést hann vel frá þjóðveginum. Tréð var gróðursett árið 1923 af Þorbjörgu Guðdísi Oddbergsdóttur, mágkonu séra Eiríks Helgasonar, sem var prestur í Sandfelli frá 1918 til 1931. Þorbjörg fékk tréð sent frá vinkonu sinni á Egilsstöðum sem hafði fengið það í gróðrarstöðinni hjá Guttormi Pálssyni, skógarverðinum á Hallormsstað, en uppruni þess er ekki þekktur.

Hófst athöfnin á því að Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, bauð gesti velkomna. Að ávarpi hans loknu færði Magnús afkomendum séra Eiríks viðurkenningarskjal og tók Eiríkur Helgason við því fyrir þeirra hönd. Einnig tók Örn Bergsson við viðurkenningarskjali fyrir hönd Öræfinga. Eiríkur Helgason færði svo Skógræktarfélagi Íslands fallega ljósmynd af trénu og tók Magnús Gunnarsson við henni fyrir hönd félagsins. Anna Sigríður Helgadóttir tók því næst lagið fyrir gesti. Að lokum var tréð hæðarmælt og sá Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði, um mælingu. Reyndist hæsti stofn trésins vera 11,98 m á hæð, en tréð greinist í sjö stofna. Að lokum var svo gestum boðið upp á hressingu á Hótel Skaftafelli í Freysnesi.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins, nú í samstarfi við Arion banka. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Sjá má myndir frá útnefningunni á Facebook síðu Skógræktarfélags Íslands.

trearsins2015

Tré ársins 2015 (Mynd: RF).

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Sjálfboðaliðadagur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður sunnudaginn næstkomandi, þann 27. september kl. 11.00 – 13.00. Gróðursett verður í Vatnshlíðarlund við Hvaleyrarvatn, en það er minningarlundur um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Mæting er í Vatnshlíð norðan við Hvaleyrarvatn, á hægri hönd þegar ekið er niður að Hvaleyrarvatni frá Kaldárselsvegi.

Boðið er upp á hressingu í Þöll að gróðursetningu lokinni. Allir velkomnir og öll hjálp vel þegin.

Þetta er tilvalið tækifæri til að kynnast skógræktarfólki í bænum. Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 (Þöll), 894-1268 (Steinar framkvæmdastjóri) eða 849-6846 (Árni skógarvörður). Plöntur og verkfæri á staðnum.

Ráðstefna og ferð í Bæjarstaðarskóg og útnefning Trés ársins

Með Fundir og ráðstefnur

Í tilefni þess að 80 ár eru liðin frá friðun Bæjarstaðarskógar stendur Skógræktarfélag Íslands fyrir ráðstefnu um og ferð til Bæjarstaðarskógar dagana 25.-26. september.

Rúta verður frá skrifstofu Skógræktarfélags Íslands föstudaginn 25. september. Ráðstefnan verður svo haldin að morgni laugardagsins 26. september. Að henni lokinni fer fram athöfn vegna útnefningar Trés ársins 2015. Eftir það verður skoðunarferð í Bæjarstaðarskóg undir leiðsögn staðkunnugra, áður en haldið verður aftur til baka.

Skrá þarf sig á ráðstefnuna, en frítt er inn á hana. Fyrir þá sem vilja nýta sér rútuna kostar ferðin kr. 10.000 pr. mann. Skráningarfrestur á ráðstefnuna og/eða í rútuferðina er til 2. september, á netfangið skog@skog.is eða í síma 551-8150. Ráðstefnugestir sjá sjálfir um að útvega sér gistingu.


Dagskrá:

Föstudagur 25. september

Kl. 13:30 Brottför frá Þórunnartúni 6 austur í Skaftafell/Svínafell/Freysnes

Laugardagur 26. september
Ráðstefna um Bæjarstaðarskóg – haldin í Freysnesi

Kl. 8:30 Fræðsluerindi
  Bæjarstaðarskógur í sögulegu samhengi / Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor Landbúnaðarháskóla Íslands
  Gróðurframvinda við Bæjarstaðarskóg / Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur Náttúrufræðistofnun Íslands
  Kynbætur á Bæjarstaðarbirki / Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur
  Mikilvægi Bæjarstaðarbirkisins / Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Mógilsár-Skógrækt ríkisins
   
Kl. 10:00 Athöfn vegna Trés ársins 2015
   
Kl. 11:45 Hádegishlé
   
Kl. 12:30 Skoðunar-/gönguferð í Bæjarstaðarskóg undir leiðsögn staðkunnugra heimamanna
   
Kl. 17:00 Komið úr gönguferð
   
Kl. 17:30 Brottför frá Skaftafelli til baka til Reykjavíkur