Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2015

Hátíð og gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur

Með Ýmislegt

Þann 29. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti, og 100 ár frá því konur hér á landi fengu kosningarétt. Af þessu tilefni hefur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Alþingi og Reykjavíkurborg, ásamt á fjórða tug félagasamtaka og stofnana, þar á meðal Skógræktarfélag Íslands, tekið höndum saman og efna til hátíðardagskrár sunnudaginn 28. júní, undir yfirskriftinni Þjóðin sem valdi Vigdísi.

Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Þótti því upplagt að skógræktarfélögin myndu marka þessi tímamót með gróðursetningu og fylgja fordæmi Vigdísar um trén þrjú.

Skógræktarfélögin og sveitarfélög um land allt, með stuðningi Skógræktarfélag Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Yrkjusjóði og Landgræðslusjóði munu því standa saman að gróðursetningu laugardaginn 27. júní í tengslum við hátíðina daginn eftir. Fyrirhugað er að gróðursetja þrjár trjáplöntur á hverjum stað og verður um að ræða stæðileg birki af yrkinu Embla, um 1,5-2,0 m á hæð.

Á Facebook-síðu viðburðarins  Gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur verða settar inn nánari upplýsingar um gróðursetningu á hverjum stað, eftir því sem þær berast.

Yfirlit:
Akranes: Skógræktarfélag Akraness og Akraneskaupstaður gróðursetja í Garðalundi kl. 13:00.
Blönduós: Skógræktarfélag A-Húnvetninga og Blönduósbær gróðursetja í Fagrahvammi (Kvenfélagsgarður) kl. 16:00.
Borgarnes: Skógræktarfélag Borgarfjarðar gróðursetur við íþróttavöllinn í Borgarnesi kl. 12:30. 
Dalabyggð: Skógræktarfélag Dalasýslu og Dalabyggð gróðursetja við Auðarskóla kl. 17:00, sunnudaginn 28. júní.
Djúpivogur: Gróðursett verður í Hálsaskógi kl. 14:00.
Egilsstaðir: Skógræktarfélag Austurlands og Fljótsdalshérða gróðursetja í Tjarnargarði á Egilsstöðum kl. 15:30.
Garðabær: Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabær gróðursetja í Lundamóa kl. 13:00.
Garður: Gróðursett verður á opna svæðinu sunnan við sundlaugina kl. 11:00.
Grindavík: Skógræktarfélag Grindavíkur og Grindavíkurbær gróðursetja í minningarlundi í Sjómannagarði milli Hafnargötu og Mánagötu, kl. 13:00.
Grundarfjörður: Skógræktarfélag Eyrarsveitar og fleiri gróðursetja í Yrkjuhvamminn vestan við vatnstankinn undir Innra Hellnafelli, kl. 14:00.
Hafnarfjörður: Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gróðursetur í Vigdísarlund á Víðistaðatúni kl. 10:00.
Hvalfjarðarsveit: Skógræktarfélag Skilmannahrepps gróðursetur við Furuhlíð kl. 11:00.
Höfn í Hornafirði: Skógræktarfélag A-Skaftfellinga gróðursetur við Sundlaugina í Höfn þegar skrúðganga fer hjá (milli kl. 20:30 og 21:00).
Hveragerði: Gróðursett verður í smágörðunum við hlið Hótels Arkar kl. 17:00, föstudaginn 26. júní.
Ísafjörður: Skógræktarfélag Ísafjarðar og Ísafjarðarbær gróðursetja í Karlsárskógi kl. 14:00. 
Kjósarhreppur: Skógræktarfélag Kjósarhrepps og Kjósarhreppur gróðursetja við Ásgarð kl. 11:00.
Kópavogur: Skógræktarfélag Kópavogs gróðursetur í Guðmundarlundi kl. 14:30, föstudaginn 26. júní.
Mosfellsbær: Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gróðursetur í Meltúnsreit kl. 11:00.
Raufarhöfn: Gróðursett verður á bletti beint á móti Ráðhúsinu kl. 11:00.
Reykjanesbær: Skógræktarfélag Suðurnesja og Reykjanesbær gróðursetja í Paradís, neðan við Grænás, kl. 11:00.
Reykjavík: Skógræktarfélag Reykjavíkur gróðursetur við Bæjarhólinn á Elliðavatni kl. 14:00.
Siglufjörður: Skógræktarfélag Siglufjarðar og Fjallabyggð gróðursetja við kirkjuna á Siglufirði kl. 11:00.
Skagaströnd: Skógræktarfélag Skagastrandar gróðursetur sunnan við Spákonuhof kl. 11:00.
Skútustaðahreppur: Gróðursett verður í höfða kl. 14:30, mánudaginn 29. júní.
Stykkishólmur: Gróðursett verður í Hólmgarði kl. 11:00.
Þingeyjarsveit: Skógræktarfélag Fnjóskdæla gróðursetur á Hálsmelum í Fnjóskadal kl. 15:00.
Þingeyri: Skógræktarfélag Dýrafjarðar og Grunnskólinn á Þingeyri gróðursetja í svæði Yrkjuskógar skólans kl. 11:00.
Þorlákshöfn: Skógræktarfélag Þorlákshafnar og Ölfuss og Sveitarfélagið Ölfus gróðursetja í Skýjaborgum kl. 11:00. 

 


Skógræktarfélag Fnjóskdæla: Útivistardagur á Hálsmelum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 27. júní klukkan 14:00 verður útivistardagur á Hálsmelum, Fnjóskadal hjá Skógræktarfélagi Fnjóskdæla.

Byrjað verður á því að snyrta tré og planta berjaplöntum. Klukkan 15:00 verður komið saman við nýtt áningarborð rétt norðan við þar sem ekið er niður að útvarpsendurvarpanum. Þar verða gróðursettar þrjár birkiplöntur í tilefnis þess að 29. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti og 100 ár frá því konur hér á landi fengu kosningarétt. Þá verður kaffi, safi og kleinur á boðstólum og farið í leiki með börnum.

Stjórn Skógræktarfélags Fnjóskdæla

Skógræktarfélag Kópavogs: Hreinsunar- og fræðsludagur í Hermannsgarði í Guðmundarlundi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hreinsunar- og fræðsludagur verður í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi fimmtudaginn 11. júní, kl. 17:00-20:30.

Það er ýmislegt sem þarf að gera, eins og að raka og hreinsa beð, skipta plöntum og spjalla saman. Hermannsgarður er samvinnuverkefni Kópavogsbæjar, Skógræktarfélags Kópavogs og Garðyrkjufélags Íslands, til minningar um Hermann Lundhold garðyrkjuráðunaut. Verkfæri verða á staðnum og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos.

Þetta er tilvalin leið fyrir félaga til að hittast og spjalla og bera saman bækur sínar. Fyrir félaga sem eru að stíga sín fyrstu spor í ræktun er þetta upplagt tækifæri til að læra til verka, skoða hönnun, staðsetningu og plöntuval. Athugið að hver og einn getur mætt þegar henni/honum hentar frá kl 17:00.

Félagar eru hvattir til að fjölmenna og taka með sér gesti.

Leiðin í Guðmundarlund

Fyrir þá sem ekki rata í Guðmundarlund þá er hér lýsing af beinustu leiðinni frá Vatnsendavegi að Guðmundarlundi. Beygt er af Vatnsendavegi á hringtorgi inn á Markaveg og hann ekinn til austurs meðfram hesthúsahverfinu að austanverðu þar til komið er að götu sem heitir Landsendi. Þar er skilti sem vísar á Guðmundarlund en einnig er skilti við hringtorgið á Vatnsendavegi merkt Guðmundarlundi.

Á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs er loftmynd er sýnir leiðina – sjá www.skogkop.is

Námskeið: Ræktun og umhirða gróðurs í sumarhúsalandi

Með Fræðsla

Fjölþætt námskeið með fjölda hugmynda sem nýtast sumarhúsaeigendum. Undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar er farið í skógargöngu þar sem skoðaður er fjöldi blómplantna, trjáa- og runnategunda sem henta í blandskóg og lundi. Kennd er sáning á fræi og græðlingaræktun. Kynntar verða lausnir til að skapa lygnan sælureit og umhirða sem vænleg er til árangurs.

Tími: Fimmtudagur 11. júní kl. 17:30 – 21:30. 
Staður: Gróðrarstöðin Þöll við Kaldársel, Hafnarfirði.
Verð: kr. 8.200. Léttur kvöldverður innifalinn.
Kennarar: Auður I Ottesen garðyrkjufræðingur og Steinar Björgvinsson skógfræðingur.

Landbúnaðarháskóli Íslands: Garð- og landslagsrunnar

Með Ýmislegt

Á vegum verkefnisins Yndisgróður er nú komið út nýtt rit með lýsingu á nítján íslenskum runnayrkjum, sem hafa um langt skeið verið í framleiðslu í ræktun hér á landi.

Ritið má nálgast á ritröð háskólans: http://www.lbhi.is/?q=is/rit_lbhi_0

Hjörtur Þorbjörnsson og Ólafur Sturla Njálsson sáu um yrkislýsingar og er útgáfa ritsins mikilvægur hluti af viðurkenningarferli íslenskra yrkja og liður í að meta gildi mikilvægra valinna garð- og landslagsrunna sem íslenskra úrvalsplantna.

Skógræktarritið, 1. tbl. 2015, komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrsta tölublað Skógræktarritsins 2015 er komið út.

Að vanda er að finna í ritinu fjölda áhugaverðra greina um hinar ólíku hliðar skógræktar. Meðal annars er fjallað um tuttugu ára trjárækt í Deild í Fljótshlíð, nýtt birkiyrki – Kofoed að nafni, ræktun í lúpínubreiðum, þróun viðarnytja á Íslandi, Eldhraunsreitinn í Skaftáreldahrauni, vígslu minningarsteins um Jón Jósep Jóhannesson, frumkvöðul skógræktar á Skógum, notkun maríuskós í ræktun trjáa, lífbreytileika í samhengi skógræktar og einn af skógarfuglunum okkar – auðnutittling. Einnig er minnst Indriða Indriðasonar skógarvarðar.

Kápu ritsins prýðir verkið ,,Sumar“ eftir Kristínu Arngrímsdóttur.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt og má þar nefna umfjöllun um tiltekna skóga, staði eða trjátegundir, hinar ýmsu hliðar ræktunar og ræktunarskilyrða, skipulag skógræktar, rannsóknir, ferðasögur, viðtöl, minningagreinar og margt fleira.

Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári og er selt í áskrift og í lausasölu. Hægt er að gerast á áskrifandi með því að hafa samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551 8150 eða með því að senda póst á netfangið skog@skog.is.

skogrit2015-1