Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

desember 2014

Gleðileg jól!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.


gledilegjol

Í jólaskóginum í Brynjudal.

Jólatrjáasala skógræktarfélaga síðustu daga fyrir jól

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Það eru nokkur skógræktarfélög sem eru með sölu á jólatrjám nú síðustu daga fyrir jól.

  • Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga er með jólatrjáasölu á Gunnfríðarstöðum helgina 20.-21. desember kl. 11-15.
  • Skógræktarfélag Austurlands er með jólatrjáasölu í Eyjólfsstaðaskógi helgina 20.-21. desember kl. 12-16.
  • Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi helgina 20.-21. desember og á Þorláksmessu, kl. 11-16.
  • Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Björgunarsveitin Heiðar eru með jólatrjáasölu í Grafarkoti í Stafholtstungum laugardaginn 20. desember kl. 12-16.
  • Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandsskógi á Þelamörk, dagana 20.-21. desember kl. 11-15.
  • Skógræktarfélag Eyrarsveitar er með jólatrjáasölu í Brekkuskógi við Grundarfjörð dagana 19.-23. desember, kl. 13-18.
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið virka daga kl. 10-18 og helgina 20.-21. desember kl. 10-18
  • Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið um helgar kl. 10-16, en kl. 12-16 virka daga til 23. desember.
  • Skógræktarfélagið Mörk er með jólatrjáasölu í Stóra-Hvammi, Fossi á Síðu laugardaginn 20. desember kl. 13-15.
  • Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, helgina 20.-21. desember kl. 11-16. Jólaskógurinn á Hólmsheiði verður sömu daga, kl. 11-16.
  • Skógræktarfélag Stykkishólms er með jólatrjáasölu í Vatnsdal 20.-21. desember kl. 12-15.
  • Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði helgina 20.-21. desember kl. 10:30-15:00.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is/jolatre.

Opið hús – nýjar bækur fyrir ræktunarfólk

Með Ýmislegt

Sumarhúsið og garðurinn hefur í ár gefið út tvær bækur í bókaflokknum Við ræktum. Verður opið hús sunnudaginn 14. desember kl. 14:00 – 18:00 að Fossheiði 1, Selfossi, til að fagna útgáfu Belgjurtabókarinnar sem kom út í byrjun mánaðarins. 

Höfundur bókarinnar, Sigurður Arnarson, fjallar um hina stóru og fjölbreyttu ætt belgjurta af þekkingu og reynslu sem garðeigandi og fyrrum skógarbóndi.

Í bókinni er ítarleg og vönduð umfjöllun um heila ætt plantna sem er jöfnum höndum nefnd belgjurtaætt og ertublómaætt á íslensku. Innan þessarar ættar eru tré, runnar og jurtir sem gæddar eru þeim eiginleika að geta nýtt gerla til að binda nitur andrúmsloftsins sér til hagsbóta. Slíkar plöntur spara áburðargjöf og stuðla að gróskumeira vistkerfi.

Á Íslandi má nýta þær í landbúnaði, skógrækt, garðrækt og landgræðslu. Fjallað er um tegundir innan ættarinnar sem einhver reynsla er af á Íslandi en einnig aðrar áhugaverðar plöntur sem margar hverjar eru líklegar til að geta þrifist hér á landi.

Einnig verður kynnt bókin Aldingarðurinn, eftir Jón Guðmundsson garðyrkjufræðing, sem kom út í sömu ritröð fyrr á árinu.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Sumarhússins og garðsins, www.rit.is.

belgjurtir cover-2014

Jólatrjáasala skógræktarfélaga helgina 13.-14. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Það eru mörg skógræktarfélög sem selja jólatré nú um helgina.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, báða dagana kl. 11-16.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Björgunarsveitin Heiðar eru með jólatrjáasölu í Grafarkoti í Stafholtstungum, kl. 12-16 báða dagana. Sunnudaginn 14. desember er Skógræktarfélag Borgarfjarðar með jólatrjáasölu í Reykholti í Reykholtsdal, kl. 12-16.

Skógræktarfélag Dýrafjarðar og Skógræktarfélag Ísafjarðar eru með jólatrjáasölur laugardaginn 13. desember, að Söndum í Dýrafirði og reit ofan Bræðratungu, kl. 13-15.


Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandsskógi á Þelamörk, báða dagana kl. 11-15.


Skógræktarfélag Garðabæjar er með jólatrjáasölu í Smalaholti laugardaginn 13. desember, kl. 12-16.


Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18.


Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið um helgar kl. 10-16, en kl. 12-16 virka daga til 23. desember.


Skógræktarfélag Rangæinga er með jólatrjáasölu á Bolholti á Rangárvöllum sunnudaginn 14. desember, kl. 13-16.


Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-16. Jólaskógurinn á Hólmsheiði verður opinn báða dagana, kl. 11-16.


Skógræktarfélag Skagfirðinga er með jólatrjáasölu í Hólaskógi og skógarreit við Varmahlíð sunnudaginn 14. desember kl. 12-16.


Skógræktarfélag Skilmannahrepps er með jólatrjáasölu í Álfholtsskógi, báða dagana. Opnað um hádegisbil.


Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15:00.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is/jolatre. 

Jólafundur Skógræktarfélags Kópavogs

Með Fræðsla

Jólafundur Skógræktarfélags Kópavogs verður haldinn fimmtudaginn 11. desember 2014 kl. 20:00 í Gullsmára 13, Kópavogi (Félagsheimili aldraðra).

Dagskrá:
1. Halldór Sverrisson, verkefnisstjóri kynbótaverkefnis um alaskaösp mun flytja erindi um það verkefni.
Alaskaösp er ein mikilvægasta trjátegundin á Íslandi. Saga hennar í landinu er ekki löng. Í fyrstu var hún nær eingöngu notuð sem garðtré, en á síðustu áratugum hefur notkun aspar í skógrækt aukist töluvert. Hingað til hafa mest verið notaðar arfgerðir (klónar) sem safnað var í Alaska um miðja síðustu öld.
Nú er í gangi kynbótaverkefni við Rannsóknastöð skógræktar að Mógilsá sem miðar að því að fá fram klóna sem henta til fjölbreytilegra nota og eru vel aðlagaðir veðurfari ólíkra landshluta. Einnig er mikilvægt að fá fram arfgerðir sem hafa mótstöðu gegn ryði og öðrum skaðvöldum.
2. Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur kynnir nýja bók í máli og myndum sem hann og Halldór Sverrisson hafa ritað um „Heilbrigði trjágróðurs“.
Bókin Heilbrigði trjágróðurs – skaðvaldar og varnir gegn þeim sem kom út í júní á þessu ári hefur hlotið verðskuldaða athygli. Höfundar hennar eru Guðmundur Halldórsson skordýrafræðingur og Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur. Bókin verður til sölu á sérstöku kynningarverði og munu höfundar árita bókina að ósk gesta.
3. Jólahappdrætti (10 jólatré eru vinningar kvöldsins)

Veitingar í boði félagsins.

Stjórn félagsins vonast til að sjá sem flesta félagsmenn og eru aðrir gestir velkomnir.

Skógræktarritið, 2. tbl. 2014, er komið út

Með Fræðsla

Að vanda er að finna í ritinu fjölda áhugaverðra greina um hinar ólíku hliðar skógræktar. Meðal annars er fjallað um Tré ársins 2014, reynsluna af jólatrjáarækt á Íslandi, trjávernd í þéttbýli, gróðursetningaáhöld í gegnum tíðina, Skrúð í Dýrafirði, sagt frá fræðsluferð til Sogn- og Fjarðafylkis í Noregi og svo er reynslusaga úr ræktun í Fljótshlíð. Einnig er minnst Sigurðar Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóra.
Kápu ritsins prýðir verkið ,,Haust“ eftir Kristínu Arngrímsdóttur.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt og má þar nefna umfjöllun um tiltekna skóga, staði eða trjátegundir, hinar ýmsu hliðar ræktunar og ræktunarskilyrða, skipulag skógræktar, rannsóknir, ferðasögur, viðtöl, minningagreinar og margt fleira.

Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári og er selt í áskrift og í lausasölu. Hægt er að gerast á áskrifandi með því að hafa samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551 8150 eða með því að senda póst á netfangið skog@skog.is.

forsida2014-2

Frækorn nr. 33 komið út

Með Fræðsla

33. tölublað Frækornsins er komið út. Nefnist það sólber og fjallar það í stuttu máli um helstu atriði er huga þarf að við ræktun sólberja og helstu yrki er reynst hafa vel hér á landi.

Höfundur er Steinar Björgvinsson skógfræðingur, en Helgi Þórsson teiknaði myndir.
Frækornið fylgir með áskrift að Skógræktarritinu, en einnig er það selt í lausasölu. Hægt er að fá öll útkomin Frækorn í sérstakri safnmöppu.

Nánari upplýsingar undir Frækorninu hér á heimasíðunni.

fkorn33-forsida

Nýtt í Brynjudalsskógi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Sífellt er verið að vinna í að bæta aðstöðu í jólaskóginum í Brynjudal. Nú í nóvember var sett upp skilti með helstu upplýsingum um skóginn, þær jólatrjáategundir sem þar er að finna og yfirlitsmynd yfir þá aðstöðu sem þar er, svo sem stígakerfi og skógarhýsi. Var gerð skiltisins styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Einnig var nú í nóvember reist fánastöng þar. Er hún úr sitkagreni og gerð af Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

brynjudalur-nytt1

Skiltið komið á sinn stað.

brynjudalur-nytt2

Fáni Skógræktarfélags Íslands blaktir við hún á nýju fánastönginni.