Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2014

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Kópavogs verður haldinn fimmtudaginn 23. október 2014 kl. 20:00 í Gullsmára 13, Kópavogi (Félagsheimili aldraðra).

Dagskrá aðalfundar skv. lögum félagsins:

1. Hefðbundin aðalfundarstörf

a. Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári
b. Skýrslur nefnda. Fossárnefnd
c. Lagðir fram reikningar félagsins til samþykktar
d. Tillaga að félagsgjaldi
e. Lagabreytingar. Fyrir liggur tillaga frá Sigríði Elefsen um lagabreytingar
f. Kosningar samkvæmt félagslögum
g. Tillögur um framtíðarverkefni félagsins og stefnumótun
h. Önnur mál

2. Tillaga stjórnar um að selja Kópavogsbæ 55 % eignarhluta í Leiðarenda 3, frístunda –og
þjónustuhúsi í Guðmundarlundi.

Veitingar í boði félagsins – mætum öll.

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs.

Námskeið um kransagerð úr náttúrulegum efniviði

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir námskeiði um kransagerð úr náttúrulegum efniviði fimmtudaginn 23. október. Er námskeiðið haldið að Elliðavatni í Heiðmörk, kl. 9:30-16:00.

Sýnikennsla verður í gerð kransa (haustkransa, jólakransa) með efni úr íslenskri náttúru og íslenskum skógum – könglakransar, grenikransar og greinakransar. Þátttakendur fá tækifæri til að binda sína eigin kransa og mega gjarnan koma með eitthvert efni með sér eins og greinar, köngla, mosa, hálmkransa og þess háttar. Einnig er gott að hafa með greinaklippur, skæri og vírklippur ef til eru, sem og límbyssu. Ef tími vinnst til verður sett í litlar jólakörfur, þannig að ef þátttakendur eiga litlar bastkörfur eða potta er um að gera að taka það með. Einnig er mælt með að hafa þunna hanska með, t.d. einnota.

Kennari: Steinar Björgvinsson skógfræðingur og blómaskreytir
Verð: 8.000 kr. Kaffi, bakkelsi og hádegisverður innifalið.

Hámaksfjöldi: 20 manns.

Upplýsingar og skráning fyrir 18. október:
Else Möller else.akur@gmail.com GSM: 867-0527
f.h.Skrf. Rvk saevar@heidmork.is GSM: 893-2655

Athugasemd frá Skógræktarfélagi Íslands við ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur, vegna Teigsskógar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 15. október sl. ályktun er varðar samþykkt stjórnar Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga á Vestfjörðum um Teigsskóg. Því miður er í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur hallað réttu máli. Ekki skal hér farið í efnislegar deilur við stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur um Teigsskóg en nauðsynlegt er að leiðrétta rangfærslur sem fram koma í ályktuninni.
Fullyrt er í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur að undirtektir skógræktarmanna við framkominni tillögu á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands hafi verið dræmar. Hið rétta er að miklar umræður spunnust á fundinum um tillöguna og voru fundarmenn ekki á eitt sáttir um hana eins og hún var fram sett. Þótti tillagan nokkuð beinskeytt, auk þess sem fundarmönnum fannst ekki nægjanlega skýrt að skógræktarfélögin á Vestfjörðum stæðu að baki ályktuninni. Tillagan var hins vegar borin fram af stjórn Skógræktarfélags Íslands vegna óska frá aðildarfélögum Skógræktarfélags Íslands á sunnanverðum Vestfjörðum.

Niðurstaða skógræktarnefndar á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands var sú að leggja til að vísa tillögunni til stjórnar S.Í. og var það samþykkt á aðalfundinum. Það er því rangt eins og fram kemur í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur að endanleg tillaga, sem fékk umfjöllun og afgreiðslu í stjórn Skógræktarfélags Íslands, sé í andstöðu við vilja aðalfundar. Þorri fundarmanna var hins vegar þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að umorða tillöguna, sem síðar var gert, og hún afgreidd af stjórn Skógræktarfélags Íslands með öllum greiddum atkvæðum, eins og áður er getið.

Í meðförum stjórnar Skógræktarfélags Íslands var ályktuninni verulega breitt frá upphaflegri tillögu og að endingu stóðu sjö skógræktarfélög á Vestfjörðum og Skógræktarfélag Íslands að ályktuninni sem samþykkt var á stjórnarfundi Skógræktarfélags Íslands þann 1. október sl.

Ályktunin er því í fullu samræmi við óskir skógræktarfélaganna og neðangreind fullyrðing Skógræktarfélags Reykjavíkur því fullkomlega röng, en þar segir:
Ályktun stjórnar félagsins ( S.Í) er ekki í samræmi við vilja kjörinna fulltrúa skógræktarfélaga í landinu eins og hann birtist á fundi aðalfundar Skógræktarfélags Íslands.

Skógræktarfélag Íslands eru landssamtök 61 skógræktarfélags víðs vegar um land og stjórn Skógræktarfélags Íslands leggur sig fram um að hlusta á þau málefni sem heitast brenna á félagsmönnum og geta orðið skógræktarfélögum og viðkomandi samfélagi til framdráttar. Öflugt starf sjálfboðaliða í skógræktarhreyfingunni er afar mikilvægt, en ekki sjálfgefið. Skógræktarfélag Íslands virðir mismunandi skoðanir og ályktanir einstakra félaga innan vébanda þess. Í því tilviki sem hér er rakið hlustaði stjórn Skógræktarfélag Íslands á raddir skógræktarmanna og fólksins sem býr við erfið samgönguskilyrði á Vestfjörðum og mat það svo að hagsmunir íbúa á svæðinu væru mikilvægari en að lítill hluti, 1% kjarrlendis í Þorskafirði og Teigsskógi, þyrfti að víkja fyrir betri samgöngum á svæðinu.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Gengið um Setbergshverfið

Með Skógargöngur

Laugardaginn 18. október stendur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir göngu um Setbergshverfið í Hafnarfirði þar sem hugað verður að trjágróðri í hverfinu.

Lagt verður af stað frá Setbergsskóla, Hlíðarbergi 2, kl. 10.00. Gangan tekur um tvær klukkustundir.

Hvert er hávaxnasta tré hverfisins?

Allir velkomnir.

Ljóðagöngur

Með Skógargöngur

Ljóðaganga verður haldin í trjásafninu á Hallormsstað á fimmtudagskvöld, 16. október kl. 20. Gangan er liður í dagskrá Litlu ljóðahátíðarinnar í Norðausturríki og er haldin í samvinnu við Skógrækt ríkisins.

Gengið verður um trjásafnið með kyndla. Við ljósið frá þeim og yl frá varðeldi og ketilkaffi verður hlýtt á frumort ljóð. Hulda Sigurdís Þráinsdóttir, Sveinn Snorri Sveinsson, Ingunn Snædal og Stefán Bogi Sveinsson lesa úr verkum sínum.

Einnig verður ljóðaganga sunnudaginn 19. október, í samvinnu við Skógræktarfélag Eyfirðinga. Hún verður haldin kl. 14 í Vaðlaskógi gegnt Akureyri. þar koma fram Bjarki Karlsson, Kristín Eiríksdóttir, Kristian Guttesen og fleiri.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Skógræktar ríkisins – www.skogur.is

Ályktun Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga á Vestfjörðum um Teigsskóg

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands telur, ásamt skógræktarfélögum á Vestfjörðum, að ekki sé ástæða til að leggjast gegn vegagerð um Teigsskóg í Þorskafirði. Í umræðu um ráðgerðan veg hefur því m.a. verið haldið fram að nauðsynlegt sé að varðveita Teigsskóg. Telja verður að þetta séu haldlaus rök, notuð sem yfirvarp. Örlítið brot af Teigsskógi og skóglendi að vestanverðu í Þorskafirði fer undir veg samkvæmt nýjustu tillögu Vegagerðarinnar, innan við 1% af heildarflatarmáli skógarins. Skaðinn er því óverulegur. Við fyrirhugaðar framkvæmdir verður jafnmikill birkiskógur ræktaður innan héraðs til mótvægis við skerðingu í Teigsskógi. Birkiskóglendi á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum minnkar því ekki við gerð vegarins.

Á Vestfjörðum er að finna marga fallega birkiskóga. Nýr vegur um Teigsskóg mun greiða almenningi leið að Teigsskógi til að njóta hans og annarra fallegra náttúrufyrirbæra við utanverðan Þorskafjörð. Félögin benda á að engir hafa varðveitt betur sinn upprunalega birkiskóg en Barðstrendingar. Kjarr er mjög víða í sýslunni og nánast ómögulegt að leggja vegi án þess að að fara um kjarrlendi. Undanfarin tvö ár hefur Vegagerðin unnið að löngu tímabærum vegabótum vestar í sýslunni og hefur þurft að ryðja þar alls um 5 hektara birkiskógar. Til samanburðar er talið að varanleg röskun í Teigsskógi og Þorskafirði verði samtals 6,1 ha, verði farin sú veglína sem Vegagerð ríkisins kynnti nýlega.

Samkvæmt gildandi lögum er Vegagerðinni skylt að rækta nýjan birkiskóg á jafnstóru svæði og því sem skert er. Náttúrulegir birkiskógar í héraðinu eru jafnframt í mikilli útbreiðslu og vexti um þessar mundir.

Engin sérstök náttúrufræðileg rök hníga því til þess að fáeinir hektarar af birki í Teigsskógi skuli vera sá farartálmi nauðsynlegum vegabótum sem raun ber vitni. Óhóflegar og illa rökstuddar verndarkröfur mega ekki hindra að lagðir verði nútímalegir vegir um sýsluna. Með því væri að óþörfu gengið gegn búsetugæðum íbúa sem hafa verið í fararbroddi við að rækta og vernda náttúrulegt skóglendi.

Skógræktarfélag Bolungarvíkur
Skógræktarfélag Ísafjarðar
Skógræktarfélag Dýrafjarðar
Skógræktarfélag Bíldudals
Skógræktarfélag Tálknafjarðar
Skógræktarfélag Patreksfjarðar
Skógræktarfélag Strandasýslu
Skógræktarfélag Íslands

Nánari upplýsingar veita Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, s. 665-8910 og Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, s. 820-2113.