Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2014

Minnisvarði um fyrsta skógræktarstjórann afhjúpaður

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, ásamt Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Skógrækt ríkisins, og Landgræðslu ríkisins stóðu að gerð minnisvarða í skógarlundi í Heiðmörk í virðingarskyni við starf fyrsta skógræktarstjóra landsins, Agner Francisco Kofoed-Hansen en hann vann ötullega að skógrækt og sandgræðslu á Íslandi. Var minnisvarðinn afhjúpaður við hátíðlega athöfn þann 18. júní.

Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, hafði óbilandi trú á skógrækt til að vinna gegn umfangsmikilli landeyðingu í upphafi síðustu aldar. Hann vann að því að sett yrðu lög um skógrækt og voru þau samþykkt á Alþingi haustið 1907. Fyrsti skógræktarstjóri Íslands, Agner Francisco Kofoed-Hansen, var ráðinn til starfa ári síðar og starfaði til 1935.

Fyrirmyndin að gagnsemi skógræktar til að takast á við sandfok og landeyðingu var sótt til Danmerkur. Þar hafði mikill árangur náðst við að stemma stigu við landeyðingu á jósku heiðunum. Danir höfðu frumkvæði að því að efla áhuga Íslendinga á skógrækt og sandgræðslu.

A. F. Kofoed- Hansen fæddist í Danmörku 1869. Hann var skógfræðingur að mennt og hafði mikla reynslu í stjórnun ræktunarframkvæmda bæði í Svíþjóð og Rússlandi. Hann var skipaður skógræktarstjóri í byrjun árs 1908. Ekki höfðu allir jafn mikla trú á þýðingu skógræktar og Hannes Hafstein og sýndi A.F. Kofoed-Hansen mikla þolinmæði og þrautseigju við að efla skilning á þýðingu þess að vernda og auka umfang skóga í landinu. Meginstefið í starfi hans var friðun og verndun birkiskóga sem voru í mikilli afturför þegar hann tók við starfi. Einkunnarorð sem hann starfaði eftir lýsa þessu vel en þau voru: „Verndaðu vel og rétt kjarrið sem til er og það mun þroskast og verða skógur meðan þú sefur.“

Agner Francisco Kofoed-Hansen lést í Reykjavík 7. júní 1957.

minnisvardi

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar: Sumarganga

Með Skógargöngur

Hin árlega sumarganga Skógræktarfélags Mosfellsbæjar verður farin eftir „Jónasarstíg“ í Mosfellsdal fimmtudaginn 19. júní. Lagt verður af stað frá mörkum Æsustaðahlíðar og Varmalands kl. 19:30, þar sem græna skiltið merkt Skógræktarfélag Mosfellsbæjar stendur (sjá kort á heimasíðu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar – www.skogmos.net).

Bjarki Bjarnason mun leiða gönguna og segja frá.

Gróðursetning hjá Skógræktarfélagi Borgarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 14. júní verður gróðursetningardagur Skógræktarfélags Borgarfjarðar í Reykholti. Mæting er við Höskuldargerði kl. 13 og er fólk vinsamlegast beðið um að hafa með sér gróðursetningarverkfæri (geyspur/stafi). Sett verður niður sitkagreni, blágreni, rússalerki og evrópulerki.

Að gróðursetningu lokinni verður boðið upp á grill.

Allir velkomnir – margar hendur vinna létt verk!

Bókarkaffi: Heilbrigði trjágróðurs

Með Ýmislegt

Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson munu kynna nýútkomna bók sína Heilbrigði trjágróðurs miðvikudaginn 4. júní frá kl. 17:00-19:00. Kynningin verður haldin í sal Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1 (gengið inn Ármúlamegin). Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar.

Heilbrigði trjágróðurs er aðgengileg og gagnleg handbók, ætluð þeim sem rækta tré sér til ánægju og nytja og öðrum sem hafa áhuga á náttúru Íslands. Hún bætir úr brýnni þörf því ýmsir nýir trjáskaðvaldar hafa borist til landsins á síðustu árum.

Í bókinni er öllum helstu sjúkdómum og meindýrum sem herja á trjágróður á Íslandi og skaðvöldunum lýst í máli og myndum. Auk þess er fjallað um skemmdir af völdum veðurs og ýmissa annarra umhverfisþátta.

Almennt verð: kr. 3.490,-
Kynningar verð: kr. 2.650,-


bok-heilbrigdi

Samningur um Opinn skóg

Með Skógargöngur

Undirritaður var í dag samningur við Skeljung hf.  um verkefnið Opinn skóg er snýst um uppbyggingu á skógræktarsvæðum. Undanfarin ár hafa verið opnuð 13 svæði víðsvegar um land og síðast liðið haust var tekinn í notkun nýr lundur að Skógum undir Eyjafjöllum. Stefnt er að opnun skógar á Siglufirði síðar í sumar. Stuðningur Skeljungs er mikilsverður og gerir félaginu kleift að halda verkefninu áfram af fullum krafti.

Samninginn undirrituðu Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs hf (t.v.) og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands.

os-samningur