Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

nóvember 2013

Fuglavernd: Fuglar og landbúnaður

Með Ýmislegt

Á fræðslufundi félagins í næstu viku, fimmtudaginn 28. nóvember, mun Lilja Jóhannesdóttir segja frá rannsóknum sínum á fuglalífi á landbúnaðarsvæðum á Suðurlandi. Fjallað verður um áhrif landnýtingar, farið verður yfir þéttleikatölur og samfélög mismunandi búsvæða og einnig verða stofnstærðir algengustu tegunda skoðaðar.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar kl. 20:30. Gengið er inn um aðalinngang á austurhlið.

Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra.

Allir velkomnir.

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2013

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2013 er að koma út. Kortið prýðir vatnslitamynd eftir Sigurþór Jakobsson og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2013.

Sérstök hvatning er á kortinu, þar sem kemur fram að fyrir hvert selt kort gróðursetur félagið eitt tré. Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í búnti með umslögum á kr. 1.000. 

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Þórunnartúni 6 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér).

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við 250 kr. afgreiðslugjald.
 

tkort2013-max

Samningur um Landgræðsluskóga undirritaður

Með Skógræktarverkefni

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, skrifuðu þriðjudaginn 26. nóvember undir samning vegna Landgræðsluskóga og fór undirskriftin fram í Selinu, bækistöð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Samningurinn felur í sér áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefni sem hefur það að markmiði að endurheimta landgæði með ræktun og gróðursetningu í rýrt og ógróið land.

Skógræktarfélag Íslands sér um stjórn verkefnisins en skógræktarfélögin sem eru starfrækt víða um land sjá um framkvæmd þess á hverjum stað, útvegun lands, friðun og vörslu, gróðursetningu og umhirðu. Gerðir eru þinglýstir samningar um öll svæði sem kveða m.a. á um að þau skuli vera opin almenningi til útivistar. Nánast öll skógræktarfélög landsins vinna nú á einn eða annan hátt að verkefninu. Þannig er það vettvangur áhugamannasamtaka í gróðurvernd um allt land.

Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990 og var hleypt af stokkunum í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu skógræktarfélaganna í landinu, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og þáverandi landbúnaðarráðuneytis.

Gerðir hafa verið samningar um 130 svæði um allt land. Samkvæmt nýlegri úttekt á verkefninu þekja sýnilegir skógar nú tæpa 5000 hektara. Langflest Landgræðsluskógasvæði eru á landi í eigu sveitarfélaga, ríkis eða skógræktarfélaganna sjálfra.

Nýr samningur milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Skógræktarfélags Íslands gildir til fimm ára og felur í sér 35 milljóna króna árlegt framlag til verkefnisins.

undirskriftlgrsk

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, takast í hendur að lokinni undirskrift samningsins (Mynd: RF).

Skógræktarfélagið Fossá

Með Skógræktarfélög

Skógræktarfélagið Fossá er samstarf fjögurra skógræktarfélaga um ræktun á jörðinni Fossá í Hvalfirði. Skógræktarfélag Kópavogs, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, Skógræktarfélag Kjalarness og Skógræktarfélag Kjósarhrepps standa að samstarfinu og eiga jörðina.

Rekstur og umhirða jarðarinnar er í höndum stjórnar Skógræktarfélagsins að Fossá, en stjórnarmeðlimir eru félagsmenn í aðildarfélögunum og eru þeir valdir á aðalfundi viðkomandi félags.

Félagið starfar eingöngu á jörðinni Fossá í Hvalfirði. Helsti starfsvettvangur félagsins er sala á jólatrjám ásamt því að halda skóginum opnum og aðgengilegum til útivistar að ógleymdu að planta fleiri trjám.

Borgarskógar – skógrækt í Reykjavík

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Á fundi fulltrúa Skógræktarfélags Reykjavíkur um útivistarskóga í borginni með borgarstjóra og fulltrúum hans að Elliðavatni þann 17. janúar árið 2012 var samþykkt að Skógræktarfélag Reykjavíkur ynni samantekt um skógræktarstefnu borgarinnar sem gæti orðið grunnur að stefnumörkun borgarinnar í skógrækt við vinnslu aðalskipulags.

Var í kjölfarið skipaður starfshópur til að vinna þessu af hendi félagsins, sem vann náið með fulltrúum Reykjavíkurborgar. Niðurstöður þeirrar vinnu eru settar fram í nýútkominni skýrslu Skógræktarfélags Reykjavíkur um Borgarskógrækt. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur (hér).

Garðyrkjufélags Íslands: Ræktun harðgerðra rósa á Íslandi

Með Ýmislegt

Garðyrkjufélag Íslands efnir til fræðslufundar um ræktun harðgerðra rósa á Íslandi fimmtudaginn 21. nóvember, kl. 20:00-22:00 í nýjum húsakynnum félagsins að Síðumúla 1, fyrstu hæð (gengið inn frá Ármúla).

Verður meðal annars fjallað um harðgerði rósa, hvernig rósir er verið að rækta, rósir fyrir byrjendur, ræktunarkröfur, jarðveg, áburðargjöf og almenna umhirðu rósa.

Efnið er bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Aðgangseyrir er kr. 500 fyrir félagsmenn og kr. 1.000 fyrir utanfélagsmenn.

Allir velkomnir

Nánari upplýsingar á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands.

Jólabókin í ár?

Með Ýmislegt

Ný og glæsileg skógræktarbók Skógarauðlindin – ræktun, umhirða og nýting er komin út. Bókin hentar skógarbændum, ásamt öllum þeim sem áhuga hafa á skógrækt. Hún gefur skýrt og greinargott yfirlit yfir helstu atriði sem hyggja þarf að við ræktun skóga. Farið er yfir undirbúning og skipulagningu skógræktar og helstu framkvæmdaratriði í ræktun og umhirðu miðað við íslenskar aðstæður.

Bókin er gefin út af verkefninu Kraftmeiri skógi, í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Landssamtök skógareigenda. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Landbúnaðarháskólans.

 skogabok

Myndakvöld: Klettafjöll Colorado

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Garðabæjar býður öllum áhugasömum til myndakvölds þriðjudaginn 5. nóvember kl. 20:00 í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund.

Um er að ræða sannkallaða haustlitadýrð úr ferð skógræktarfélaganna til Colorado dagana 26. september til 5. október síðast liðinn.

Allir velkomnir!

sk gbr myndakvold