Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2013

Um afturköllun laga um náttúruvernd

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Stjórn Skógræktarfélags Íslands fagnar ákvörðun umhverfis- og auðlindaráðherra um að afturkalla lög um náttúruvernd sem Alþingi samþykkti síðastliðið vor.

Skógræktarfélag Íslands gagnrýndi frumvarpið með ýmsum hætti frá upphafi, auk þess sem félagið fjallaði einnig um svokallaða Hvítbók sem það taldi hæpna grunnstoð til að byggja á.

Nefnd er vann að undirbúningi og gerð frumvarpsins allt frá árinu 2009 var sýnilega skipuð hóp sérfræðinga, lögfræðinga og forsvarsmanna stofnana. Það kom því ekki á óvart að niðurstaða frumvarpsins yrði stofnanamiðuð eftirlitsvæðing náttúruverndar með auknum boðum og bönnum, refsiákvæðum og viðurlögum en auk þess tilkalli til stóraukinna fjármuna úr ríkiskassanum. Skógræktarfélag Íslands gagnrýndi einnig samráðsleysi og óbilgirni í því sambandi sem dæmi sanna.

Nauðsynlegt er að ráða bót á slíkum vinnubrögðum við endurskoðun náttúruverndarlaganna. Þá kom einnig á óvart að gerðar voru alvarlegar tilraunir til að þrengja stöðu skógræktar og uppgræðslu hér á landi.

Skógræktarfélag Íslands telur í ljósi þeirra miklu gagnrýni sem kom fram á frumvarpið, þar sem hátt í 200 umsagnir komu fram, að nauðsynlegt sé að endurskoða þau frá grunni. Náttúruvernd á Íslandi er mikilvæg. Það er hins vegar nauðsynlegt að um þann lagaramma sem lagður er til grundvallar ríki almenn sátt og þau hafi víðtæka skírskotun í samfélagi hvers tíma.

Lesa má umsögn félagins til Alþingis um tillögu að lögum um náttúruvernd hér (pdf).

Sveppaganga í Bolholti

Með Skógargöngur

Sunnudaginn 22. september kl. 13:00 stendur Skógræktarfélag Rangæinga fyrir göngu í Bolholtsskógi þar sem Sigríður Heiðmundsdóttir kynnir sveppi skógarins og annar gróður verður skoðaður.

Gangan hefst við aðalinnganginn. Allir velkomnir!

Skógardagur barnanna í Guðmundarlundi

Með Skógargöngur

Skógurinn býr yfir dulúð þar sem allt er bæði dularfullt og spennandi.

Laugardaginn 21. september efnir Skógræktarfélag Kópavogs til ævintýralegrar fræðsludagskrár þar sem skógurinn verður skoðaður með augum litla vísindamannsins.

Meðal þess sem gera á, er að fella risastórt tré og greina aldur og skoða sögu þess. Hugað verður að jólatrjám og sögu þeirra. Þá verður grafið ofan í jörðina og leitað að orminum ógurlega í Guðmundarlundi og fjársjóðnum mikla sem skógarálfanir földu einhvern tíma í eld, eld gamla daga.

Það verður margt að gerast í Guðmundarlundi því að í skjóli trjáa og runna gerast ævintýrin.

Dagskráin hefst stundvíslega kl. 11:00 og stendur til kl. 13:00.

Að dagskrá lokinni verður boðið upp á seiðandi kakó og djús.

Foreldrar, afar og ömmur, frændur og frænkur og eldri systkini eru hvött til að finna barnið í sjálum sér og taka þátt með börnunum í skógardegi barna í Guðmundarlundi.

Leið að Guðmundarlundi má sjá á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs (smellið hér).

Völvuskógur – Opinn skógur á Skógum undir Eyjafjöllum opnaður

Með Skógræktarverkefni

Völvuskógur á Skógum undir Eyjafjöllum var formlega opnaður sem Opinn skógur sunnudaginn 15. september. Af því tilefni var efnt til hátíðardagskrár í skóginum.

Þrátt fyrir heldur leiðinlega veðurspá var vel mætt á opnunina, en hún hófst með göngu upp í skóginn, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði skóginn formlega með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn. Að því loknu tóku við ávörp frá Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, Sigurði Inga, Ágústi Árnasyni, fulltrúa fyrrum nemenda Skógaskóla, en hann var einn af þeim sem tóku þátt í fyrstu gróðursetningunni, og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sveitarstjóra Rangárþings eystra. Inn á milli ávarpa tók Viðarbandið vel valin lög.

Að ávörpum loknum tók við ratleikur um skóginn fyrir yngri kynslóðina (og unga í anda!). Einnig var boðið upp á kaffihressingu og lauk dagskránni svo með gönguferð um skóginn. Kom þar vel í ljós hversu gott skjól skógurinn veitir, en inni í skóginum var hægur vindur, þótt fyrir utan hann væri hávaðarok.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

Myndir frá opnuninni má skoða á Facebook-síðu Skógræktarfélagins (hér).

Ráðstefna um áhrif loftslagsbreytinga á skógrækt á norðurslóðum

Með Fundir og ráðstefnur

NordgenSkog og Skógrækt ríkisins standa fyrir ráðstefnu dagana 17. – 18. september á Hótel Hallormsstað. Á þessari tveggja daga ráðstefnu verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á skóga og skógrækt í N-Evrópu. Vísindamenn frá Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Danmörku og Íslandi fjalla um áhrif loftslagsbreytinga á val á tegundum og kvæmum, skipulag skógræktar, og ýmis vandamál í skógrækt. Einnig verður fjallað mögulegar breytingar á skógavistkerfum og ný tækifæri í skógrækt, ásamt langtíma loftslagshorfum.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu Skógræktar ríkisins – www.skogur.is

Opinn skógur á Skógum undir Eyjafjöllum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni af vígslu Völvuskógar á Skógum undir Eyjafjöllum sem ,,Opins skógar“  og  Degi íslenskrar náttúru þann 16. september, verður efnt til hátíðardagskrár sunnudaginn 15. september, kl. 14:00.

Dagskrá

Ávörp flytja:

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands,
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis– og auðlindaráðherra,
Ágúst Árnason, fulltrúi fyrrum nemenda Skógaskóla og
Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra

Boðið verður upp á ratleik og leiðsögn um skóginn, Viðarbandið spilar tónlist og boðið verður upp á veitingar.

Allir velkomnir!

Sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 14. september er hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gróðursett verður í Vatnshlíðina norður af Hvaleyrarvatni í minningarlund um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Hafist verður handa kl. 10.00 og er áætlað að taka um tvær klukkustundir í þetta. Boðið verður upp á snarl að verki loknu. Öllum er velkomið að taka þátt -margar hendur vinna létt verk!

Mæting í Vatnshlíðina. Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélagsins 555-6455 eða 894-1268.

Borgartréð í Reykjavík 2013

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartréð 2013 verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 12. september en það er Ilmbjörk, íslenskt birki í garði Ásmundarsafns. Þær Ingrid Sveinsson, eiginkona Ásmundar Sveinssonar og Anna Sveinsdóttir systir hans gróðursettu tréð á hvítasunnu árið 1944. Tréð stendur á besta stað í garðinum. Það greinist í sex greinar og hefur þjónað nokkrum kynslóðum Reykvíkinga sem klifurtré og gæti sú notkun hafa haft áhrif á lögun þess. Tréð er 4,7 metrar á hæð og hefur breiða krónu sem er um 8 metrar í þvermál.

Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, mun útnefna tréð. Valgeir Guðjónsson tónlistarmaður hefur af þessu tilefni samið lag og texta sem hann frumflytur ásamt börnum úr leikskólanum Laufásborg.

Dagskráin hefst kl. 15 í garði Ásmundarsafn og er öllum opin. Skógræktarfélag Reykjavíkur og Reykjavíkurborg standa að útnefningunni.

borgartre