Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2013

70 ára afmæli Skógræktarfélags S-Þingeyinga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag S-Þingeyinga heldur upp á 70 ára afmæli félagsins laugardaginn 29. júní kl. 14:00 og fer afmælishátíðin fram í Fossselsskógi.

Safnast verður saman í bíla við Vað og ekið að Geiraseli. Þar fara farþegar út en bílstjórar aka áfram niður að bílastæði við beitarhúsin, leggja bílum þar og ganga síðan uppeftir í Geirasel.

Hátíðin hefst á því að Agnes Þórunn Guðbergsdóttir, formaður Skógræktarfélagsins, setur samkomuna. Næst mun Sigurður Skúlason skógarvörður ávarpa samkomuna og svo mun Indriði Ketilsson, Ytra Fjalli rifja upp sögu félagsins. Boðið verður uppá mislanga skógargöngu eftir merktum göngustígum og farið verður í leiki með börnunum.

Dagskrá endar svo syðst og neðst við beitarhúsin í skóginum á ketilkaffi og veglegri afmælistertu við áningarborð úr lerki frá Skógrækt ríkisins. Ýmis kvenfélög undir hatti Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga gáfu félaginu þetta áningarborð í fyrra til að minnast þess að við lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna þann 19. júní árið 1985, komu konur úr hinum ýmsu kvenfélögum saman í Fossselsskógi og gróðursettu lerkitré í brekku þar rétt hjá sem síðan er kölluð Kvennabrekka.

Allir velkomnir.

Skógarganga í Gráhelluhrauni

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar stendur fyrir göngu um skóginn í Gráhelluhrauni fimmtudagskvöldið 27. júní. Sérstaklega verður hugað að þeim trjátegundum sem þar er að finna, en byrjað var að gróðursetja þar árið 1947.

Lagt verður af stað frá hesthúsunum í Hlíðarþúfum við Kaldárselsveg kl. 20:00.

Nánari upplýsingar í síma félagsins: 555-6455.

Fræðsluganga í Vatnsenda

Með Skógargöngur

Þriðjudaginn 25. júní efnir Skógræktarfélag Kópavogs til fræðslugöngu í Vatnsenda þar sem hugað verður að gróðri og sögu. Tré verða heimsótt, hugað að eplarækt og býflugnabú skoðuð svo fátt eitt sé nefnt.

Lagt verður upp frá bílastæði ofan við Elliðahvamm í Elliðavatnshverfi kl. 19:30. Leiðsögumenn verða Kristinn H. Þorsteinsson og Þorsteinn Sigmundsson

Allir velkomnir!

sk kop-gangajuni2 

Upphafsstaður göngu er merktur með rauðum punkti.

Hjóladagur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Skógræktarfélag Mosfellsbæjar standa fyrir fjölskylduhjólreiðaferð þann 22. Júní kl. 14:00.
Lagt verður af stað við hús Skógræktarfélags Reykjavíkur við Elliðavatn kl. 14:00 og hjólað að aðstöðu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar í Hamrahlíð í Úlfarsfelli við Vesturlandsveg.
Hjólað verður yfir Hólmsheiði á malarstígum, komið niður við Reynisvatn, gegnum Grafarholt, framhjá Bauhaus og að Hamrahlíð. Hægt að hjóla malbikuðum stíg alla leið ef fólk kýs það frekar.
Fyrir yngstu kynslóðina verður hægt að byrja við Bauhaus og hjóla nýja stíginn sem liggur þaðan að Hamrahlíð.
Gert er ráð fyrir að allir verði komnir í Hamrahlíðina klukkan rúmlega 15:30.
Boðið verður upp hressingu í Hamrahlíð að hjólreiðaferð lokinni.
Hægt verður að fá far til baka frá Hamrahlíð bæði fyrir fólk og hjól.
Vonumst til að sjá sem flesta.

alt

Skógarganga í Mosfellsbæ

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar efnir til skógargöngu um landnemasvæðin við Skarhólabraut miðvikudaginn 19. júní kl 20:00. Lagt verður af stað við reit nr. 1 sem er við merki félagsins og gengið upp Skarhólabrautina þar sem reitirnir 14 verða skoðaðir. Boðið verður upp á hressingu í reit nr. 10

Skógræktarritið, fyrra hefti 2013 er komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarritið, fyrra hefti 2013, er komið út.

Á kápu er fallegt mynd er nefnist „Gyðja vorsins“ eftir Ágúst Bjarnason.

Að vanda eru fjölmargar áhugaverðar greinar í ritinu:

„Heiðursvarðar í skógum landsins“, eftir Jón Geir Pétursson

„Skógrækt að Hálsi í Eyjafjarðarsveit: Urðarmörk“, eftir Eirík Pál Sveinsson

„Hvaða áhrif hefur það á vöxt og byggingarlag lerkis hversu þétt er gróðursett? Fyrstu niðurstöður frá LT-verkefninu“, eftir Þórveigu Jóhannsdóttur, Lárus Heiðarsson og Bjarna Diðrik Sigurðsson

„Broddfura 100 ára þegn í gróðurríki landsins“, eftir Kristin H. Þorsteinsson

„Ástand skóga heimsins“, eftir Mette Løyche Wilkie

„Verðmæti leynast í greinum og kvistum“, viðtal Einars Arnar Jónssonar við Guðmund Magnússon

„Af ræktuðum smíðaviði“, eftir Jón Guðmundsson

„Verkefnið Yndisgróður og uppbygging safnreita garð- og landslagsplantna“, eftir Samson Bjarnar Harðarson

„Frumkvöðull skógræktarstarfs á Þingvöllum“, eftir Einar Örn Jónsson

„Flatarmáls skóglendis flokkað eftir sveitarfélögum og skógræktarfélögum“, eftir Björn Traustason

„Hið ljósa tré“, eftir Pétur J. Jónasson

„Sýn og skipulag sumarbústaðalanda“, eftir Jón Ásgeir Jónsson

„Rauðavatnsstöðin – elstu minjar um skógrækt í Reykjavík“, eftir Sigurð G. Tómasson

Að auki eru minningargreinar um Baldur Helgason, Stefán Pétur Eggertsson og Sigvalda Ásgeirsson.

Með ritinu fylgir til áskrifenda nýjasta Frækornið og fjallar það um hlíðaramal.

Skógræktarritið er leiðarvísir fyrir alla er rækta tré og skóga og er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi. Það er því vettvangur allra áhugasamra um skógrækt og tengd efni og efnisumfjöllun því mjög fjölbreytt.

Skógræktarritið er selt í áskrift og í lausasölu á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands að Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík, sími 551-8150, netfang skog@skog.is. Nýir áskrifendur fá tvö síðustu rit að gjöf. Að auki fylgir nú með fallegur smjörhnífur úr íslenskum viði. Nú er rétta tækifærið til þess að prófa áskrift!

Ef áskrifendur vilja gera athugasemdir, t.d. varðandi breytt heimilisfang, er hægt að senda þær á netfangið: skog@skog.is.

skogrit2013-1

Fræðsluganga: Selhólar í Lækjarbotnum – Gróður, jarðfræði og saga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðslugöngu þriðjudagskvöldið 11. júní undir leiðsögn Friðriks Baldurssonar garðyrkjustjóra Kópavogs og Gísla Bragasonar jarðfræðings. Í Lækjarbotnum er áhugavert útvistarsvæði í fögru umhverfi sem þó fáir vita af. Horft verður sérstaklega til gróðurs, jarðfræði og sögu staðarins.

Lagt verður af stað í gönguna frá bílastæði skammt frá Tröllabörnum við Suðurlandsveg kl. 19:30.

sk kop gangajun

Hreinsunar – og fræðsludagur í Hermannsgarði í Guðmundarlundi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hreinsunar- og fræðsludagur verður í Hermannsgarði í Guðmundarlundi í Kópavogi fimmtudaginn 6. júní kl. 17:00 – 20:30.

Það er ýmislegt sem þarf að gera eins og að raka og hreinsa beð, skipta plöntum og spjalla saman. Hermannsgarður er samvinnuverkefni Kópavogsbæjar, Skógræktarfélags Kópavogs og Garðyrkjufélags Íslands til minningar um Hermann Lundholm garðyrkjuráðunaut.

Verkfæri verða á staðnum og boðið verður upp á grillaðar pylsur og gos.

Þetta er tilvalin leið fyrir félaga til að hittast og spjalla og bera saman bækur sínar. Fyrir félaga sem eru að stíga sín fyrstu spor í ræktun er þetta upplagt tækifæri til að læra til verka, skoða hönnun, staðsetningu og plöntuval.

Athugið að hver og einn getur mætt þegar henni/honum hentar frá kl 17:00.

Félagar eru hvattir til að fjölmenna og taka með sér gesti.

Sjá nánar og leiðarlýsingu í Guðmundarlund á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Aðalfundur Skógræktarfélags Suður-Þingeyingar verður haldinn í Ýdölum, fimmtudaginn 6. júní og hefst kl. 20:30.

Að fundi loknum mun Ingi Tryggvason, Narfastöðum, rifja upp upphaf og þróun skógræktarmála í héraðinu.

Ekki missa af þeim gullmolum.

Kaffi og meðlæti í boði félagsins.

 

Allir velkomnir!

 

Stjórn Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga

merki-sthing